18.03.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

106. mál, framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í framhaldi af ræðu hv. þm. Þorv. Garðars.

Það, sem ég átti við með orðum mínum um orkuráð, var það, og ég vek athygli á að ég hafði fleiri undir sama hatti og orkuráð, að við höfum varið miklu fé til orkumála á undanförnum árum. Þau eru mjög mikilvæg fyrir búsetu okkar í landinu og lífskjör okkar. Sumu af þessu fé, og ég vil vona að meiri partinum hafi verið vel varið og skynsamlega, en sumu af því hefur ekki verið skynsamlega varið. Og ef við hv. þm. Þorv. Garðar settumst nú niður og skoðuðum ákvarðanir orkuráðs á undanförnum árum hygg ég að ég gæti bent honum á nokkur atriði þar sem ég gæti sannað mitt mál, að fullyrðingar mínar voru ekki staðlausir stafir. En ég ætla ekki að gera það hér eða nú.

Það sem ég talaði um stjórnarandstöðutillögur, og kom nú aðeins við kviku hjá hv. þm., má ekki skilja svo að ég álíti stjórnarandstöðutillögur óþarfar. Ég lít á stjórnarandstöðutillögur sem nauðsynlegar, ekki síst þegar það eru skynsamlegar stjórnarandstöðutillögur eins og þessi er. Stjórnarandstaða er mjög mikilvæg og nauðsynleg í stjórnskipulagi eins og okkar, að veita aðhald þeirri stjórn sem fer með völd á hverjum tíma. Þess vegna er allt þjóðstjórnartal ákaflega mislukkað í mörgum tilfellum. En við höfum nú fengið nóg af því á þessum vetri.

Hér er verið að tala um áætlun sem kostar tugi milljarða að framkvæma. Ég held að við megum ekki gleyma fjárhagshliðinni, jafnvel þó að kannske komi ekki að okkur að snara út fyrir þessu fyrr en eftir eitt eða tvö ár.