19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hef ekki mikla reynslu í því að sitja á hv. Alþ., en ég verð þó að segja eins og er, að ef vinnubrögð almennt hér á hv. þingi eru eins og þau hafa verið í dag í sambandi við afgreiðslu og meðferð þessa máls er ekki von að betur fari um ýmsa þætti í þjóðfélaginu en raun ber vitni um.

Þetta mál var til 2. umr. í þessari hv. d. á fimmtudaginn var. Þá var því mjög haldið fram af þeim þm. sem þá töluðu, að þetta mál væri ekki hægt að afgreiða nema þm. hefðu fyrir framan sig hvernig heildarskattbyrðin í landinu mundi líta út. Þess var eindregið farið á leit við hæstv. forseta d. þá, að þeirri umr., sem þá fór fram, yrði frestað og þm. gæfist kostur á að sjá heildarmyndina. Þessa ósk báru þm. fram hver á fætur öðrum á kurteislegan hátt, eins og vera ber í jafnvirðulegri stofnun, en forseti neitaði jafnharðan að verða við þeim sjálfsögðu óskum. Auðvitað átti að fresta umr. þá, fresta málinu og bíða í þá örfáu daga sem liðu þar til hæstv. ríkisstj. gæti lagt fram tillögur sínar um skattstiga.

Til marks um það, hvað hér var raunverulega um eðlilega og sjálfsagða ósk að ræða, gerðist það í upphafi umr. í dag að hæstv. fjmrh. skýrði frá því, hverjar yrðu væntanlega tillögur ríkisstj. varðandi skattstigana í tekjuskattsálagningunni. Þetta eru þó ekki annað en tillögur sem enn er verið að ræða innan ríkisstj. Því er alveg fráleitt þegar hæstv. félmrh. kemur nú upp í ræðustól og segir að búið sé að leggja öll efnisatriði þessa máls svo rækilega fyrir að hægt sé að taka það til efnislegrar afgreiðslu og umr. hér. (Félmrh.: Það gat Samband ísl. sveitarfélaga.) Þetta er ekki rétt. Samband ísl. sveitarfélaga tók á þessu máli á allt annan hátt en ætlast er til að við gerum í þessari hv. d. Samband ísl. sveitarfélaga sem frjáls samtök sveitarfélaga getur alls ekki orðið neitt fordæmi fyrir okkur alþm., það veit ég að hæstv. félmrh. skilur og veit.

Það er ekki hægt að koma í þessa hv. d. og segja við okkur þm. að við eigum að geta tekið efnislega afstöðu til þessa máls á grundvelli upplýsinga fjmrh. um hvað sé verið að ræða í ríkisstj. Alþ. á auðvitað eftir að fjalla um þessar tillögur, á eftir að átta sig á því, hvernig þær koma út gagnvart hinum einstöku skattþegnum.

Sannleikurinn er sá, að þessar tillögur, eins og þeim var lýst áðan, þessi skattstigi, eins og honum var lýst áðan af hæstv. fjmrh. lítur ekki glæsilega út. Hann ber vitni um að enn stendur til að hækka skattbyrðina, ekki á þeim hæst launuðu, heldur á öllum meðal- og miðlungstekjum í landinu. Og eins og fram kom réttilega hjá hv. 9. þm. Reykv. áðan mun t.d. stór hluti af opinberum starfsmönnum lenda í hæsta skattþrepi. Stór hluti af öllum iðnaðarmönnum í landinu, stór hluti af sjómönnum og duglegu fólki í fiskvinnslu úti um allt land mun lenda í hæsta 50% skattstiga, sem nú er verið að boða okkur hér á Alþ. Þannig er alveg fráleitt að ætlast til þess, að við getum tekið afstöðu til þessa máls á grundvelli munnlegra upplýsinga hæstv.félmrh. um hvernig skattstigi við álagningu eigi að líta út.

Mig undrar og ég verð að lýsa yfir furðu minni, vonbrigðum og jafnframt reiði yfir því, að hæstv. ríkisstj. og forsetar þessarar hv. d. skuli ætla að knýja þetta mál fram með jafnmiklu offorsi og raun ber vitni, vegna þess að það liggur ekkert á. Hér er um að ræða einhverja stífni, einhverja undarlega þvermóðsku af hálfu hæstv. ríkisstj. Við skulum átta okkur á því, að sveitarstjórnirnar í landinu afgreiða almennt ekki fjárhagsáætlanir sínar fyrr en fjárlög liggja fyrir. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur t.d. samþ. að afgreiða ekki fjárhagsáætlun sína fyrr en 19. apríl n.k. Mér er kunnugt um margar sveitarstjórnir í nágrenninu sem ekki ætla sér að afgreiða sínar fjárhagsáætlanir fyrr en eftir páska, og þannig hygg ég að sé víða um land. Það dagaspursmál, sem ríkisstj. setur á oddinn í þessu máli, er því furðulegt og maður áttar sig alls ekki á því, af hvaða hvötum það er runnið.

Það er að sjálfsögðu mikill misskilningur hjá hæstv. félmrh. að umr. í dag eigi sér stað vegna þess að menn hafi áhuga á að halda uppi einhverju flokkspólitísku skæklatogi. Hér er um að ræða stærsta mál sem enn hefur verið til afgreiðslu á hv. Alþ. eftir að ríkisstj. tók við völdum. Það er spurningin um hversu þungar og miklar skattbyrðar verði lagðar á almenning í þessu landi. Við höfum ekki fengið til meðhöndlunar og afgreiðslu jafnstórt mál enn þá, og það er þess vegna eðlilegt og það hefði verið sjálfsögð kurteisisskylda við okkur alþm. að gefa okkur gott færi á að kanna það mál samhliða álagningu útsvara og álagningu tekjuskatts.

Samband ísl. sveitarfélaga fjallaði um þetta mál á fundi sínum fyrir helgina, á fimmtudag og föstudag hygg ég að það hafi verið, og hæstv. félmrh. las upp almenna yfirlýsingin sem þessi fulltrúaráðsfundur samþykkti, þar sem hann mælti með því að útsvarsheimildin yrði hækkuð úr 11% í 12.1%. En hæstv. félmrh. gat ekki um eitt atriði. Hann gat ekki um að jafnframt var á þessum fundi flutt viðaukatillaga við aðaltill., þess efnis, að ríkið skyldi draga úr sinni beinu skattheimtu að sama skapi og hækkun útsvara á allan almenning næmi. Þessi tillaga féll með 13:12 atkv. Einhugurinn og eindrægnin hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga var því ekki meiri í þessu máli en svo, að það féll með einu atkv. að ríkið drægi úr skattheimtu sinni að sama skapi.

Það er annað sem við skulum hafa í huga líka þegar þetta mál er til umr. og verið er að vitna í Samband ísl. sveitarfélaga. Ég hygg að þessi fundur sambandsins hafi ekki haft fyrir framan sig þær tillögur sem þeir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, 10. landsk. þm., og Pétur Sigurðsson, 1. landsk. þm., fluttu hér um að hægt væri að leysa fjárhagsvandamál sveitarfélaganna á annan hátt. Þær till. lágu ekki fyrir fundi Sambands ísl. sveitarfélaga. Mér er nær að halda, eftir minni reynslu og þekkingu af sveitarstjórnarmönnum sem þennan fund sátu, að hafi þeir haft þær till. í huga hefði verið talið eðlilegra að farið væri inn á þá leið sem þessir hv. þm. lögðu til sem bráðabirgða aðgerð þar til búið væri endanlega að ganga frá verkefna- og tekjustofnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég vitna til þess sem ég sagði í upphafi þegar ég gat um mína litlu þingreynslu og birti vonbrigði mín yfir því hvernig á þessu máli hefur verið haldið. Þess hefur verið farið á leit við mig og aðra þm. nokkrum sinnum á þeim tíma sem ég hef setið á þingi að við greiddum fyrir afgreiðslu mála á hv. Alþ. g hef tekið vel í það fyrir mitt leyti, og ég hygg að aðrir þm. Sjálfstfl. hafi gert það einnig hingað til. En þegar við sjáum nú hvaða tökum á að beita þingið, þegar við sjáum nú að sjálfsagðri ósk og beiðni um frestun á máli í einn, tvo eða þrjá daga, meðan hæstv. ríkisstj. er að leggja fram tillögur um endanlega skattstiga, er hafnað af jafnmiklu offorsi og hér ber vott um má skilja það svo, að ríkisstj. sé að stíga fyrsta skrefið út í stríð við stjórnarandstöðuna, — stríð sem við stjórnarandstöðuþm. höfum ekki átt neitt frumkvæði að. Við höfum fallist á að greiða fyrir afgreiðslu mála eins og óskað hefur verið eftir. En þegar við berum fram, bæði einstakir þm. og þingflokkur Sjálfstfl. í heild, jafnsjálfsagða ósk og hér hefur verið borin fram og henni er hafnað af jafnmiklu offorsi og hér hefur gerst þá er hæstv. ríkisstj. að stíga fyrsta skrefið út í stríð við stjórnarandstöðuna. Ég mun hugsa mig a.m.k. tvisvar um áður en ég samþykki að standa fyrir því að greitt sé fyrir afgreiðslu mála á hv. Alþ. Þingflokkur Sjálfstfl. stóð í heild að þeirri ósk, að þessu máli yrði frestað, og formaður þingflokksins bar þessa ósk fram við 1. varaforseta þessarar d. áður en fundur hófst áðan, en hann neitaði því.

Herra forseti. Ég ætta ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég ítreka vonbrigði mín yfir því hvernig með þetta mál er farið hér. Við höfum haft fullkomlega efnisleg rök og höfum enn fullkomlega efnisleg rök fyrir því, að þessari umr. sé frestað og þm. gefist tækifæri til að líta á skattbyrði á landsmenn í heild, en því hefur verið hafnað af hæstv. ríkisstj. og þeim forsetum þessarar hv. d. sem hér hafa stjórnað í dag.