25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

121. mál, greiðslur vegna Búnaðarþings

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Vil­mundur Gylfason hefur bætt nokkuð við sínar fsp. og hefði vel mátt gera það í þeirri fsp. sem hann flutti þinglega. Hann telur að Búnaðarþing njóti þeirra réttinda eitt þinga eða eitt samkoma sem haldnar eru á vegum einstakra stétta að fá greiðslur af almannafé. Ég get játað að ég hef ekki kannað þá hlið málsins. Ég get þó sagt hv. þm. að Búnaðarþing er búið að starfa yfir 60 ár og ég hygg að þessi regla hafi ævinlega gilt. Ég get einnig sagt honum að Búnaðarþing er ekki sambærilegt við þau þing stétta­samtaka sem fjalla um kjaramál. Búnaðarþing fjallar ekki um kjaramál landbúnaðarins. Búnaðarþing er faglegs eðlis — samkoma sem fjallar um málefni sem varða t.a.m. landbúnaðarlöggjöfina og ýmsar breytingar á henni. Fundur á vegum landbúnaðarins, sem fjallar um kjara­mál, er aðalfundur Stéttarsambands bænda. Samkomur á vegum bændasamtakanna njóta ekki framlags úr al­mannasjóðum. Hér er því um skilsmun að ræða sem hv. þm. hefur vafalaust ekki haft kunnugleika til að vita um.

Hvort hér sé rétt að farið skal ég ekki fara frekar út í, en ég tel að Búnaðarþing hafi á undanförnum árum og áratugum veitt mjög mikilsverðar leiðbeiningar í starfi sínu og gert mjög mikilsverðar tillögur sem varða land­búnaðarlöggjöfina og ýmis fagleg málefni landbúnaðar­ins. Þessum þætti tel ég ekki að vert sé að kasta fyrir róða og við skulum ekki vanmeta þann þátt.

Hv. þm. kallar þetta framsóknarmennsku. Þessi framsóknarmennska hefur þá viðgengist t.a.m. í þeirri ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. sem stóð í 12 ár og var nefnd viðreisnarstjórn. Ég get vel trúað því að hv. þm. vilji kenna þá ríkisstj. við framsóknarmennsku.

Hv. þm. gat þess, að á fjárlögum tiltekið ár, sem ég því miður punktaði ekki hjá mér — (Gripið fram í: 1978.) –­-1978, hefði verið áætlað til Búnaðarfélags Íslands 181 millj. kr., en samkv. ríkisreikning það ár hefðu greiðslur til stofnunarinnar numið 218 millj. kr. Þótti hv. þm. frjálslega gengið um almannasjóði. Í þessum orðum hv. þm. felst mjög mikil aðdróttun og ósæmileg aðdróttun, svo að gripið sé til orðalags sem honum er tamt. Það er alkunna, að í því verðbólguþjóðfélagi, sem við lifum í, standast ekki fjárlagatölur. Ríkisreikningur ber með sér að greiðslur til einstakra stofnana hafa oft orðið til muna hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Stundum hefur það verið svo, að fjárlagaafgreiðsla hefur verið miðuð við launa- ­og verðlagsforsendur á haustmánuðum árið áður en fjárlög tóku gildi. Það sjá allir í því þjóðfélagi launa- og verðbólguskriðs sem við lifum í, að þá breytast slíkar áætlanir og raunútgjöld verða hærri. Hv. þm. ætti að spara sér að láta falla stórar aðdróttanir í garð einstakra stofnana þó svo fari að fjárlagatölur fái ekki staðist í verðbólguflóðinu og niðurstöðutölur ríkisreiknings um tiltekna stofnun hafi verið nokkru hærri.

Ég skal ekki fara út í að rekja samanburð við aðrar stofnanir ríkisins, en það væri hægt að gera, og ég hvet hv. þm. til að gera slíkar athuganir sjálfur.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég tel að það sé sumpart af vanþekkingu, að öðru leyti af óaðgæslu og e.t.v. sumpart af fleiri orsökum runnið að hv. þm. telur þessa hluti ósæmilega og óþolandi. (VG: Hvaða fleiri forsendur?) Ég ætla ekkert að útskýra það frekar. Ég get vel búist við því að útskýringar hv. þm. sjálfs séu næg skýring fyrir aðra hv. þm. Hitt er svo næsta hlægileg og langsótt skýring, að undirrótin að þessum hlutum sé það sem hv. þm. kallar röng kjördæmaskipun. Ég ætla að það sé hæfilega fjarstæðukennt til þess að láta þeim aths. hv. þm. ósvarað við þessa umr.