25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Nokkuð virðist mér hér deilt um keisarans skegg. Það liggur hins vegar fyrir, að í Sþ. höfum við samþykkt í atkvgr. að fresta stefnu­ræðu forsrh., en hins vegar höfum við ekki enn þá sam­þykkt að hún verði ekki flutt að þessu sinni. Mér finnst að þau orð, sem hafa komið fram í ræðum, fleiri en einni ræðu hæstv. forsrh., geti ekki átt hér við, þegar hann leggur að líku stefnuræðu og að hann hafi lesið mjög ítarlega, sem hann og gerði þegar ríkisstj. hans hæstv. tók við, stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens, þetta hið bláa kver sem við lesum kvölds og morgna. Þar er um að ræða stefnu- eða stjórnarsáttmála ríkisstj. fyrir yfirstandandi kjörtímabil. Í þessum sáttmála eru ákvæði um verkefni sem hæstv. ríkisstj. ætlar að vinna að á öllu kjörtímabilinu. Hins vegar kveða þingsköp svo á, að forsrh. eigi að flytja stefnuræðu sína í upphafi hvers þings, væntanlega til að skýra hv. Alþ. frá því, hverju ríkisstj. á hverjum tíma ætli að beita sér fyrir og reyna að ná fram og framkvæma á yfirstandandi þingi. Þetta vant­ar okkur enn að vita á hv. Alþ. Við höfum ekki fengið enn að heyra frá hæstv. forsrh. hvernig hann ætlar að skipta í sundur einstökum þáttum þeirra stóru verkefna sem ríkisstj. hefur í stjórnarsáttmála sínum sett sér að fram­kvæma á öllu kjörtímabilinu.

Ég skal fúslega verða við því, þegar kemur til af­greiðslu, að samþykkja að stefnuræða verði ekki flutt. En ég tel nauðsynlegt formsins vegna, því við erum formfastir í sambandi við þingsköp okkar, að það verði borin upp till. um það sem nái samþykki þingsins. Þótt þetta sé ekki mikið mál tel ég það samt sem áður hina réttu leið.