25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

121. mál, greiðslur vegna Búnaðarþings

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Í svörum við þessari fsp. hefur komið í ljós hvílíkur hofmóður fylgir oft þeim mönnum sem ræða um landbúnaðarmál og þykjast vilja verja þá stefnu sem rekin hefur verið í þjóðfélaginu á undanförnum árum í þeim efnum.

Ég vil taka undir það, sem fyrirspyrjandi kom inn á áðan, að það er í hæsta máta óeðlilegt að ein stétt njóti þess að hafa þing á fullum launum hjá ríkinu. (Gripið inn í; Ein stétt?) Búnaðarþing, er það ekki? Já, það eru aðeins bændur sem þangað kjósa. Þetta skiptir tugum millj. Ég hygg að kalla mætti það óþrif að fara svona með fjár­muni. Það skiptir engu máli hvort það hafi verið gert í áratugi eða ekki, það á að afnema svona lagað á meðan aðrir njóta þess ekki líka. Hvað með Sjómannasamband Íslands eða Landssamband ísl. útvegsmanna? Mér er kunnugt um að á þeirra þingum er fjallað um fiskveiði­stefnu og löggjöf einnig — þá löggjöf sem snertir félags­leg málefni sjómanna og einnig löggjöf er snertir út­vegsmenn. Það vill nú svo vel til, að ég hef lesið allar ályktanir og samþykktir og erindi Búnaðarfélagsins og mér sýnist ekki að þar hafi neitt merkilegra skeð en skeður á almennum þingum öðrum, eins og t.d. Sjó­mannasambandsþingi og þingi Landssambands ísl. út­vegsmanna.

Ég vil að fram komi hér að mér finnst þetta óeðlilegt og úr því að verkalýðssamtökin eða þing annarra greina njóta ekki þessara forréttinda á að fella þau niður.