18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

106. mál, framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Aðeins fá orð.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. þótti þetta ekki heppilegur tími til að ræða það mikilvæga mál sem hér er til umr. Ég get vel tekið undir það. Ekki hefði ég haft á móti því að flytja framsögu mína á öðrum tíma, þó að ég sé hins vegar ekki að telja eftir mér að gera það á þessum tíma, jafnvel þó að það frestist eitthvað matartíminn hjá mér. Svo þýðingarmikið mál er þetta. Ég veit líka að hv. 1. þm. Norðurl. v. er ekki að telja þetta eftir af slíkum ástæðum.

Hv. 1. þm. Norðurl. v., fór nokkrum orðum um sveitarafvæðinguna. Ég er honum alveg sammála um þá óhæfu sem það er að við skulum ekki vera búnir að ljúka sveitarafvæðingunni, þ.e. að tengja við samveitur þá sveitabæi sem ætlunin er að tengja við samveitur.

Hv. þm. sagði að það hefði verið músagangur í því fé sem hefði verið varið til sveitarafvæðingar. Ég hygg að þarna sé um misskilning að ræða. Það er kannske vegna þess að sú hungurlús, sem á undanförnum þremur árum hefur verið veitt á fjárlögum í þessu skyni, hefur verið svo lítil að það hefur naumast dugað til annars en að standa undir kostnaði við heimtaugar á sveitabæi á þeim stöðum sem þegar hafa fengið rafmagn, t.d. ef það er beiðni um heimtaug í nýtt hús eða þess konar. Fjármagn í þessu skyni hefur alltaf verið tekið af því sem ætlað hefur verið sveitarafvæðingunni og orkuráð hefur ekki getað breytt neinu um það.

Hv. þm. fór nokkrum óvægilegum orðum um orkuráð. Það þykir mér mjög ómaklegt, og það segi ég jafnt fyrir það að ég er ekki núna formaður orkuráðs. En ég hef verið það á undanförnum árum.

Hv. þm. sagði að orkuráð hefði ekki sýnt sveitarafvæðingunni nægan sóma, og síðan hnykkti hann á þessu með því að segja að frammistaða orkuráðs í sveitarafvæðingunni væri til háborinnar skammar. Ég held að hv. þm. hefði ekki komist svo að orði ef hann gerði sér grein fyrir hvernig þessi mál hafa staðið. Það get ég sagt hér, að við fjárlagagerð fyrir árið 1978, þ.e. 1977, lagði orkuráð einróma til, — það hefur aldrei verið neinn ágreiningur í orkuráði um þetta, menn úr öllum flokkum hafa staðið að þessu, — að lokið yrði á árinu 1978 sveitarafvæðingunni. Það varð ekki gert. Það náði ekki fram að ganga. Við hv. 1. þm. Norðurl. v. bárum báðir ábyrgð á þeirri ríkisstj. sem þá sat. En þetta náði ekki fram að ganga.

Orkuráð gerði ítrekaðar tilraunir til að koma þessu fram, en það var alltaf talað fyrir daufum eyrum. Árið eftir gerir orkuráð samþykkt enn á ný, að á árinu 1979 sé lokið sveitarafvæðingunni. Enn endurtekur sig sama sagan. Við gerum margítrekaðar tilraunir, samþykktir, eigum viðtöl við ráðh. og ríkisstj. og stjórnvöld til þess að breyta þessu. Það kom fyrir ekki.

Í þriðja sinn gerum við till. fyrir árið 1980. Enn fer á sömu leið. Þá er að vísu komin ný ríkisstj. sem ég bar ekki ábyrgð á, en hv. 1. þm. Norðurl. v., en hún var ekkert betri. Það var alveg nákvæmlega sama. Og nú er það svo, að ég var þá formaður orkuráðs, þegar við á síðasta sumri gerðum fjárlagatillögur orkuráðs fyrir árið 1980. En nú erum við búnir að fá frv. til fjárlaga í hendur sem sýnir að það er engin breyting í raun og veru í þessum efnum.

Ég skal ekki vera að deila á neinn sérstakan fyrir þetta. En ég leyfi mér að mótmæla því, að hægt sé að ásaka orkuráð um ástand þessara mála. Og ég vil segja hér, að það er ekki nokkurt mál sem orkuráð hefur á undanförnum árum lagt meiri áherslu á en þetta. Það var af þeim ástæðum, sem ég nefndi í frumræðu minni og hv. 1. þm. Norðurl. v. tók undir, að hér er um raunverulega lítið mál að ræða, en ákaflega þýðingarmikið fyrir þá sem það varðar.

Ég vil aðeins segja það, að það olli mér nokkrum vonbrigðum þegar hv. þm. sagði í upphafi máls síns að þessi till., sem við ræðum hér, væri dæmigerð aðgerð stjórnarandstöðu til að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum í landinu. Og hann lét að því liggja að það væri ekki meira meint með þessu en svo, að það mundi a.m.k. af sumum sem að þessu stæðu — ekki vera staðið að því á þann veg að standa með að útvega fjármagn til að framkvæma þetta. Mér finnst miður að hv. 1. þm. Norðurl. v. skyldi segja þetta. Það er algjörlega ástæðulaust að segja slíkt. Þessi till. fjallar einungis um að gerð sé áætlun. Þegar áætlunin liggur fyrir tökum við ákvörðun um hvað miklu fjármagni er hægt að verja til framkvæmda. Við skulum ekki fara að bregða hver öðrum á þessu stigi um það, að þá komi á daginn að við séum ekki heilir í þessu máli.

Hv. þm. gaf tilefni til þessara athugasemda með því sem hann sagði í fyrstu orðum ræðu sinnar. En ég heyrði ekki betur, og á því átti ég von, en í lok ræðunnar væri hv. þm. fullkomlega samþykkur till. og mundi styðja jákvæða afgreiðslu hennar. Raunar hefur mér aldrei komið annað til hugar. Mér hefur ekki komið til hugar annað en að orðið geti almenn samstaða um till. hér á þingi, og ég vænti þess, vegna þess hve málið er brýnt, að það hljóti sem skjótasta afgreiðslu í þeirri nefnd sem væntanlega fær það til meðferðar.