24.03.1980
Efri deild: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Enn á ný eru skattamál á dagskrá Alþingis. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt var í vetur frestað að fjalla um álagningarkerfi laga nr. 40 frá 1978, en hins vegar gerðar breytingar á fjölmörgum öðrum tæknilegum þáttum laganna. Lögin frá 1978 voru á sínum tímum hugsuð í tengslum við nýskipan skattamála sem fæli það í sér að staðgreiðslu­kerfi yrði tekið upp. En á Alþ. varð niðurstaðan á sínum tíma að staðgreiðslufrv., sem fylgdi skattafrv., dagaði uppi. En skattafrv. var þó afgreitt með óbreyttum skattstigum eins og til stæði að framkvæma staðgreiðslu um leið og hið nýja skattkerfi tæki gildi. Af þessum ástæðum er óhjákvæmilegt að endurskoða skattstiga frv. miðað við breyttar forsendur og vegna verðbólguþróun­ar á undanförnum tveimur árum.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru byggt á einni grundvallarforsendu framar öllu öðru. Það byggist á þeirri grundvallarforsendu, að tekjuskattur einstakl­inga í ríkissjóð verði 38.7 milljarðar kr. í innheimtum tekjum, sem sagt að frv. og hin nýju lög skili ríkissjóði þessari upphæð. Þessi upphæð er þannig hugsuð og þannig fengin, að tekið var úrtak úr framtölum ársins 1979, þ.e. framtölum vegna tekna ársins 1978, og var u.þ.b. tuttugasta hvert framtal í því úrtaki. Allar fjárhæðir í úrtaksframtölunum voru skráðar á tölvutækt form. Þessar fjárhæðir hafa síðan verið hækkaðar upp um 45%, en það er það hlutfall sem er talið samsvara meðal­hækkun tekna framteljenda milli áranna 1978 og 1979. Fjárhæðin 38.7 milljarðar er sú upphæð sem gömlu skattalögin hefðu væntanlega gefið, miðað við að skatt­vísitala hefði verið hækkuð um 45%.

Nú er það svo, að þegar skattstiginn er ákveðinn er ekki verið að ákveða hverjar verði innheimtutekjur ríkissjóðs af skattakerfinu, heldur er verið að ákveða hvað álagður skattur gefi. Á milli þessara tveggja hug­taka, álagðs skatts annars vegar og innheimts skatts hins vegar, er nokkurt bil sem hlýtur ávallt að vekja efasemdir og vera með spurningarmerki: Hvernig innheimtast skattarnir og hvernig kemur álagningin út í reynd? Í þessu frv. er gengið út frá því, að álagðir skattar að frádregnum barnabótum og afslætti, sem nýtist til greiðslu sjúkratryggingagjalds og útsvars, nemi nálægt 45 milljörðum kr., það verði sem sagt þessi upphæð sem skili sér í ríkissjóð, 38.7 milljarðar, þegar tillit hefur verið tekið til innheimtuaffalla og annarra atvika sem líkleg eru til að draga niður innheimta upphæð.

Reiknað er með heldur lökum innheimtuárangri á þessu ári vegna ýmiss konar byrjunarörðugleika við breytt innheimtufyrirkomulag. Eins er því ekki að leyna, að tekin er töluverð áhætta þegar breytt er úr einu skatt­kerfi yfir í annað. Það getur verið þar um ákveðna óvissu að ræða, og hafður er fyrirvari um hugsanlega lítils háttar skekkju af þessu lagi.

Þó verður að segja eins og er, að áhættan er miklu meiri hvað varðar skatt af atvinnurekstri heldur en skatt af tekjum einstaklinga.

Skattstigi tekjuskatts einstaklinga er samkv. þessu frv. þannig, að af fyrsta 3 millj. kr. tekjuskattsstofni greiðast 20%, af næstu 3 millj. greiðast 35%, en 50% af því sem umfram er 6 millj. kr. tekjuskattsstofn. Skattafsláttur frá reiknuðum skatti verður 440 þús. kr. og sami skattstigi og sami skattafsláttur gildir fyrir einhleyping og fyrir hvort hjóna um sig.

Ef menn bera þessa skattstiga saman við skattstigana sem ákveðnir voru 1978 er þarna að sjálfsögðu fyrst og fremst um að ræða hækkun á prósentutölum, sem á rætur sínar að rekja til þess, að gömlu lögin voru miðuð við staðgreiðslukerfi, og verðbólguvöxturinn er tekinn inn í reikninginn, þannig að lögin skili svipuðum skatti og verið hefði við staðgreiðslu skatta. Þó er það eftirtektar­vert, að munurinn milli hæsta og lægsta skatthlutfalls er hér talsvert meiri en lögin frá 1978 gáfu tilefni til. Af­leiðing þessa er sú, að aukinn hvati skapast til þess að hjón afli bæði tekna. Er auðvelt að sýna fram á það með því einfalda dæmi, að hafi t.d. annar maki tekjur yfir 6 millj. kr. markinu, en hinn engar tekjur, þyrfti samkv. þessum tillögum að gjalda 50% af tekjum í skatt hjá því hjóna sem tekjur hefði umfram fyrrnefndar 6 millj. kr., en einungis 20% af fyrstu tekjum þess sem áður var tekjulaust.

Barnabætur eru samkv. tillögunum 130 þús. kr. með fyrsta barni, en 200 þús, kr. með hverju barni umfram eitt. Barnabætur með börnum yngri en 7 ára skulu vera 50 þús. kr. hærri en barnabætur með börnum yfir þeim aldri. Einstæð foreldri njóta hæstu barnabóta, eða 250 þús. kr. með hverju barni. Þessar barnabætur eru tvímælalaust ívið hærri en beinn framreikningur á tölum laganna frá 1978. Breyting er nú gerð á sérstökum barnabótum til einstæðra foreldra. Þar var í lögunum frá 1978 mælt fyrir um það. að barnabætur með börnum einstæðra foreldra skyldu vera 40% hærri en barnabætur með öðrum börnum. En það var ljóst, að ákvæði laganna ollu mikilli röskun á skattbyrði einstæðra foreldra innbyrðis, þótt kannske megi segja að skattbyrði hópsins í heild breytist ekki mikið, en þó að vísu heldur til lækkunar. Með því fyrirkomulagi, sem hér er gerð tillaga um, er dregið verulega úr þessari röskun hjá einstökum hópum ein­stæðra foreldra.

Eins og ég hef gert hér grein fyrir, þá er um það að ræða, að heildarskattbyrðin standi nokkurn veginn í stað frá því sem verið hefði að óbreyttu skattkerfi. En auðvit­að verður því ekki neitað, að nokkur tilfærsla verður milli einstakra hópa skattgreiðenda. Þannig lækka skatt­ar einhleypinga að jafnaði um nálægt 12%, en heildar­skattgreiðslur hjóna hækka á hinn bóginn um nær 9% að meðaltali. Skattar lækka almennt hjá tekjulægri hluta gjaldenda, en hækka að sama skapi hjá hinum tekju­hærri. Þetta kemur glögglega fram í töflu 1, þar sem breytingin sem verður er skýrð á nokkuð ljósan hátt.

Ég hef að vísu sterkan grun um það, að neðsta línan í þessari töflu sé haldin prentvillu og eigi að vera: Ein­hleypingar með 10 millj. kr., 400 talsins, meðalbreyting skatta 180 í mínus, en ekki 130, eins og þarna stendur. Ég held að það sé nokkuð öruggt, að þessi prentvilla hafi slæðst inn við prentun frv. í morgun.

Sé hjónum skipt í flokka eftir tekjuöflun eiginkonu er skattalækkun hjá þeim hjónum þar sem eiginkonan aflar engra tekna, það er tvímælalaust. Hjá hjónum þar sem eiginkonan aflar tekna allt að 2 millj. kr., og þá sérstak­lega í efri hluta þess tekjubils, milli 1 millj. og 2 millj., er skattabreytingin nokkuð svipuð og hjá meðaltali hjóna. En hjá þeim hjónum, þar sem eiginkonan aflar meiri tekna en nemur 2 millj. kr., verður hækkunin yfir með­allagi, enda er þar að sjálfsögðu um tekjuhæstu hjónin að ræða að öllum jafnaði.

Hjá u.þ.b. 10% gjaldenda breytast skattar til hækk­unar um meira en sem nemur 3% af brúttótekjum. En hjá jafnstórum hópi verður jafnmikil skattalækkun. Veruleg breyting áskattbyrði verður því einungis hjá 20% gjaldendanna. Þetta kemur glöggt fram á töflu 2, sem er aftasta taflan í frv., þar sem er yfirlit yfir þetta sem ég nú nefndi, hver sé heildarfjöldi þeirra skattgreiðenda þar sem skattbyrðin breytist meira en 3% eða minna en 3%. Og eins og menn sjá á lokatölunni, þar sem gefnar eru upplýsingar um alla framteljendur, þeir eru nú 117 þús. talsins, þá lækkar hjá 10% framteljenda, en hækkar hjá 9% framteljenda. En þetta eru meðaltalstölur sem ber að sjálfsögðu að taka með nokkurri varfærni og varkárni eins og allar meðaltalstölur.

Sé miðað við að almennur frádráttur sé 10% af tekjum, sem er lágmarksfrádráttur, eins og kunnugt er, ef menn kunna að telja fram og telja rétt fram, þá verða skattfrelsismörk einhleypings í tekjuskatti — þá á ég við hámark tekna sem ekki þarf að greiða skatta af til ríkis­sjóðs — 2 444 þús. kr. Sé hins vegar miðað við að frá­drátturinn sé 15%, sem hann er í mjög mörgum tilvikum, þar sem menn hafa t.d. vexti til að draga frá eða eitthvað annað, þá eru þessi skattfrelsismörk einhleypinga 2 588 nús. kr. Vegna sérsköttunar hjóna er alls ekki auðvelt að tala um skattfrelsismörk hjóna sameiginlega nema í því sérstaka tilviki að annað hjóna hafi engar tekjur, en hitt hafi allar tekjurnar. En standi þannig á, að annað hjóna hafi aflað allra teknanna, þá verða barnlaus hjón skatt­laus séu tekjur þeirra undir 4 470 þús. kr., og er þá miðað við 15% frádrátt frá tekjum. En skattfrelsismörk hjóna með tvö börn og þá er reiknað með að annað þeirra sé yngra en 7 ára — þar sem annað hjóna aftar allra tekn­anna og frádráttur er 15% af tekjum verða 5 745 þús. kr. Aftur á móti ef við tökum það tilvik, þar sem bæði hjón afla teknanna, og skiptum tekjuöfluninni jafnt á milli þeirra-sem er líka auðvitað enn eitt tilvik sem hægt er að nefna, þau eru kannske mörg hundruð ef því er að skipta, en eitthvað er rétt að nefna í þessu sambandi þá er ljóst að skattfrelsismörk þessara hjóna eru 7 248 þús. kr., tæplega 7.3 millj.

Í þessu frv. er að sjálfsögðu ekki einungis fjallað um tekjuskatt heldur einnig eignarskatt. Eignarskattsstofn er talinn hafa hækkað milli ára um nálægt 58%. Áður var það svo, að lagt var á hjón sameiginlega. En nú er gert ráð fyrir því, að eignarskattsstofni hjóna sé skipt til helminga milli þeirra og hvort þeirra um sig verði skatt­lagt af sínum hluta eins og um einhleyping væri að ræða. Áður var skattfrjáls eign hjóna 50% hærri en skattfrjáls eign einhleypings, en nú er sem sagt skattfrjáls eign hjóna orðin tvöfalt hærri vegna þess að nýtt kerfi hefur verið tekið upp. Af þessu leiðir einfaldlega, eins og öllum má ljóst vera, að hjón í heild bera minni hluta af heildar­eignarskattsbyrðinni, en hlutur einhleypinga vex að sama skapi.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að skattfrjáls eign hvers einstaklings sé 15 millj. kr. og þá skattfrjáls eign hjóna 30 millj. Þessi upphæð er miðuð við tvær forsendur: Í fyrsta lagi þá forsendu, að eignarskattshlutfallið sé 1.2%, og í öðru lagi að skatturinn skili ríkissjóði 50% hærri fjárhæð en nam tekjum af þessum skatti á s.l. ári. Með því að setja eignarskattinn inn í tölvur og reikna, þá eru sem sagt þessi skattfrelsismörk, 15 millj. kr., fengin með því að gefa sér þessar tvær forsendur sem ég nefndi.

Hér er lagt til að tekjuskattshlutfall lögaðila, þ.e. félaga eða rekstraraðila í félagsformi, verði óbreytt frá því sem var við álagningu á seinasta ári. Skatthlutfallið er 65%, eins og var á seinasta ári, en það er sambærilegt hæsta jaðarskatti í skattstiga einstaklinga, þegar tekið hefur verið tillit til þess að lögaðilar hafa heimild til þess að leggja 25% af tekjum fyrirtækisins í varasjóð, en aðrir hafa ekki þá heimild. Ef tekjuskattshlutfall lögaðila eða rekstraraðila væri lægra en þetta, væri sem sagt hætta á að upp kæmi ósamræmi milli þeirra, sem reka fyrirtæki sín í félagsformi, annars vegar og hinna, sem reka þau í eigin nafni. Eignarskattur lögaðila er hér ákveðinn 1.2%, en það er veruleg lækkun frá því sem var á seinasta ári, þegar eignarskattur lögaðila var 1.6%. Skýringin á þessu er einfaldlega sú, að eignarskattur lögaðila var áður frádráttarbær við álagningu tekjuskatts. Sú heimild hefur hins vegar verið afnumin og því er eðlilegt að samræma þessa tölu við önnur eignarskattshlutföll, þ.e. að hafa hana 1.2% eins og gildir um eignarskatt ein­staklinga. Ef hlutfallið væri mismunandi mundi það geta haft í för með sér ýmiss konar ráðstafanir aðila til þess að fá sem hagstæðasta útkomu úr skattlagningu. Hins vegar má reikna með því, að þrátt fyrir þessa lækkun skatt­hlutfallsins úr 1.6% í 1.2% verði veruleg hækkun á álögðum eignarskatti fyrirtækja sem rekin eru í félags­formi, þar sem búast má við talsvert miklum hækkunum á skattstofninum sjálfum vegna endurmats í kjölfar þeirrar reglu, að eignir eru færðar upp í hlutfalli við verðbreytingar.

Ég hef hér gert grein fyrir meginefni þess frv. sem hér liggur fyrir. Enn á ég þó eftir að gera grein fyrir 1. gr. frv., en hún fjallar um námsfrádrátt þeirra sem eru 16 ára og eldri og stunda nám í a.m.k. 6 mánuði á tekjuárinu. Eins og hv. þm. mun kunnugt bárust kröfur til alþm. um það, þegar tekjuskattsfrv. var til meðferðar í febrúarmánuði, að tekjuskattslögin tækju breytingum til batnaðar í þágu námsmanna, sem töldu sig bera afar skarðan hlut frá borði við þessi nýju tekjuskattslög.

— Það var einkum þrennt, sem námsmenn nefndu. Það var í fyrsta lagi að felld væri niður heimild til þess að draga námskostnað frá tekjum manns í fimm ár eftir að námi lýkur. Sú heimild var í gömlu tekjuskattslögunum, en er ekki í þessum nýju lögum.

Í öðru lagi töldu þeir að námsfrádráttur vegna náms á tekjuárinu, þ.e. á líðandi stund, hefði verið ákveðinn allt of lágur í 30. gr. laganna og þeir yrðu því fyrir verulegum áföllum við þessa breytingu. Námsfrádrátturinn var á s.l. tekjuári þetta frá 94 þús. kr. og upp í 305 þús. kr. fyrir skóla hér innanlands, en fyrir skóla erlendis var frádrátt­urinn frá 580 þús. kr. og upp í 890 þús. Þegar þessar upphæðir hafa verið hækkaðar um 45% miðað við tekjubreytingu milli ára verður auðvitað ljóst, að þær hafa verið ákveðnar af skattstjóra á seinasta ári miklu hærri en gert er ráð fyrir í lögunum, eins og þau liggja nú fyrir, þar sem ekki er gert ráð fyrir að þessi upphæð sé nema 430 þús. kr.

Í þriðja lagi kvörtuðu námsmenn yfir því, að frádráttur á líðandi stund, þ.e. frá liðnu tekjuári, væri ekki yfirfær­anlegur til maka, þannig að ef námsmaðurinn sjálfur hefði engar tekjur, en maki nokkrar tekjur, þá nýttist námsfrádrátturinn að engu leyti. Þetta væri sem sagt breyting frá því sem verið hefði þegar hjón voru sam­sköttuð.

Þessar athugasemdir hafa verið vandlega athugaðar í fjmrn. síðan þessi mál komu til umr. hér á Alþ. fyrir þrem vikum. Það var skoðun þeirra, sem um þessi mál fjölluðu þar, að mjög óeðlilegt væri að taka aftur upp gömlu regluna um það, að námsfrádráttur sé heimilaður í fimm ár eftir að námi lýkur. Þeir menn, sem ég ræddi þetta mál við, töldu að slík heimild væri í hrópandi mótsögn við aðrar þær breytingar, sem verið er að gera á tekjuskatts­lögum með þessari skattkerfisbreytingu, og erfitt væri að réttlæta það, að maður, sem kominn væri í miklar tekjur að námi loknu, fengi að draga frá tekjum sínum kostnað sem hann stofnaði til fyrir mörgum árum, enda sem sagt ekki í samræmi við aðrar þær reglur sem gilda í okkar skattalögum.

Niðurstaðan varð sú, að þessi krafa námsmanna var ekki tekin til greina. Hins vegar þótti eðlilegt að ganga til móts við kröfur námsmanna hvað það snertir að hækka námsfrádrátt á líðandi stund, því að hann er bersýnilega talsvert lægra ákveðinn í þessum lögum en var í fyrra skattkerfi. Og hér er sem sagt gerð till. um það, að námsfrádráttur hjá námsmönnum innanlands verði 500 þús. kr., í staðinn fyrir þær 430 þús. kr. sem áður hafði verið gerð till. um í lögunum, en þessi upphæð skuli vera tvöfalt hærri ef nám er stundað erlendis. Það er ljóst að nám erlendis er miklu dýrara en nám hér innanlands. Þessi frádráttur var tæpar 900 þús. kr. fyrir þá námsmenn, sem stunduðu nám í Bandaríkjunum á s.l. ári, að vísu nokkru lægri fyrir þá sem stunduðu nám í Vestur­-Evrópu, eða 580 þús. kr. En hér er sem sagt gert ráð fyrir því, að fyrst og fremst sé um að ræða tvær viðmiðunar­tölur, 500 þús. kr. annars vegar fyrir nám innanlands og 1 millj. fyrir nám erlendis.

Í öðru lagi er gerð till. um þá breytingu, að frádráttur­inn verði ekki lengur tengdur launatekjum þess sem námið stundar. Af þessari breytingu leiðir það, að frá­drátturinn nýtist maka tekjulauss námsmanns eins og áður var. Vissulega má segja að þessi breyting sé ekki að öllu leyti í samræmi við meginstefnu þeirrar skattkerfis­breytingar sem hér gengur yfir, þar sem verið er að aðskilja skattlagningu hjóna. Þó vitum við að frá þeirri meginreglu eru allmargar undantekningar gerðar í þess­um skattalögum, m.a. breytingar sem fela í sér að milli­færa má ónýttan persónufrádrátt milli hjóna, og svo ann­að dæmi sé nefnt, þá er giftingarfrádráttur millifæran­legur. Því þótti rétt að nánar athuguðu máli að gera hér till. um að þessi frádráttur yrði það líka.

Ég tel að með þessum tveimur breytingum sé gengið verulega til móts við óskir námsmanna, þó að ekki sé að öllu leyti orðið við kröfum þeirra, enda verður að segjast eins og er, að sú krafa, að námsfrádráttur gildi í mörg ár eftir að námi er lokið, hafi að öllu leyti verið óeðlilegasta krafan, sem frá þeim kom,. og í minnstu samræmi við þá kerfisbreytingu sem hér er verið að gera.

Að lokum vil ég geta þess, að námsmenn óskuðu eftir því m.a., að vextir af námslánum yrðu gerðir frádráttar­bærir með sama hætti og vextir af lánum til húsakaupa eru það í núgildandi lögum. Þetta mál er mjög flókið og óneitanlega talsvert álitamál hvort gera á breytingu af þessu tagi. Eins og menn vita eru greiðslur námslána meira eða minna tengdar þeim tekjum sem námsmenn hafa að loknu námi. Og málið fer auðvitað að gerast æðiflókið ef hvort tveggja verður, að endurgreiðsla námslánanna er háð þeim tekjum, sem menn hafa að loknu námi, og tekjur manna, þegar skattur hefur verið greiddur, eru háðar því, hvað þeir eiga að greiða mikið námslán og mikla vexti af slíkum lánum. Við töldum eðli­legra að þessi hlið málsins yrði skoðuð í tengslum við endurskoðun á námslánakerfinu. Þessi tvö atriði tengjast það náið saman, að óeðlilegt er að taka ákvörðun um annan þátt málsins án þess að gera hinum þættinum skil samtímis.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessu frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.