24.03.1980
Neðri deild: 48. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég mun vitaskuld virða þær reglur sem forseti hefur kynnt um hvernig tímamörkum skuli háttað í dag. Mig langar þó til að gera örstutta aths. við mál sem fram kom hjá hæstv. viðskrh. í dag.

Það er í fyrsta lagi mjög eðlilegt að umr. af þessu tagi fari fram á Alþ., því að gengisákvarðanir skipta sköpum um alla aðra efnahagsframvindu í landinu. En hæstv. viðskrh. hafði uppi, að mér þótti, heldur ósmekklegar aths. um blaðamenn sem ekki ættu að skrifa um gengis­mál vegna þess að það kynni að auka á óvissu og óreiðu. (Viðskrh.: Ekki sagði ég það.) Efnislega var það þetta, hæstv. ráðh., sem sagt var. (Gripið fram í.) Og ekki má spyrja. Það er auðvitað alveg satt, að ósmekklegar aths. um þessi efni geta verið mjög hættulegar. En væri ekki nær, vegna þess að þetta er náskylt því sem við höfum verið að ræða, að hæstv. ráðh. líti sér nær og líti til félaga sinna í þessum efnum. Ég hygg að yfirlýsingar eins og sú, sem hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson gaf í Dag­blaðinu mánudaginn 10. mars s.l., séu að vísu ekki einsdæmi, en allt að því þó. Þetta er frétt á baksíðu Dagblaðsins og merkt stöfunum HH. Það mun vera Haukur Helgason. Þar segir í fyrirsögn:

„Hratt gengissig til bjargarfiskvinnslu. — Víst er glæpur að segja það — þótt allir viti það,“ segir hér. Og í frétt­inni sjálfri gefur hæstv. ráðh. hverja yfirlýsinguna á fætur annarri í þá veru og tiltekur að til standi að láta gengið síga um 15%, hvorki meira né minna.

Það skeði á Bretlandi fyrir um það bil 30 árum, að einn hæstv. fjmrh., jafnaðarmaður, gaf óheppilegar yfirlýs­ingar um lúxustolla sem voru að koma í fjárlagafrv. Maðurinn jók auðvitað á brask með þessu þó að fjárlögin væru samþ. aðeins nokkrum klukkutímum síðar. Hann var látinn segja af sér samdægurs. Það er pólitískt sið­ferði sem um er að ræða. Svo kemur hæstv. viðskrh. í þessari umr. í ræðustól og talar um smekklausar spurn­ingar blaðamanna sem valdi efnahagslegri óreiðu, sitj­andi í ráðherrastól við hliðina á hæstv. ráðh. Steingrími Hermannssyni sem tilkynnir að ríkisstj. sé búin að ákveða 15% gengissig, — og 15% er ekki gengissig, heldur gengisfelling, í raun mjög róttæk gengisbreyting sem um er að ræða.

Mér er ljóst að það var fávíslegt af mér út af fyrir sig að bera saman annars vegar siðferði breskra jafnaðar­manna og hins vegar siðferði íslenskra framsóknar­manna. Það er ómaklegt gagnvart flokksbræðrum mín­um í Bretlandi. En engu að síður er þetta auðvitað yfirlýs­ing af því tagi að forkastanlegt er. Hæstv. viðskrh., áður en næstu hnjóðsyrði falla úr ræðustól af þínum munni í garð blaðamanna vil ég ráðleggja að menn litu sér nær, horfðu í eigin barm. Hæstv. ráðh: Steingrímur Her­mannsson á þau ummæli sem féllu í garð ótiltekinna blaðamanna, og málið er þeim mun alvarlegra vegna þess að svo á að heita að Steingrímur Hermannsson sé ráðh. Í öðrum löndum væri hann það ekki lengur eftir svona yfirlýsingar.

Það er mjög alvarlegt sem henti hæstv. ráðh. Ég end­urtek, að í löndum þar sem engin Framsfl. er til, a.m.k. ekki valdamikil stofnun, þykir slíkt svo alvarlegt að menn hafa verið látnir segja af sér af sömu ástæðu. Ég veit að hæstv. viðskrh. Tómas Árnason bæði sér þetta og skilur þegar á það er bent, og þessi mál ættum við að þekkja í nokkru samhengi.

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að fá að segja nokkur orð.