19.03.1980
Efri deild: 49. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

124. mál, söluskattur

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það er óhætt að taka undir það, að söluskattslögin eru flókin og heill frumskógur að höggva sig í gegnum, eins og kom fram hjá flm. frv. áðan. Ég kem fyrst og fremst í pontuna til að lýsa stuðningi mínum við þetta frv. Mér sýnist þetta vera réttlætismál og öfugsnúin skattheimta, eins og kom reyndar fram áðan, og beinlínis um það að ræða að leiðrétta þarna misræmi sem er greinilega í lögunum. Ég vil þakka flm. frv. fyrir að hafa lagt á sig að höggva ofurlitið greiðari leið inn í frumskóg, sem söluskattslögin eru, og bæta um leið hag neytenda úti á landsbyggðinni.

Það hefur komið hér fram, að þetta er dæmigert stjórnarandstöðufrv. Það er dálítið fróðlegt fyrir nýliða að fá svona upplýsingar. Það kom fram hjá hv. þm. Helga Seljan áðan og reyndar fleiri að sams konar mál hafi margsinnis komið fram á Alþ. Þá verður manni spurn: Hvernig stendur á að hv. þm. — eru ekki búnir að kippa þessu í liðinn fyrir löngu? — Kannske er það vegna þess, sem kom hér fram, að það er stjórnarandstöðufrv. og þess vegna ekki hægt að leysa málið.

En nú hafa hv. þm., sem tilheyra stjórnarliðinu, lofað bót og betrun, ætla að styðja þetta frv. Þá verðum við að treysta á að þeir hjálpi málinu áleiðis, fái ríkisstj. til að taka hér vel á málum. Ég hvet þess vegna til þess að málið fái skjóta afgreiðslu og góðan framgang.