19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Um langan aldur hafa ákveðnar samskiptareglur gilt milli manna og flokka hér á þinginu. Ef þessar samskiptareglur riðlast, þá er hætt við að þingstörfin verði með einkennilegum hætti. Því miður er það það sem hefur gerst hér, og ég harma það. Þingflokkarnir eru það mikilvægar einingar í starfi þingsins og hafa það mikilvægu hlutskipti að gegna, að ef breytt verður með þeim hætti út frá þeim vinnu­brögðum og reglum, sem gilt hafa á Alþingi Íslendinga, að hluti þingflokka sé nánast gerður óstarfhæfur, þá verða þingstörfin með þeim brag sem sett hafa svipmót sitt á þennan fund. Þm. eiga ekki að gera sér leik að slíku. Annað hvort eiga þeir að vera í þingflokknum og virða þær reglur, sem þar gilda, ellegar þá, ef þeir geta ekki gert slíkt, að hafa sig þar á brott svo að þingið geti starfað með eðlilegum hætti.

Virðulegi forseti. Mér er fullkomlega ljóst að forseti er hér í mjög erfiðri aðstöðu. Ég held að það sé ekki Alþ. til framdráttar að halda áfram þessum umr. við þær að­stæður sem nú eru og hafa verið síðustu mínúturnar. Nokkrir þm. eru á mælendaskrá, eftir því sem mér er best kunnugt, og klukkan er að verða 7. Það er vaninn undir slíkum kringumstæðum að forsetar fresti þá fundi þingsins, og ég vil eindregið mælast til þess við hæstv. forseta sem á í erfiðum málum, og ég skil hans erfiðu aðstöðu, — ég vil eindregið mælast til þess við hæstv. forseta, að hann fresti nú fundinum og geri síðan tilraun til þess ásamt hæstv. félmrh. að ná samkomulagi við þm. um hvernig að afgreiðslu þessa máls skuli staðið, reyni að gera það þrátt fyrir það að nokkrir einstaklingar í okkar hópi hafi gert sér leik að því að brjóta ævafornar venjur um starfsemi þessarar stofnunar, henni til mikils tjóns, álitshnekkis og skaða.