19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér um ræðir, á þskj. 111, hefur hlotið hér allmikla umfjöllun og um þetta mál hafa orðið miklar umr. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um það langt mál, sérstaklega með tilliti til þess, hversu erfiðlega gekk að koma því á dagskrá, sé ég ástæðu til að stytta mál mitt enn meir en ég hafði hugsað mér.

Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um þetta mál, og leggur meiri hl. til, að það verði samþ., minni hl. skilar séráliti, en fjarverandi afgreiðslu voru þeir Atbert Guðmundsson og Guðmundur J. Guðmundsson.

Það kom fram í störfum nefndarinnar sú ósk, að reynt yrði að upplýsa hvers konar lán hér væri um að ræða, hvaða lán verður tekið til þess að standa við þá skuld­bindingu sem felst í samþykkt þessa frv. Um það liggur ekkert annað fyrir en það, að lánið verður erlent lán, tekið með milligöngu Búnaðarbanka Íslands. Undir­búningur hefur verið og er enn þá í fullum gangi.

Að sjálfsögðu liggur ekkert fyrir um það fyrr en láns­samningur hefur verið gerður, hver verða kjör lánsins, og jafnvel þótt eitthvað lægi fyrir um það, þá væri ekki skynsamlegt að upplýsa það þegar verið er að leita eftir erlendum lánum. Hitt er svo annað mál, að það er ljóst, að vextir á erlendum lánum hafa farið hækkandi og þurfum við Íslendingar sjálfsagt til þess mjög að líta. Við verðum einnig að gæta þess að taka ekki svo mikil erlend lán, að við föllum þar í gæðaflokki, ef svo má segja. Þeir aðilar, sem skulda hvað mest, þurfa að greiða hærri vexti og verður að sjálfsögðu mun erfiðara að ráða við slíkt eftir því sem lán verða meiri fyrir sérhvert þjóðfélag.

Ég vil aðeins endurtaka það, að meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. þetta verði samþ. óbreytt.