19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Þó ég sé nú ekki flm. þessa máls vil ég leyfa mér að þakka hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. fyrir þá afgreiðslu, sem hér kemur fram, og vonast eftir því, að frv. þetta nái afgreiðslu héðan úr d. nú allra næstu daga.

Það er rétt, sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen, að mikil saga liggur að baki þessu frv. og sá vandi, sem við er að etja í landbúnaði, á sér alllanga sögu. Hans var farið að gæta fyrir nokkrum árum, og sá vandi hefur farið vaxandi. Það er enn fremur allt rétt sem hann sagði um vinnubrögð þeirrar nefndar sem starfaði að þessu vandamáli á s.l. sumri, og þarf ekki að ítreka það. Það hefur verið tekið fram áður.

Varðandi þá lántöku, sem fyrirhuguð er til þess að mæta þessum vanda í kjölfar lagasetningar, hefur — eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. n. — farið fram undirbúningur að því að slík lántaka gæti farið fram. Væntanlega verður um erlent lán að ræða fyrir milli­göngu Búnaðarbanka Íslands, og ætti ekki að þurfa að tefjast nema örfáa daga, frá því að frv. þetta verður afgreitt, að gengið verði frá lántöku og það fjármagn, sem hér er um að ræða, komi til nota.

Ég get tekið undir það, að æskilegra hefði verið á ýmsan hátt að hér væri um innlenda lántöku að ræða. Og það má segja, að sumpart hefði verið eðlilegra að það væri þá með þeim hætti að þessi lántaka væri liður í lánsfjáráætlun ríkisstj. En ég get upplýst það, að ég hef lagt kapp á að hraða afgreiðslu þessa máls og tengja það ekki almennum lántökum ríkisins, vegna þess að ef það væri gert og beðið eftir afgreiðslu lánsfjáráætlunar mundi þetta mál enn væntanlega dragast. Að hluta til er hér skýring á því, hvers vegna um sérstaka lántöku er að ræða, lántöku sem þá er erlent lán vegna þess að ekki er ráðið hversu mjög þurfi að reyna á innlendan lánamark­að til annarra verkefna.

Ég hygg að þessar skýringar nægi við aths. hv. 1. þm. Reykn., sem í sjálfu sér eru að fullu réttmætar. Framkvæmd þessa máls, eftir að lántaka hefur farið fram verður í höndum Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Ég vil þó í því sambandi vísa til tillagna stjórnskipaðrar nefndar sem kölluð var Harðindanefnd og skilaði áliti 28. júlí s.l. Hún lagði m.a. til að 2 000 millj. kr. yrði varið til endurgreiðslu á hluta verðjöfnunargjalda, sem inn­heimt voru á s.l. ári, og að 1000 millj. kr. yrði varið til að greiða halla vegna sölu birgða sem til voru í lok verðlags­ársins, 31. ágúst s.l. Ég tel eðlilegt að við framkvæmd málsins verði farið að þessum tillögum nefndarinnar.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða þetta mál miklu frekar við þessa umr. Ég vil aðeins taka það fram, sem öllum er ljóst, að það hefur verið vitað, frá því að sú stjórnskipaða nefnd, sem bar nafnið Harðindanefnd, starfaði á síðasta sumri, að Alþfl. er ekki samþykkur málinu í þessum farvegi og því ekki samþykkur þessu frv. eins og það liggur fyrir. Þetta hefur verið öllum ljóst og það jafnframt, að hinir þrír stjórnmálaflokkarnir í landinu hafa verið því samþykkir að málið næði fram að ganga með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.

Ég vil segja það í sambandi við ræðu hv. þm. Karvels Pálmasonar, að hún bar mikinn svip af velvilja í garð bændastéttarinnar. Sú ræða bar þess merki, sem mér kemur ekkert á óvart, að hv. þm. Karvel Pálmason hefur miklar taugar til þess fólks sem byggir sveitir landsins, á sama hátt og ég þykist hafa orðið var við að hann hafi velvilja til þess fólks sem vinnur hörðum höndum við sjávarsíðuna ekki síður en í sveitum. Hv. þm. Karvel Pálmason tók það fram, að ekki mætti rýra kjörin hjá bændum, það væri furðulegt, að bændur þyrftu að bíða eftir launum sínum, og það væri furðulegt, að bændur næðu ekki þeim tekjum, sem þeim væru ætlaðar. Hann taldi að sumir bændur væru það illa staddir, að þeir væru á svipuðu stigi, og verkamenn voru fyrir nærfellt hálfri öld. Má vera að þetta geti verið rétt. Ég veit til þess, að ýmsir bændur eru erfiðlega staddir og það mjög, en hvort þeir eru á svipuðu stigi að þessu leyti og verkamenn voru fyrir 40 – 50 árum skal ég ekki um dæma. Hitt er ljóst, að ef þetta er rétt, þá er full ástæða til þess að rétta þessari stétt hjálparhönd í þeim aðstæðum sem ríkja. Þess vegna var það dálítið öfugt að farið þegar kom að því að lýsa till. frá hv. minni hl. n., sem ganga yfirleitt í þá átt að skerða möguleika og tekjutryggingu bændastétt­arinnar. Það mátti einnig glöggt heyra, að það var hv. þm. Karvel Pálmasyni nokkur raun að mæla hér fyrir stefnu Alþfl. í landbúnaðarmálum.

Ég ætla ekki að rekja þessa stefnu en ef að því væri horfið að setja nú svokallaða niðurtalningaraðferð á út­flutningsbætur án þess að nokkuð annað fylgdi, þá er þar auðvitað unnið beint að því að skerða þá tekjutryggingu sem Alþingi hefur með lögum markað bændum. Og hvernig verða þá kjör þeirra bænda sem hv. þm. taldi að væru sumir hverjir ámóta illa staddir og verkamenn fyrir 40 — 50 árum — já, hvernig yrðu þau þá? Ég ætla ekki að svara þeirri spurningu. En hitt er ljóst, að ef um harðdrægar aðgerðir verður að ræða í þá átt að skerða kjör bændastéttarinnar með því að rýra þá tekjutrygg­ingu sem hún nú hefur lögum samkvæmt, þá verður ekki unnt að halda þeim markmiðum sem ég hygg þrátt fyrir allt að flestir Íslendingar vilji í heiðri hafa, að land okkar verði byggt að sem mestu leyti í svipuðu horfi og það er nú, að bændastéttin búi við svipuð eða sambærileg kjör og ýmsar aðrar stéttir í þjóðfélaginu, og að bændur þurfi þar með ekki að hrökklast frá búum sínum.

Ef framleiðsla búvara yrði stórdregin saman, svo að hún færi í það mark sem innanlandsneyslan er nú, og meiningin væri að halda landinu í byggð, þá mundi annað tveggja gerast: Tekjur bænda mundu stórkostlega drag­ast saman eða verð á búvörum mundi stórkostlega hækka. Þetta verða menn að hafa í huga ef þeir ætla að ríma saman ólíka hluti. Hér er því um mikil vandamál að ræða, — vandamál sem ýmsar ríkisstj. hafa hugsað sér að ná tökum á og núv. ríkisstj. hefur hugsað sér að freista þess að ná betri tökum á en tekist hefur hingað til.

Ég hef látið það koma fram, að til þess hafi verið settir menn frá núv. ríkisstj. að gera uppkast að till. um stefnu í landbúnaðarmálum. E.t.v. þarf að treysta grundvöll slíkrar stefnu með öðrum stjórnvaldsaðgerðum, m.a. með því að setja til þess menn og e.t.v. starfsmenn stofnana að gera úttekt á því, hversu hagkvæm landbún­aðarframleiðslan sé fyrir þjóðfélagið í heild. Er þjóð­hagslega hagstætt að framleiða jafnmikið af mjólk og gert er í dag? Ég hygg að flestir muni nálega óhugsað geta svarað því neitandi, það þurfi að verða um allverulegan samdrátt að ræða til þess að þjóðhagslegum markmiðum verði náð. Næsta spurning er: Er þjóðhagslega hagstætt að framleiða suðfjárafurðir í svipuðu magni og gert er í dag? Ég hef trú á því, ég segi það hreinskilnislega, — ég hef trú á því, að sé það mál skoðað niður í kjölinn og metið bæði hvað snertir tekjur og gjöld þjóðfélagsins í heild, þá muni það reynast þjóðfélaginu hagstætt. Það er trúa mín, en það er ekki nóg. Það þarf að undirbyggja þessa skoðun mína með úttekt, þ. á m. frá hlutlausum aðilum. Og það er sá grundvöllur sem ég tel að þurfi að styrkja undir landbúnaðarstefnunni, sem starfað verður eftir á komandi árum, að byggja þann grundvöll upp með hagrænu mati á gildi framleiðslu þessarar atvinnugrein­ar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða þessi stefnu­mál hér frekar, ég hef látið það í ljós áður í umr. um þetta mál, að væntanlega verði hægt að taka þau mál til sér­stakrar umr. En ég taldi eðlilegt að koma þessum orðum og tiltekinni yfirlýsingu á framfæri og leyfi mér að vonast eftir að málið verði afgreitt frá Alþ. innan mjög fárra daga.