19.12.1979
Neðri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Frv. um verðjöfnunargjald af raforku er árlegur viðburður hér á Alþ. eins og jólin og páskarnir, og þá hafa sumir farið af stað og lýst yfir að þeir séu mjög andvígir þessu gjaldi.

Mér fannst vænt um það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 6. þm. Reykv., að það gæti verið vafasamt hvort fyrirsögn þessa frv. væri rétt, þar sem rætt er um verðjöfnunargjald af raforku, því að auðvitað borga þeir, sem hæst rafmagnsverð borga, tiltölulega hærra verðjöfnunargjald. Að því leyti er þessi fyrirsögn frv. röng. Hins vegar njóta þau byggðarlög þess þar sem verðjöfnunargjaldið rennur til raforkuframkvæmda á vegum RARIK og Orkubús Vestfjarða, sem er tiltölulega ung stofnun, en var áður að verulegu leyti undir RARIK, auk sjálfstæðra rafmagnsveitna á Vestfjörðum.

Ég get alveg tekið undir að mjög æskilegt væri að taka upp nýjan hátt á því, hvernig eigi að gera þessum orkufyrirtækjum rekstur og framkvæmdir eðlilegar. En það hefur vafist fyrir allmörgum ríkisstj. að gera það, og með allri virðingu fyrir þeirri ríkisstj., sem nú situr og kölluð er starfsstjórn, held ég að þm. almennt geti ekki búist við því að núv. hæstv. iðnrh. hafi í því umróti öllu, sem verið hefur í landsmálum undanfarna mánuði, getað gert tillögur um gerbreytingu á þessum málum.

Menn tala um arðbærar og óarðbærar framkvæmdir. Það má að mínum dómi líta á það með ýmsu móti. Það má segja að lagning sveitalínu til örfárra bæja geti ekki talist arðbær framkvæmd í þröngri merkingu. En ef við höfum merkinguna viðtækari held ég að frá þjóðhagslegu sjónarmiði sé arðbært og eðlilegt fyrir þjóðfélagið að halda uppi byggð sem víðast um landið. Þess vegna tel ég að fyrirtæki eins og RARIK og Orkubú Vestfjarða geti ekki lagt það á notendur sína eina að standa undir slíkum framkvæmdum. Það er algerlega útilokað. Og ef það er skylda samfélagsins að láta sem flesta landsmenn njóta sem jafnastra og bestra kjara og umbóta hlýtur það að vera samfélagsins alls að standa undir þeim félagslegu umbótum sem slíkt hefur í för með sér. Það er gert með þessu verðjöfnunargjaldi. Það verður aldrei hægt að reka RARIK eða Orkubú Vestfjarða hallalaust, ef á að leggja á þessa aðila eina eða notendur rafmagns á þessum svæðum eina að standa undir öðrum félagslegum umbótum í sambandi við lagningu rafmagnslínu, því að það hlýtur alltaf að verða hlutverk og verkefni samfélagsins í heild. Því má auðvitað segja — og ég get að vissu leyti tekið undir orð hv. 6. þm. Reykv. — að á margan hátt sé eðlilegra að leysa þennan hluta þessa vanda með öðrum hætti, með beinum fjárframlögum á fjárlögum, en því sem snertir reksturinn, eðlilegan rekstur. verða auðvitað notendur á þessum svæðum að standa undir að verulegu leyti.

Ég kom í ræðustólinn til að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv., eins og ég hef gert áður. Á s.l. ári riðluðust flokkafylkingar í sambandi við svipað frv. um verðjöfnunargjald af raforku. Ég fyrir mitt leyti tel að þetta frv. sé ekki nema lítill hluti af þeim stóra og mikla vanda sem fram undan er, því að minnka þarf þann mikla aðstöðumun sem er á því að lifa lífinu í þessu landi. Þá minni ég á þann mikla aðstöðumun sem er varðandi kyndingarkostnað víða um land, annars vegar á hitaveitusvæðunum og hins vegar á þeim stöðum þar sem verður að kynda með olíu sem hefur margfaldast í verði, eins og allir vita, af ástæðum sem við ráðum ekki við og vitum um. Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel ekki réttlátt að búa við allt að sexfaldan kostnað víða á landinu til þess að hita upp híbýli sín samanborið við minnstan kostnað. Það er ekki vansalaust fyrir þessa virðulegu stofnun, Alþingi, að taka þau mál ekki föstum tökum. — Það virðist fátt vera tekið föstum tökum í þessari virðulegu stofnun nú þessa daga og haustdaga alla. En ég held fyrir mitt leyti að mál sé að linni þeim ósköpum og tekið verði til hendinni og leiðrétt jafnauðfundið og auðskilið ranglæti og ég hef hér nefnt.