25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég er alveg sammála þeim skilningi sem kom fram hjá hæstv. forsrh. og hæstv. forseta Sþ. varðandi útvarpsumr. um stefnu­ræðu forsrh. Það hlýtur að eiga við upphaf þings hverju sinni, en ekki tilkomu nýrrar ríkisstj.

En fsp. mín vék hins vegar að 53. gr. þingskapanna, þar sem kveðið er svo á, að við aðrar útvarpsumr. — og þá væntanlega þær sem samkv. venju fara fram í lok þings — skuli allir þingflokkar hafa jafnan rétt, sérstök ákvæði um málfrelsi ráðh. gildi ekki við þær umr. Með allri virðingu fyrir hæstv. forseta fannst mér hann ekki svara fyrirspurninni áðan um hvernig bæri að skilja nið­urlag tilkynningar hans. Ég skildi það á þann veg, að hann væri að mælast til þess við þingið að gert væri samkomulag um að vikið yrði frá 53. gr. við þær umr. sem væntanlega fara í hönd við lok þingsins og eru að öllu jöfnu annars eðlis en þær sem aðallega hafa verið gerðar að umræðuefni hér. Það eru sérstaklega skýringar á því sem ég óskaði eftir og hvort slíkt óformlegt samkomulag milli þingflokka getur vikið til hliðar ákvæði 53. gr. þingskapa.