19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég lít svo á að hæstv. félmrh. hafi hafnað tilmælum þm. í þessari hv. d. um að fá eins til tveggja daga frest á afgreiðslu þessa máls svo að hægt væri að skoða það í samhengi við þá stefnu sem hæstv. ríkisstj. er nú að marka í sambandi við ákvörðun á skattstiga í tekjuskatti. Hæstv. ráðh. svarar neitandi ósk þm. um að þessi mál geti orðið samferða.

Þá er best að bera upp aðra ósk við hæstv. ráðh., ósk um frestun málsins, en á öðrum forsendum. Ég er hér með lög, hæstv. ráðh., um stjórn efnahagsmála o.fl., sem hæstv. ráðh. eins og allir aðrir handhafar framkvæmdavalds í núv. ríkisstj. á að virða. Í II. kafla þessara laga er fjallað um samráð stjórnvalda við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda.

Hæstv. forseti. Ég hefði áhuga á því, að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson væri staddur í salnum, vegna þeirrar spurningar sem ég hef hug á að bera upp við hæstv. félmrh. Ég geri hlé á máli mínu þangað til athugað verður hvort hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson getur hlýtt á mál mitt. (Gripið fram í.) Ekki hefur hæstv. félmrh. sent hann heim. (Gripið fram í.) Nei, samflokksmann sinn, hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson (Gripið fram í.) Þá er hv. þm. enn sjálfráður og má vera hér.

Ég þakka hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni fyrir að sinna tilmalum mínum og vera viðstaddur. Ég hef áhuga á að bera upp spurningu við hæstv. félmrh. sem varðar mjög þau samtök sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson er í forsvari fyrir.

Ég sagði að í landinu væru í gildi lög um stjórn efnahagsmála, sem samþ. voru á hinu háa Alþingi 7. apríl árið 1979. Þau lög fjalla fyrst og fremst um hvernig handhafar framkvæmdavaldsins í landinu, hæstv. ráðh., eiga að starfa í rn. sínum. Ef einhverjir ættu að halda lög landsins eru það væntanlega ráðh. sjálfir, ekki síst vegna þess að þeir áttu manna drýgstan þátt í að samþykkja þau.

Í II. kafla þessara laga eru ákvæði um hver skuli vera, — ekki hver megi vera eða helst eigi að vera, heldur hver skuli vera samráð stjórnvalda við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda. Í þeim kafla er beinlínis mælt fyrir um það skýrt og skorinort, hæstv. ráðh., að þú og starfsbræður þínir í rn. eigi að hafa samráð við launþegasamtökin um þá tekjustefnu sem ríkisstj. markar hverju sinni, m.a. í sambandi við framlagningu á málum er varða útsvör og skatta. Það er beinlínis tekið fram í þessum lögum, að hæstv. ráðh. Alþb. sem og annarra stjórnmálaflokka í þessu landi er skylt að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, m.a. samtök hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, ef áformað er að leggja á nýja skatta. Nú spyr ég: Hefur hæstv. félmrh. fylgt þessum lagafyrirmælum? Hefur hæstv. ríkisstj. haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, við Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæ]a, Verkamannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands, bændasamtökin og aðra slíka um þá aðgerð að hækka álagningu á útsvörum um 10%? Ef það hefur ekki verið gert, hvers vegna? Hvers vegna, hæstv, ráðh., hefur það ekki verið gert? Og hafi það ekki verið gert, ætlar hæstv. ráðh. þá ekki að láta af því verða? Hæstv. ráðh. ber lagaleg skylda til þess að standa svona að málum. Og ég spyr hann: Hefur hæstv. ráðh. farið að þessum lögum eða hefur hann brotið þau? Hefur hann brotið lög á launafólki? Hefur hann brotið þau fyrirmæli sem honum ber að fara eftir um samráð við aðila vinnumarkaðarins um mál af þessu tagi? Ef hann hefur gert það, ætlar hann að halda áfram að gera það? Ef hann ætlar að halda áfram að brjóta þessi lagafyrirmæli um samráð við aðila vinnumarkaðarins, af hverju?

Hæstv. ríkisstj. hefur nú boðað og tekið fram að engar grunnkaupshækkanir verði á þessu ári ef hún fái að ráða. Ein meginforsenda fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. er kauprán upp á 4.5%. Sjálf meginforsenda fjárlagafrv., sem hæstv. ráðh. Alþb. standa að og gefa út og bera meiri ábyrgð á en nokkrir aðrir menn í ríkisstj., er sú, að á sama tíma og stefnt er að verðlagshækkunum í landinu upp á 46.5% megi laun ekki hækka nema um 42%. Þetta stendur orðrétt í frv. Mér er fyllilega kunnugt um að hæstv. ríkisstj. hafði ekkert samráð við aðila vinnumarkaðarins um þessa stefnu sína. Nei, hún boðaði þetta af eigin rammleik, og hæstv. ráðh. Svavar Gestsson og fleiri sögðu: Þetta getum við, við þurfum ekkert að leita til ykkar um þetta. — En hæstv. ráðh., finnst þér ekki ásamt öðrum hæstv. ráðh. í þessari ríkisstj. ástæða til, þegar til þess er litið að ríkisstj. hefur ákveðið og tilkynnt í fyrsta tagi engar grunnkaupshækkanir á þessu ári, í,öðru tagi kauprán upp á 4.5%, að ríkisstj. gegni þeim skyldum, sem lög landsins skipa henni að rækja, og hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins um þá tekjustefnu sem nú er verið að marka með afgreiðslu frv. um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem gert er ráð fyrir að hækka útsvar á lágtekjufólki um 10%, og með þeim hækkunum á skattstiga sem hæstv. fjmrh. var að gera grein fyrir áðan?

Hæstv. félmrh. hefur neitað óskum alþm. um tveggja daga frest til þess að hægt sé að skoða í samhengi áform ríkisstj. um skattstiga og áform ríkisstj. um 10% hækkun á útsvari. En nú spyr ég hæstv. ráðh.: Hafnar hann líka óskum um að hann fari að lögum, sem samþykkt voru á Alþingi 7. apríl 1979, og óski eftir að aðilar vinnumarkaðarins, m.a. samtök hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, láti í ljós álit sitt á þessari aðgerð? Hæstv. ráðh. ber skylda samkv. lögunum til að starfa þannig. Hann hefur af einhverjum ástæðum vanrækt þá skyldu sína. Það kann e.t.v. að vera af því að honum hafi ekki verið skyldan ljós. Nú er honum hún væntanlega ljós. Hæstv. ráðh. getur fengið sérprentun af þessum lögum frammi á skrifstofu. Athygli hans hefur verið vakin á þeirri skyldu sem lög landsins leggja honum á herðar gagnvart aðilum vinnumarkaðarins, gagnvart því fólki sem hann til skamms tíma hefur einkum og sér í lagi talið sig fulltrúa fyrir, þ.e. launafólkinu. Þegar athygli hæstv. ráðh. hefur verið vakin á þessari skyldu hans við launafólkið, m.a. í Reykjavík, í kjördæmi hæstv. ráðh., krefst ég þess, að hann gefi á því skýringu ef hann ætlar að bregðast þessu fólki, ef hann ætlar að vanvirða þá skyldu sem landslög leggja honum á herðar um hvernig hann á að umgangast launafólk á Íslandi.