25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

121. mál, greiðslur vegna Búnaðarþings

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt. — Það er eitt af einkennum þeirrar framsóknarmennsku, sem við klínum m.a.s. á sauðmeinlausustu íhaldsmenn á staðnum, að rangfæra það sem sagt er, snúa út úr því og kasta því svo fram eins og það hafi verið sagt. Ég hef aldrei orðað það svo, að á hv. Alþ. ættum við ekki að taka góðum ráðum og tillögum frá öllum þeim sem gerst mega vita, og alls ekki sagt að við ættum að hundsa það sem Búnaðarþing lætur frá sér fara í þeim efnum, þótt að sjálfsögðu beri að taka það með gagnrýnu hugarfari.

Ég er sammála hv. þm. um að við eigum að teita sannleikans eins og við getum. En eins verðum við þó að gæta, þess að finna hann ekki. Það er eitt það hættuleg­asta sem maður finnur, sannleikurinn. Það sjáum við á ofsatrúarmönnum og pólitíska kreddudótinu. Þeir hafa fundið sannleikann, ganga með hann í vasanum og fletta síðan upp á honum þegar á honum þarf að halda. Þannig haga framsóknarmennirnir sér líka. Þeir hafa fundið hinn endanlega sannleika í landbúnaðarmálum og þess vegna má ekkert á hann minnast, því að allt það hlýtur að vera rangt sem er breyting á því sem fyrirvar. Við eigum að leita að því sem við teljum að sé réttast, en við megum ekki finna hina endanlegu lausn sem síðan og þaðan af verði óbreytanlegar staðreyndir.