20.03.1980
Neðri deild: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv landbrh. fyrir svör hans. En um leið vil ég vekja athygli á þeirri ályktun sem menn hljóta að draga af svörum hans. Niðurstaðan er afskaplega einföld. Hún er sú, að hér er á ferðinni eitt mesta vandamál sem ég tel að þessi þjóð hafi orðið að glíma við í fjármálum um langt árabil.

Ef við lítum á fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir, og menn á hinu háa Alþingi hafa fjallað um einstaka mála­flokka þess og þá mikilvægustu eins og heilbrigðismál, samgöngumál, hafnamál o.fl., kemur í ljós að sveigjanleiki til breytinga á fjárlagafrv. er afskaplega lítill. Þetta stafar m.a. af því, að mjög há fjárhæð er bundin í útflutningsuppbótum. Nú vil ég ekki að menn skilji orð mín svo, að ég sé talsmaður þeirrar stefnu að hér beri að skera og skera þegar landbúnaðurinn er annars vegar. En ég er talsmaður þeirrar stefnu, að menn viðurkenni þær ógöngur, sem landbúnaðurinn er kominn í, og bregðist við á þann hátt sem nauðsynlegt er. Ég segi það sem skoðun mína, að það hljóti að verða eitt höfuðverk­efni þingsins — eða þess sem eftir lifir af þessu þingi og næsta þings — að móta nýja stefnu í landbúnaðarmálum.

Ég er sannfærður um að hæstv. landbrh. gerir sér ljósa grein fyrir þessu og það geri talsmenn landbúnaðar hér á þingi. Í alllangri tölu, sem ég flutti fyrr þegar þetta frv. var til umr., benti ég á að svo mikil harka hefði verið í samskiptum eða skoðanaskiptum manna um þennan málaflokk, að raunverulega hefði sáralítið vit getað seytlað inn í þær umr. Nú sýnist mér hins vegar að mál hafi snúist svo, að menn játi fyrir sjálfum sér — kannske ekki í orði, en á borði — að landbúnaðarstefnan, sem ég hef kennt við Framsfl. og Sjálfstfl., sé gersamlega hrunin. Það frv., sem við erum að ræða um hér, er, eins og ég sagði áðan, bautasteinn þeirrar stefnu sem ég legg til að verði nú grafin níu fet í jörð niður og á henni reist ný stefna.