19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Sú umr., sem hér hefur farið fram í dag, hefur ekki snúist mikið um efnisatriði þess frv. sem hér er á dagskrá, sem er frv. til l. um breyt. á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Efnisatriðin hafa í rauninni ekki verið rædd að neinu marki í þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar.

Það var ákaflega athyglisvert að hv. 9. þm. Reykv., sem er oft og tíðum allákafur skattalækkunarpostuli í ræðum sínum, taldi enga ástæðu til að taka efnislega afstöðu til þessa mikilvæga frv. í mjög langri ræðu sinni áðan. Hún fjallaði nánast öll um mína lítilmótlegu persónu, en efnisatriði tekjustofnafrv. komu aldrei við sögu í ræðu hv. þm. Ég spyr hvort þetta gæti verið merki þess að Alþfl. hafi eitthvað skipt um skoðun, hvort hann sé núna þeirrar skoðunar sem hann var í vinstri stjórninni, að eðlilegt sé að tekjustofnar sveitarfélaganna verði verðtryggðir, eins og margoft kom þar fram í ítarlegum tillöguflutningi forvera míns í ráðherrastól, hv. 5. þm. Suðurl. Mér heyrðist á því, hvað hv. þm. Vilmundur Gylfason sýndi þessu máli mikið tómlæti áðan efnislega, að það benti til þess að hann væri þarna að þokast aftur inn á þá braut sem flokkur hans fór um hríð. (VG: Ég skal flytja aðra ræðu um málið og hana helmingi lengri.)

Ég vil hins vegar segja það, að eftir að við ræddum þetta frv. við 2. umr. á dögunum hafa þau tíðindi gerst, að fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga hefur gert í þessum málum ákveðna samþykkt. Þessi samþykkt hefur ekki komið inn í umr. á hv. Alþ. til þessa, og ég tel ástæðu til þess að gera grein fyrir samþykktinni hér. Samþykktin var á þessa leið:

„Fulltrúaráðið gerir kröfu til þess, að tekjustofnar sveitarfélaga fylgi verðlagi, og bendir í því sambandi á minnkandi vægi útsvara í tekjum sveitarfélaga. Fulltrúaráðið ítrekar fyrri samþykktir um staðgreiðslu opinberra gjalda og bendir á að með því móti verði komið til móts við óskir sveitarfélaganna um verðtryggingu tekna þeirra. Fulltrúaráðið tekur undir fram komið frv. um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og þá rýmkun heimilda til útsvarsálagningar sem þar er gert ráð fyrir. Fulltrúaráðið telur eðlilegt að leggja aukna ábyrgð og aukið vald í hendur sveitarstjórna til ákvörðunar útsvarsprósentu, þannig að í samráði við borgarana sé mögulegt að leggja á hærri útsvör en almennt gerist vegna sérstakra verkefna. Jafnframt er bent á að í skattheimtu opinberra aðila verði að taka mið af því, að gjaldþoti borgaranna verði ekki misboðið.

Hér leggur Samband ísl. sveitarfélaga áherslu á það grundvallaratriði, að tekjustofnar sveitarfélaganna hafa verið að þrengjast. Hérna leggur Samband ísl. sveitarfélaga áherslu á að tekjustofnar sveitarfélaganna verði verðtryggðir. Með þeim tillögum, sem hér eru uppi og samþykktar hafa verið við 2. umr., er gert ráð fyrir að koma nokkuð til móts við sveitarfélögin að þessu leyti.

Á fundi fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga var borin upp tillaga frá allshn. fundarins um tekjustofna sveitarfélaganna. Í þeirri tillögu var orðalag m.a. á þessa leið við lokaafgreiðslu málsins: „Fulltrúaráðið tekur undir fram komið frv. um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga“ o.s.frv., eins og ég las áðan. Þessi tillaga var samþ. með 12:6 atkv. á þessum fundi og að endanlegri afgreiðslu málsins stóðu menn úr öllum þeim stjórnmálaflokkum sem fulltrúa eiga hér á Alþ., þannig að sá málflutningur, sem hér er hafður uppi af hv. 6. þm. Reykv., af hv. 9. þm. Reykv. og ýmsum fleiri hv. alþm., ber vott um að hér vilja menn draga þetta mál inn í flokkspólitískt skæklatog. Það eru ekki efnislegar ástæður sem valda þeim löngu og ítarlegu ræðum sem hafa verið fluttar um persónur einstakra ráðh. í dag. Hér er um það að ræða, að menn vilja draga þetta inn í almennt pólitískt skæklatog.

Ég vil segja hv. þm. það, að ef þeir telja nauðsynlegt að halda áfram að ræða þetta mál fram eftir degi í dag, meðan enn er bjart, erum við reiðubúnir til þess. En við viljum ræða um málin efnislega. Það hefur ekki verið reynt af ræðumönnum í dag, öðrum en hv. þm. Friðrik Sophussyni og svo hæstv. fjmrh. sem talaði í upphafi umr. En málflutningur af því tagi sem hér var tíðkaður á Þingeyrarplaninu af hv. 1. þm. Vestf. og hv. 7. landsk. þm. er ekki sæmandi þessari stofnun, ef menn óska eftir því að hér fari fram málefnaleg skoðanaskipti. Hv. 9. þm. Reykv. getur kallað þetta forstjóraviðbrögð af minni hálfu eða hvað sem honum sýnist. Grundvallaratriðið er það, að hérna hafi menn uppi sanngjörn og málefnaleg skoðanaskipti. Ég hélt að menn væru hingað komnir til þess.

Ég vil í framhaldi af þeim upplýsingum, sem fram komu hjá hæstv, fjmrh. í dag, aðeins ítreka nokkur atriði til þess að leggja áherslu á málefnalegan grundvöll þeirra mála sem hér eru á dagskrá.

Að óbreyttum lögum um tekjuskatt hefði persónuafsláttur upp í útsvar á þessu ári orðið 1768 millj. kr. samkv. þeim áætlunum sem fyrir liggja. Auðvitað getur skakkað einhverju þar, en samkv. bestu manna yfirsýn og vitund er talan þessi. Samkv. þeim tillögum, sem ríkisstj. hefur samþykki fyrir sitt leyti að gera um persónuafslátt frá útsvari, er gert ráð fyrir að þessi tala verði ekki 1768 millj., eins og verið hefði að óbreyttu, heldur 3850 millj. kr. Hér er um að ræða í sambærilegum krónum hækkun um ca. 118% á ónýttum persónuafslætti upp í útsvar. Þessi breyting kemur auðvitað fyrst og fremst láglaunafólki til góða, enda er greinilegt af þeim úrtökum, sem unnin hafa verið á skattframtölum, að verulegur hluti láglaunafólks eða liðlega 1/5 hluti útsvarsgreiðenda að óbreyttu mundi steppa við útsvar samkv. þessum tillögum.

Við 2. umr. þessa máls á dögunum lagði ég á það mikla áherslu, og mér finnst nauðsynlegt að hv. alþm. átti sig á málunum út frá því sjónarhorni, að tekjustofnar sveitarfélaga eru í raun og veru sérstakt mál sem tilheyrir þeim þætti sem að sveitarfélögunum snýr hér í landinu. En tekjujöfnunarskyldan, hv. 9. þm. Reykv. og aðrir viðstaddir hér, er á hendi ríkisins, þannig að það er persónuafslátturinn upp í útsvör sem skiptir sköpum um þann þunga sem útsvörin valda á hverjum gjaldanda. Nú hefur það komið fram á fundi Alþ. í dag, í ræðu hæstv. fjmrh., hver þessi persónuafsláttur verður. Hann hefur meira að segja rakið nokkur atriði auk þess úr gjaldstiganum. Ég segi: Þær upplýsingar eru nægilegar til þess að menn taki afstöðu til málsins efnislega. Ef menn hins vegar kjósa að vera hér uppi einvörðungu til þess að hafa í frammi einhverjar pólitískar æfingarverður það að hafa sinn gang, en efnisleg afstaða á að geta legið fyrir eftir þeim upplýsingum sem þegar hafa komið fram.

Ég vil segja vegna till. hv. 5. þm. Suðurl., sem ber fram till., vafalaust af góðum hug, að sú till, mundi í rauninni fyrst og fremst þýða að það yrðu minni útgjöld af hálfu ríkisins til þess að greiða upp í útsvar með ónýttum persónuafslætti en ella væri. Menn þurfa að átta sig á því, að hér er í raun og veru ekki fyrst og fremst verið að létta kvöðum af gjaldendum sjálfum, heldur er verið að létta á ríkinu. Menn þurfa að átta sig á því samhengi sem er milli útsvarsafsláttarins annars vegar og persónuafsláttarins hins vegar. Hérna er um að ræða grundvallaratriði sem menn þurfa að átta sig á. Þess vegna er það sem ég endurtek að ég tel að öll efnisatriði í þessu máli liggi fyrir eftir það sem fram kom af hálfu hæstv. fjmrh. í upphafi umr. í dag.

Hæstv. fjmrh. sagði að frv. sem fjallar um tekjuskatt og skattstiga, yrði tilbúið í kringum helgina, sem þýðir að frv. yrði í fyrsta lagi útbýtt á mánudag eða þriðjudag á Alþ. Það er skammur tími eftir til páska. Á þeim tíma þurfum við að afgreiða fjárlög, á þeim tíma þurfum við að afgreiða ýmis önnur mál sem hafa legið í óreiðu í ríkiskerfinu vegna þess hvernig við hlutina var skilið af vissum pólitískum öflum á haustdögum. Þessa hluti þarf að leysa og það nú á næstu dögum. Þess vegna er engin ástæða til þess, ekki heldur efnisleg, að fara að fresta umr. um þetta mál á þessum fundi. Þess vegna er ég samþykkur þeirri ákvörðun hæstv. forseta að halda sig við dagskrá þessa fundar og ræða þetta mál áfram eins og menn telja nauðsyn bera til. En ég skora á hv. alþm. að halda sig við efnisatriði málsins.