19.12.1979
Neðri deild: 6. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu taka undir það, að þau mál, sem hér eru til umræðu, þarfnast ítarlegri umræðu og meira átaks en ætlast er til í þessu frv. Ég vil líka að það komi hér fram, að ég er algjörlega sammála um það, að vissir þættir í rafvæðingu landsins eru félagslegs efnis og það er að minni hyggju sjálfsagt að ríkisvaldið taki þar til höndunum að verulegu leyti.

En ástæðan til þess, að ég mælist aftur eindregið til að hv. þd. láti þetta frv. fara nú í gegn án breytinga, er sá vandi sem er fram undan og tími hefur ekki unnist til að skoða á annan hátt, að verði þetta frv. ekki samþykkt nú fyrir áramótin er þetta gjald ekki til eftir áramót og RARIK kemst þá í nýjan og meiri vanda en það er statt í nú.

Varðandi þá brtt., sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson boðaði hér, vil ég benda hv. þm. á að frv. er að öllu leyti eins og frv. sem fyrrv. iðnrh., sem þá var hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, flutti í fyrra — að öllu leyti eins nema að ártalinu. Þá var talið nægilegt að kæmi fram í grg. til hvers gjaldið skyldi notað: „Gjaldið er nauðsynlegt til þess að bæta úr fjárhagsörðugleikum fyrirtækjanna og til þess að hamla gegn hinum mikla mun á raforkuverði í landinu, sem bitnar mest á viðskiptavinum RARIK og Orkubús Vestfjarða.“

Eftir þessari grein, sem er að vísu í aths., hefur verið farið, og ég get lofað því, að á meðan ég sit í þeim stól, sem ég sit nú í, skuli þar verða hagað eins framkvæmdum með þetta gjald og var á s.l. ári. En fyrir eftirkornanda minn get ég náttúrlega ekki lofað þessu. Ég hygg að það megi þó treysta því, að ekki verði breytt um framkvæmd á málinu hver sem í iðnaðarráðherrastóli situr, því að þetta er fyrst og fremst komið undir framkvæmdum hjá RARIK.

Ég vil líka geta þess, að hv. þm. Stefán Jónsson hafði uppi ráðagerðir um að flytja svipaða brtt. við þetta frv. í Ed., en hætti við það eftir að hann var búinn að hlusta á röksemdir rafmagnsstjóra, Kristjáns Jónssonar, um að mikil nauðsyn væri að þetta mál gengi fram nú fyrir þinghlé. Ég leyfi mér að vænta þess, að við umhugsun geri nú hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hið sama.

Út af spurningum sem hann nefndi hér varðandi fjárlagafrv., bæði Tómasar Árnasonar og Sighvats Björgvinssonar, sem ég leyfi mér að kenna við þá fjmrh. fyrst og fremst, að framlagið hafi verið lækkað í síðara frv., þá held ég að ég megi fullyrða, þó ég taki þann vara á að ég get ekki staðfest það, en ég held ég megi fullyrða að þarna sé færsla á milli fjárlaga og lánsfjáráætlunar, það sé ekki hugsað að láta minna í þetta en var í fjárlagafrv. Tómasar Árnasonar, en fjármagna það á annan hátt að hluta. Síðan kemur það að sjálfsögðu til skoðunar fjvn., hvort hún vill taka þarna meira inn í, og síst af öllu vildi ég hafa á móti því. En það skulu vera mín lokaorð að ég mælist mjög eindregið til þess, eins og staðan er með þetta frv., að hv. þd. gæti séð sér fært að afgreiða það óbreytt fyrir þinghlé.