19.03.1980
Efri deild: 49. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

124. mál, söluskattur

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að auka mörgum orðum við þá umr., sem hér hefur átt sér stað þegar um þetta mál, og hef raunar ekki átt kost á að hlýða á hana alla svo sem ég hefði viljað. En í sem fæstum orðum vildi ég segja það, að hér er fyrst og fremst um réttlætismál að ræða að mínum dómi. Þær fjárupphæðir, sem hér er um að tefla, eru ekki verulegar, einhverjar þó. Við höfum heyrt nefnd hin fáránlegustu dæmi um þann rugling og það misræmi sem er í þessum málum. Ég hef fundið það ákaflega vel víða í mínu kjördæmi, einkum þó á Snæfellsnesi norðanverðu, hve mönnum þykir mikið misrétti að þurfa að búa við það að greiða söluskatt af flutningskostnaði sem bætist ofan á ýmislegt annað óhagræði. Þess vegna held ég að sjálfsagt sé að fram fari ítarleg athugun á þessu máli. Ég hygg að sú athugun muni leiða í ljós að þetta sé ekki fjárhagslega neitt stórmál og tiltölulega auðvelt að leiðrétta það og stíga þannig skref, þótt lítið sé, í þá átt að jafna aðstöðu fólks hér á landi.