25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Sverri Hermannssyni, að mér þykir það leitt ef ráðh. ætla að leggja það í vana sinn að verða svo typpilsinna við spurningum alþm. um hin þýðingarmestu mál, og hefði nú gjarnan viljað að hv. þm. Sverrir Her­mannsson hefði eigi verið svo brandskuða að skunda úr salnum áður en þessum umr. lýkur, sem voru vissulega þess virði að hann tæki þátt í þeim. Einkanlega hefði ég viljað fá hann til þess að taka þátt í hugleiðingum um möguleika á því að taka verðmyndun á bensíni og brennsluolíum til mjög nákvæmrar athugunar frá grunni, og þá fyrst og fremst að hugleiða þann möguleika að ríkið taki nú innflutning á brennsluolíum, þ. á m. bensíni, í sínar hendur, svo að við getum fengið nokkurt tak á því þegar í upphafi við hvaða verði þessi vara er seld hér innanlands. Ég geri ráð fyrir að hv. stjórnarandstæðingar sumir hverjir — a.m.k. þeir sem hér vöktu máls varð­andi útsöluverð á bensíni — kynnu að minnast á frjálsa samkeppni í þessu sambandi og greina okkur frá því, með hvaða hætti íslensku olíufélögin, sem annast inn­flutning á olíunni að mestu leyti frá einum og sama stað og dreifingu á henni, keppa nú innbyrðis um verð og þjónustu við viðskiptavinina og með hvaða hætti þessi sömu fyrirtæki verja óhemjugróða sínum af olíuinnflutningnum hingað til landsins. Umræður um það mál munu kannske, vegna fjarveru ræðumanna, bíða betri tíma. En sjálfur er ég alveg viss um að það er á næsta leiti að við hljótum að taka olíuinnflutningsmálin og olíudreifingarmálin til endurskoðunar. Það er orðið tímabært.

Ég er ekki jafnviss um það og hv. þm. Birgir Ísl. Gunn­arsson og hv. þm. Sverrir Hermannson, að við gerum okkar fólki mikinn greiða með því, þegar til lengri tíma er lítið, að koma í veg fyrir að hækkun á bensíni til notkunar á einkabíla komi fyllilega fram í verðlagi. Við sjáum fram á það, að þar er ekki um hrakspá að ræða. Við sjáum fram á það, að á næstu misserum, eins og hv. þm. Birgir Ísleifur Gunnarsson drap á, munu þessar verð­hækkanir halda áfram og hröðunin á verðhækkun á olíu­vörum mun einnig halda áfram. Ástæðan er beinlínis sú, að það er ekki séra Khomeini að kenna hvernig verð hefur þotið upp á olíuvörum frá Austurlöndum fjær og frá botni Miðjarðarhafs á síðustu árum, ekki Aröbunum yfirleitt. Ástæðan er allt önnur. Olía er að þrjóta. Það skortir nú þegar allmikið á að eftirspurn sé fullnægt. Og má þá minna hina frómu gagnrýnendur á verðmyndun á bensíni á Íslandi á þessa undarlegu staðreynd, að eftir­spurn virðist fela í sér nokkuð örugglega hvatningu til verðhækkunar, og skortur — það ættu þeir einkafram­taksmenn að játa fúslega — hefur jafnvel í sumum tilfell­um orkað allmjög hvetjandi á álagningarprósentuna.

Ég tel að það sé mjög svo tímabært að ræða einmitt þetta mál, er varðar verðmyndun á innfluttu eldsneyti á landi hér, og með hvaða hætti við getum haft hemil á verðlaginu og stuðlað að sparnaði í olíu og bensínnotk­un, og frummælandi hér utan dagskrár eigi þar af leiðandi fremur þakkir skilið heldur en snuprur fyrir að hafa vakið þetta mál, jafnframt því sem maður óskar þess kannske að hann og félagar hans ræði það af dálítið dýpri íhygli og meiri viðleitni til þess að ná utan um málið í heild heldur en mér fannst koma þarna fram. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að við þurfum að óttast það sérstak­lega þótt verð hækki eðlilega á bensíni til notkunar á einkabílum innan Reykjavíkursvæðisins, og vil ekki ræða þá verðhækkun í sömu andránni og þann stóra vanda sem nú er á höndum fólksins úti á landi, sem þarf að eyða ríflega helmingnum af venjulegum verka­mannatekjum til þess að hita upp híbýli sín, þannig að í þeim sé vært. Þar er um að ræða allt annars konar vandamál af völdum olíuverðshækkunar.