24.03.1980
Efri deild: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er komið á dagskrá, um breyt. á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, var lagt fyrir hv. Nd. Alþingis í desembermánuði og mælti fyrrv. félmrh. fyrir málinu 20. des. Síðan hefur frv. verið rætt allmikið í hv. Nd., eins og mönnum er kunnugt um, og ætla ég ekki að fara mjög nákvæmlega út í efnisatriði þess á þessu stigi málsins.

Meginefni þessa frv. er það, að tekjustofnalögin, þ.e. lögin um tekjustofna sveitarfélaga, eru samkv. frv. að­löguð hinum nýju skattalögum, lögum nr. 40 frá 1978, með síðari breytingum, einkum þó þeim breytingum, sem ákveðnar eru í lögum nr. 1 frá 1980. Fyrstu greinar frv. lúta að þessari samræmingu: 1., 2., 3. og 4. gr. Auk þess er um það að ræða, að sums staðar er kveðið skýrar á um venju sem myndast hefur. T.d. á það við um 4. gr., þar sem talað er um að skattstjórar annist álagningu útsvars, en þetta hefur verið þannig í reynd, að skatt­stjórar hafa annast álagningu útsvars í langflestum til­vikum. Þannig var það á árinu 1979, að skattstjórar lögðu útsvör á 101 967 gjaldendur, en 924 gjaldendur báru útsvar samkv. álagningu sveitarstjórna.

Í 5. gr. frv. er það ákvæði, sem í rauninni hefur mestum deilum valdið, en það er ákvæði um að útsvar megi ekki vera hærra en 11% af útsvarsstofni, en síðan segir í 4. mgr. 5. gr. á þessa leið: „Nú hrökkva útsvör samkv. 1. mgr. ekki fyrir áætluðum útgjöldum og er þá sveitar­stjórn heimilt að hækka þau um 10% að fengnu sam­þykki ráðh.“

Ég vek athygli á því, að þessi mgr. gerir ráð fyrir að hér sé um að ræða vissa skilyrðisbindingu, þannig að sveit­arfélögin þurfi að sýna fram á það, að útsvör þeirra eftir venjulegum reglum hrökkvi ekki fyrir nauðsynlegum út­gjöldum, og þá sé heimilt að hækka þessi útsvör um allt að 10%, enda samþykki félmrh.

Eins og kunnugt er hafa sveitarfélögin á undanförnum árum lagt á það vaxandi áherslu, að.þau fengju leyfi til þess að verðtryggja tekjustofna sína, bæði aðstöðugjöld og sömuleiðis útsvörin sjálf. Ef um þessa verðtryggingu ætti að vera að ræða má gera ráð fyrir að útsvarsprósent­an á þessu ári þyrfti að vera 13 – 14%, miðað við það verðbólgustig sem nú er um að ræða.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er m.ö.o. aðeins komið nokkuð til móts við sveitarfélögin, miðað við þær óskir sem fyrir hafa legið, og á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga var þeirri breytingu, sem hér er lögð til, fagnað sem áfanga í þá átt að sveitarfélögin gætu rýmkað tekjustofna sína.

Það hefur nokkuð verið rætt um það, að hér sé um að ræða mjög verulega þyngingu á fólki, og þá einkum á þeim sem hafa lægstu tekjur. Hér er um að ræða grund­vallarmisskilning. Í hv. Nd. Alþingis var m.a. gagnrýnt að hér væri verið að leggja skatta á elli- og örorkulífeyri, en eins og fram kemur í einni mgr. 3. gr. er gert ráð fyrir að undanþiggja þessar bætur almannatrygginga.

Í umr. um þetta mál hefur það komið fram, að talið er líklegt að yfir landið allt, — miðað við að sveitarfélögin noti sér öll þessa heimild, sem er vafamál að þau geri, en segjum að þau noti hana öll, — yrði um að ræða hækkun á útsvari upp á ca. 5 milljarða kr. Þessi hækkun kemur þó allmisjafnlega niður og er ástæðan fyrst og fremst sú, að samhliða þessari breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér er lögð til, á sér stað skattkerfis­breyting í landinu, þar sem nú er lagt á alla sem einstakl­inga. Við þá skattkerfisbreytingu gerist það, að ónýttur persónuafsláttur upp í útsvar hækkar mjög verulega frá því sem verið hefði að óbreyttum lögum. Þessi hækkun nemur u.þ.b. 2 milljörðum kr. á árinu 1980 frá því sem verið hefði að óbreyttu, miðað við 45% hækkun persónuafsláttar frá s.l. ári. Þetta þýðir að hér er í rauninni jafnframt ákveðið með hinum nýju lögum um tekjuskatt, sem Alþ. hefur samþykkt fyrir nokkru, að létta af allra lægstu tekjunum þessum gjöldum, þar með töldu útsvarinu, með hinum svokallaða ónýtta persónu­afslætti. Hér er um ákaflega stórt og þýðingarmikið atriði að ræða. Og ég legg á það áherslu, að menn hafi vel í huga þegar verið er að horfa á álagningartölur útsvars, að þar er um að ræða tekjustofna sveitarfélaga, en tekjujöfnun­arskyldan í þjóðfélaginu er hins vegar hjá ríkinu. Þessi tekjujöfnunarskylda ríkisins birtist í gegnum svokallað­an persónuafslátt frá reiknuðum skatti, sem kemur einnig upp í útsvar þegar afslátturinn gerir meira en að ná yfir álagðan tekjuskatt hjá einstaklingunum. Með þessu ákvæði, með þessum ónýtta persónuafslætti upp í útsvar gerist það, að u.þ.b. 22% allra útsvarsgreiðenda sleppa við útsvar, þ, e. þeir fá útsvar að fullu uppi borið með persónuafslættinum. U.þ.b. 33–35% útsvarsgreiðenda fá einhvern hluta af útsvarinu uppi borinn með persónu­afslættinum, hinum ónýtta persónuafslætti. Ég bið menn að hafa þetta meginatriði í huga þegar verið er að horfa á þær afleiðingar til íþyngingar, sem eru og væru ella af því frv. sem hér liggur fyrir.

Næstu greinar þessa frv. eru í rauninni fyrst og fremst tæknilegar lagfæringar á þeim tekjustofnalögum, sem í gildi hafa verið, svo og samræming við lög nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Ég tel þó sérstaka ástæðu til þess að víkja hér að 14. gr. frv., en þar er fjallað um aðstöðugjaldsstofninn, hver hann skuli vera. Hann er samræmdur hinum nýju skattalögum þannig að aðstöðu­gjaldsstofn á að vera rekstrarkostnaður sá sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 40/1978. Til rekstrar­kostnaðar í þessu sambandi telst gjaldfærsla samkv. 53. gr. laga nr. 40/1978, en frá honum dregst tekjufærsla samkv. sömu grein. Með þessum hætti svo og með ákvæðum 13 gr. frv. er mjög skýrt hver aðstöðu­gjaldsstofn fyrirtækjanna er.

Í 12. gr. frv. eru ákvæði um það, hvernig fer með greiðslu á útsvari við þá breytingu sem verður þegar hjón hvort í sínu lagi verða sjálfstæðir skattaðilar.

Í 16. gr. eru ákvæði sem lúta að því, hverjir það eru sem borga aðstöðugjald, og þar eru m.a. teknir inn aðilar sem hafa með höndum húsbyggingar eða aðra mann­virkjagerð.

Í 19. gr. eru ákvæði um dráttarvexti, sem eru til sam­ræmis við það sem er í lögum nr. 40/1978. Í 20. gr. svo og í ákvæðunum til bráðabirgða er einnig um að ræða ákvæði sem lúta að þessari samræmingu.

Ég tel að það eigi ekki að vera þörf á því, nema sérstakt tilefni gefist til, að fara ítarlega út í efnisatriði þessa f.Fv. Hv. Ed. hefur verið að fjalla um skattamálin að undan­förnu, m.a. þegar hún afgreiddi á dögunum lög nr. 1/1980 um breyt. á lögum nr. 40/1978.

Ég vil að lokum aðeins geta þess í sambandi við þetta frv., að sú rýmkun, sem verður á tekjustofnum sveitar­félaganna samkv. þessari till., byggist á því ákvæði í málefnasáttmála núv. ríkisstj. sem fjallar um fjárhagsmál sveitarfélaga, en þar segir:

Ríkisstj. telur nauðsynlegt að styrkja fjárhag sveit­arfélaga til að gera þeim kleift að ráða við þau mörgu verkefni, sem þeim ber að sinna.“

Í þessu ákvæði stendur einnig: „Haldið verði áfram endurskoðun verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga.“ Ég vil láta þess getið að síðustu, að tekin hefur verið ákvörðun um það, að sú nefnd, sem nú vinnur að úttekt á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, geti skilað áliti fyrir eða um næstu áramót, en það er þriðji hluti álits þessarar nefndar. Fyrsta hlutanum skilaði hún í apríl 1978, og fjallaði hann um grundvallarsjónarmið í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Öðrum hlutanum skilaði hún í janúar 1980, um stjórnsýslukerfið. Og síðasta hlutanum er gert ráð fyrir að nefndin skili um eða fyrir næstu áramót, en sá hluti fjallar um tekjustofnaskiptinguna sjálfa.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.