25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar er rétt að byrja á því að rifja upp að bensíngjald er 70.93 kr. Þetta gjald, sem lagt er á hvern bensínlítra, er heimilt að hækka í samræmi við hækkun byggingarvísitölunnar. Bensíngjaldið, sem innheimt er, þ.e. 70.93, miðast við byggingarvísitöluna 309 stig. Gildandi byggingarvísitala er hins vegar allmiklu hærri eða 398 stig. Hún hefur gilt frá áramótum, en bensínhækkun samt sem áður ekki átt sér stað þótt full heimild væri til þess. Þessi byggingarvísitala gildir til 31. mars n.k., en þá tekur gildi ný hækkun byggingarvísitölu, eins og tilkynnt hefur verið nýlega. Samkv. þessu er hækkun í samræmi við byggingarvísitölu 20.43 kr. eða úr 70.93 kr. í kr. 91.36. Þetta er sú hækkun sem hefði getað orðið strax um seinustu áramót, en hefur beðið þess, að bensín hækkaði af öðrum ástæðum, og tekur nú gildi um leið og breyting verður á bensínverði. Ef hins vegar hefði verið beðið í nokkra daga enn hefði þessi hækkun getað verið talsvert miklu hærri, því að eins og ég sagði tekur ný byggingarvísitala gildi um næstu mánaðamót.

Á fundi Verðlagsráðs, sem haldinn var í gær, 24. mars, var samþykkt með 6:3 atkv. að heimila olíufélögunum að hækka bensín úr 370 kr. lítrann í 423 kr. Er þetta rök­stutt með erlendum hækkunum, hækkunum á magn­álagningu og hækkunum á bensíngjaldi sem ég nú var að gera grein fyrir. Ríkisstj. tók samþykkt Verðlagsráðs til umræðu á fundi sínum í morgun, því að eins og kunnugt er gildir sú regla að sé niðurstaða Verðlagsráðs ekki ein­róma gengur málið til ríkisstj. Ríkisstj. hefur málið því til meðferðar, en frestaði ákvörðun á fundi sínum í morgun. Málið verður hins vegar tekið fyrir á næsta fundi sem verður á fimmtudaginn.

Ég held að það sé sannarlega alltaf tilefni til að ræða það og rökræða, hve miklar tekjur ríkissjóður eigi að hafa af innflutningi eldsneytis. Hins vegar hefur mér fundist að menn hefðu um þessar mundir öllu meiri áhyggjur af því, að við afgreiðslu fjárlaga væru tekjur ríkisins miðað við útgjöld ófullnægjandi og menn óttuð­ust meira að rekstrarhálli gæti orðið hjá ríkissjóði á þessu ári, sem nú er að líða, frekar en útlit væri fyrir að ríkis­sjóður væri eitthvað sérstaklega aflögufær um þessar mundir. Ég sé satt að segja ekki að það sé neitt nýtt tilefni til umr. um þetta mál nú, og þess vegna á ég bágt með að skilja af hverju þetta mál kemur til umr. utan dagskrár. Þetta væri svo sem alveg hægt að ræða með venjulegum hætti þegar svarað væri fsp. á formlegan hátt.

Það hefur ekkert nýtt gerst umfram það sem áður var vitað. Bensínverð verður núna ákveðið með nákvæmlega sama hætti og verið hefur á undanförnum árum og bensíngjald verður ákveðið eins og lög standa til. Hitt er rétt, að það er úfbreidd skoðun að æskilegt væri að Vegagerð ríkisins hlyti stærri hlut en nú er af þeim tekjum sem koma frá umferðinni. Af heildarútgjöldum og heildartekjum Vegagerðar ríkisins eru tæpir 2/3 til komnir með mörkuðum tekjustofnum, en rúmlega 1/3 er fenginn með framlögum eða lánum sem ríkissjóður greiðir og ganga til Vegagerðar ríkisins. Satt best að segja er enginn eðlismunur á fjárveitingum til Vegagerðar ríkisins, hvort sem þær fjárveitingar flokkast undir markaða tekju­stofna, framlög eða lán. Í öllum tilvikum er það ríkis­sjóður sem er milliliðurinn fær inn tekjurnar af mörkuð­um tekjustofnum og skilar þeim Vegagerðinni ellegar greiðir framlög, ef um það er að ræða, beint til Vegagerð­arinnar. En hin beinu framlög hafa farið ört minnkandi á undanförnum árum og voru ekki ákveðin sérstaklega í seinustu vegáætlun, ellegar ef haft er það úrræði að ríkið taki lán og leggi Vegagerðinni það til er það í raun og veru framlagsígildi vegna þess að Vegagerðinni er ekki ætlað að endurgreiða slíkt lán og ekki heldur ætlað að greiða af því vexti. Fyrir vegagerðina í landinu er því lán af þessu tagi í reynd beint framlag úr ríkissjóði. Því er í raun og veru enginn eðlismunur á því, hvort um er að ræða tekjur Vegagerðar af mörkuðum tekjustofnum, af beinum fram­lögum eða lánum. slíkt kemur allt í einn stað niður, bæði hjá Vegagerðinni og hjá ríkissjóði.

Hins vegar er það auðvitað heildarupphæðin, sem gildir, það er heildarupphæðin sem einhverju máli skiptir, það er afgerandi hvort hún er stór eða lítil. Og sem betur fer höfum við nú getað gert okkur vonir um að heildarupphæðin, sem gengur til vegagerðarinnar, færi verulega vaxandi á því ári, sem nú er að líða, umfram það sem áður hefur verið og þá sérstaklega á tveimur sein­ustu árum. (Gripið fram í: Hvað er gjaldið núna?) Veg­gjaldið? (Gripið fram í: Já.). Veggjaldið er, eins og ég upplýsti áðan, 91.36 kr. En það var ekki veggjaldið sem ég átti við, heldur átti ég einfaldlega við að miðað við seinustu vegáætlun höfum við getað gert okkur vonir um að heildarframlagið, hvort heldur er af mörkuðum tekjustofnum, framlögum eða lánum, yrði hærra á þessu ári en verið hefur um skeið.

Það er hins vegar ætlun okkar, miðað við þá verðþróun sem orðið hefur á seinustu tveimur árum og er nokkuð önnur en gert var ráð fyrir í gildandi vegáætlun, að taka tölur vegáætlunar til nýrrar athugunar í tengslum við afgreiðslu lánsfjáráætlunar. Ég held að þó að ég hafi sagt hér að það komi nokkuð í einn stað niður hvort Vega­gerðin fær framlag formlega af tekjum sem flokkast undir markaða tekjustofna eða hvort hún fær það sem lán, sem hún þarf síðan ekkert að hugsa um, heldur kemur í hlut ríkisins að greiða það lán, megi hins vegar vel vera að eðlilegt sé og rétt að endurskoða tekjustofna til vegagerðarinnar og láta gjöld af umferð tengjast vegagerðinni með augljósari hætti en nú er. Það er a.m.k. rétt að velta því fyrir sér og athuga það, gera sérstaka úttekt á því, þótt hitt sé nokkuð umdeilt, eins og við vitum, hvort bæta eigi við mörkuðum tekjustofnum um­fram það sem nú er. Það voru uppi áform einmitt um þetta í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar eins og hv. þm.Birgir Ísl. Gunnarsson vék að, og þessi áform voru staðfest í grg. þess fjárlagafrv. sem Tómas Árnason lagði hér fram, hæstv. fyrrv. fjmrh., en eins og öllum er kunnugt entist þeirri stjórn ekki líf til að koma þeim áformum í framkvæmd.

Ég vil bæta því við að lokum, að út af fyrir sig er það ekkert nýtt að þegar verðlag hækkar hækki óbeinir skattar í ríkissjóð. Þannig gengur þetta hvort sem varan, sem um er að ræða, heitir bensín eða eitthvað allt annað. Þegar vörurnar hækka aukast óbeinir skattar í ríkissjóð. En auðvitað verðum við að hafa í huga að útgjöld ríkis­sjóðs hækka líka. Því miður er það staðreynd, að þegar verðbólguþróunin er í gangi hækka tekjurnar hægar en útgjöldin þannig að ríkissjóður lendir, ef eitthvað er, frekar í vandræðum en hann eigi mikið umfram.

En þetta er sem sagt flókið mál, sem er út af fyrir sig ágætt að ræða nánar við betra tækifæri. En mér sýnist ekki að það séu neinar líkur á að það verði tekið til sérstakrar skoðunar að þessu sinni. Ákvörðun um bensíngjald og bensínverð mun vafalaust eiga sér stað nú með venjulegum hætti.