25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim þm. sem telja að beri að þakka hv. 6. þm. Reykv. fyrir að gera þetta mál, sem hann hefur flutt hér inn í þingsali utan dagskrár, að umræðuefni. Ég lít ekki á þetta einstaka dæmi, þ.e. bensínhækkunina, sem aðal­málið hér á dagskránni, heldur verðhækkanir almennt. Hv. þm. er vel kunnugt um mínar aðvaranir og minn málflutning. Öll þau ár, sem ég hef setið á hv. Alþ. hef ég bent á það, að erlendar hækkanir eru sá vandi sem er skattlagður af ríkisstj. í meira mæli en gjaldþol lands­manna má við.

Ég harma það, að hæstv. fjmrh. telur að utandagskrár­umræður sem þessar eigi ekki rétt á sér nema um stórmál sé að ræða og þá mál sem geta verið afdrifarík fyrir þjóðina í heild. g held að hér sé um eitt slíkt stórmál að ræða. Ég held að gjaldþoli skattgreiðenda hafi verið ofboðið áður en til þessara hækkana var stofnað, ef úr þeim verður, og það er löngu kominn tími til þess, að við þm. almenn gerum okkur grein fyrir því, að aðalvanda­mál okkar og það mál sem mestur tími fer í umr. um hér á Alþ., er verðbólgan. Hún er að miklu leyti heimatilbúin og að öllu leyti af manna völdum. Við höfum verið að skattleggja hlutfallslega innfluttar verðhækkanir svo að verð vörunnar margfaldast þegar hún er komin á neyt­endamarkaðinn hjá okkur.

Hæstv. fjmrh. taldi ekki brýnt að ræða þetta mál hér. Það er skoðun hæstv. ráðh. Ástæðan fyrir því, að hann taldi ekki brýnt að ræða það, er sú, að hér er farið eftir hefðbundnum leiðum í verðhækkunum, þeim leiðum sem allar ríkisstjórnir síðustu ára hafa notað til þess að hækka vöruverð. Og ég vil segja að í þessum orðum felst sannleikur sem er okkur til umhugsunar. Við þurfum að rífa okkur úr þeim vítahring þar sem eru þessar hefð­bundnu hækkanir. Það er nákvæmlega það sem er að ske hér. Núv. hæstv. ríkisstj. er ekki að gera neitt annað en það sem sú síðasta og næstsíðasta gerði, og það er þetta sem er okkar stóra vandamál í dag.

Að sjálfsögðu er það rétt hjá ráðh., að þegar vörur hækka, þá hækka tekjur ríkissjóðs. En við skulum gera okkur grein fyrir því, að þá koma réttmætar kröfur frá fólkinu í landinu um launahækkanir, og þannig heldur þessi vítahringur áfram svo lengi sem þessi hefðbundna aðferð er höfð. Það er þessi sjálfvirkni sem er vanda­málið og er fyrst og fremst hér á dagskrá. Ég ætla að vona — þrátt fyrir orð hv. 6. landsk. þm. þegar hann sagði: „Er það einlægur ásetningur hæstv. fjmrh. að ganga að „ — svo stoppaði hann, en mér fannst hann ætla að segja:“ að eiga þessa verðbólgu og reynast henni trúr þar til yfir lýkur?“ Ég vona, að svo verði ekki, og tek undir þau orð hv. 6. þm. Reykv., sem voru hans lokaorð hér, að áður en ríkisstj. gengur endanlega frá þeim hækkunum, sem nú blasa við á bensínverðinu, þá verði málið betur skoðað og athugað hvort ekki er hægt að draga svolítið úr þess­um hækkunum.

Ég vil undirstrika þessar óskir hv. 6. þm. Reykv., því að við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er hægt að gera landið óbyggilegt á margan hátt, t.d. gera of kostnaðarsamt að búa hér. Það er ein leið. Ef við höldum miklu lengur áfram á þeirri braut sem við erum nú komnir á — og þá er ég alls ekki að beina spjótum mínum sérstaklega að hæstv. núv. ríkisstj., heldur að starfshátt­um sem hér hafa átt sér stað í langan tíma á hv. Alþ., bæði hjá þeim, sem nú sitja hér, mér og öðrum, og þeim sem á undan eru gengnir, — þá verður þetta land óbyggilegt innan tíðar af öðrum ástæðum en af náttúrunnar völdum.

Það eru mörg gjöld sem leggjast á umferðina. Það er ekki aðeins bensínhækkun, það er hækkun á öllu sem snertir umferðina. Það er alveg sama hvort það eru tekj­ur af innflutningi á bifreiðum eða vélum eða hvort það eru vélarnar sjálfar eða varahlutir til þeirra. Síðan koma alls konar gjöld, það eru bifreiðagjöld, það eru trygg­ingagjöld og ég tala nú ekki um sektargjöld sem fara síhækkandi og eru innheimt með meiri hörku nú en nokkru sinni áður af löggæslunni, þannig að það er að verða allt að því ómögulegt að þóknast yfirvöldunum á neinu sviði. Það kostar allt peninga. Það kostar peninga sem áður var talið sjálfsagt að menn hefðu nokkuð frjálsar hendur með að gera án þess að verða lögbrjótar í ferðum á milli bæjarhverfa í Reykjavík. Það er orðinn vandi að vera til.

En sem sagt, ég tel að þessar umr. hafi verið þarfar, og ég vil undirstrika lokaorð hv. 6. þm. Reykv. um það, að áður en ríkisstj. tekur endanlega ákvörðun um þá hækkun, sem nú blasir við, skoði hún málið með því hugarfari að úr þessum hækkunum verði eitthvað dregið.