19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, þá er hann kannske búinn að vera 13 árum of lengi hér. En í sambandi við það, sem hér er rætt, vil ég taka undir það, að það er með ólíkindum að umr. skuli vera haldið áfram, miðað við þær kringum­stæður sem eru í þd. Vera má að það sé rétt hjá hæstv. landbrh., að hér hafi verið rædd ágreiningsmál í þd. eða Sþ. á meðan fjvn. hefur verið að störfum, en það hefur margoft verið að þessu fundið. Og þó að þess séu for­dæmi, að slíkt sé gert, þá er ekki nauðsynlegt að halda slíkum leik áfram. Til þess eru vítin að varast þau, og ef menn sjá margt ábótavant víð það sem er að gerast, þá ber að laga það, en ekki halda áfram í troðna slóð, þó að fordæmi séu fyrir því að slíkt hafi verið gert.

Ég hygg þó — a.m.k. man ég ekki eftir því þann tíma sem ég hef hér verið — að jafnmikið ágreiningsmál og þetta er hafi verið rætt undir þessum kringumstæðum. Það er ekki einungis það, að fjvn. eða stór hluti þd. er fjarverandi. Sá forseti, sem hér á að stýra fundi, er fjarverandi. Sá sami einstaklingur er formaður þeirrar n. sem málið var hjá. Hann hafði framsögu fyrir því máli hér í þinginu, og hann er 1. flm.till. um ágreinings­efnið sem hér er fyrst og fremst um að ræða. Það er því óeðlilegt að hér sé haldið uppi hörðum umr. og deilum um málið meðan sá einstaklingur er ekki viðstaddur. Auk þessa er hæstv. fjmrh., sem eðli málsins samkv. ætti hér að vera til andsvara, ekki staddur hér á deildarfundi. Til hans hefur verið beint fjöldamörgum fsp. vegna þeirra upplýsinga sem hann gaf í upphafi fundar í dag, og það er eðlilegt að þm. æski þess að þeim sé svarað. Allt þetta hlýtur að benda til þess, að hér sé óeðlilega að máli staðið. Það er því eindregin og ítrekuð ósk til hæstv. forseta, að hann fresti þessum fundi og freisti þess að fá hæstv. ríkisstj. — og kannske fyrst og fremst hæstv. félmrh. sem virðist vera mesti eintrjáningurinn í þessum efnum — til þess að sætta sig við að umr. verði frestað.