24.03.1980
Efri deild: 52. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég hef aldrei og mun aldrei leggjast gegn því að þeir, sem kjörnir hafi verið forustumenn samtaka launafólks á Íslandi, fái að segja álit sitt á þeim frv. sem hér eru til umr. Alþb. hefur ekki þann málstað að það þurfi neitt að óttast umsagnir frá þeim sem raunverulega hugsa um hagsmuni launafólks í þessu landi.

Hins vegar hefur það komið fyrir oftar en einu sinni, eins og ég rakti áðan og staðfestist með þögn hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar, að ríkisstj. Alþfl., sem hér sat, taldi sér ekki þorandi að leggja öll sín frv. undir dóm verkalýðssamtakanna í landinu. Það er alveg ljóst, að ég mun hvorki með þessu frv. né öðru leggjast gegn því. að fulltrúar Alþýðusambands Íslands og fulltrúar Verka­mannasambands Íslands fái að segja álit sitt á frv. Það verður skemmtileg manndómsraun fyrir hv. þm. Karl Steinar Guðnason að ganga til hólmgöngu við formann Verkamannasambandsins, sem hann verður óhjákvæmi­lega að gera eftir þau stóru orð sem hann lét falla áðan á fundi félmn. Ed. Það verða sjálfsagt fleiri en ég sem hlakka til að horfa á það, hvernig hv. þm. Kari Steinar Guðnason stenst þá manndómsraun.