25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

113. mál, útreikningur framfærsluvísitölu í hverju kjördæmi

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. til þál. um útreikning framfærslu­vísitölu í hverju kjördæmi á Íslandi. Till. er svo hljóðandi með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að ríkisstj. feli Hagstofunni að sjá um útreikninga á framfærsluvísitölunni í hverju kjördæmi á Íslandi. Skulu útreikningar þessir gerðir á sama tíma og jafnoft að staðaldri og framfærsluvísitalan er reiknuð út í Reykjavík. Gerð verði ný neyslukönnun og grundvöllur framfærsluvísitölunnar byggður á henni.

Greinargerð:

Till. þessi til þál. er flutt til að bæta úr ástandi deilna um mismun á framfærslukostnaði eftir landshlutum. Hliðstæð kjör innan sömu starfstétta eru forsenda þess, að viðkomandi stétt dreifist eðlilega um landið. Geri hlutlaus aðili útreikninga á þessum veigamikla þætti búsetuþróunar er hægt að beita fleiri aðgerðum en áður til aðstöðujöfnunar. Þær eru m.a. þessar:

a) tekjuskattur,

b) félagsmálapakkar,

c) gjaldskrá opinberra fyrirtækja,

d) almannatryggingar,

e) söluskattur.

Ég mun reyna að gera þetta ljóst, en verð að gera grein fyrir þeirri merkingu, sem ég legg í hugtakið „rauntekj­ur.“ Með því á ég við þann hluta tekna sem fer ekki sem greiðslur til opinberra aðila, en notast sem neyslutekjur til lífsframfæris.

Tekjuskattur:

Tekjuskattur er lagður á í þeim tvíþætta tilgangi að afla ríkinu tekna og einnig hugsaður sem tæki til tekju­jöfnunar. Í mínum hugleiðingum verður staldrað við seinni þáttinn. Að mati almennings er skattur þessi fyrst og fremst lagður á almenna launamenn og aðallega þann hluta þeirra, sem enga sjálfstæða atvinnu stundar. Frá þessu eru þó margar heiðarlegar undantekningar. Hitt blasir jafnframt við, að innan sömu stétta verður um mikinn ójöfnuð að ræða vegna hins ójafna framfærslu­kostnaðar í landinu. Þessar staðreyndir gera það að verkum, að opinberir starfsmenn eru m.a. tregir til bú­setu úti á landi af þessum sökum. Hinn almenni maður leysir þessi mál aftur á móti með mikilli eftir- og nætur­vinnu. Það getur ekki talist réttlátt. Hér er einnig um alkunna staðreynd að ræða. Með því að reikna út fram­færsluvísitöluna fyrir fleiri svæði en Reykjavík eina er hægt að taka inn hugtakið rauntekjur þegar skattstiginn er settur fram. Þá væri hægt að stefna að því, að allir hafi möguleika til hliðstæðra lífskjara innan hliðstæðra stétta, án þess að um óheyrilega yfirvinnu þurfi að vera að ræða.

Félagsmálapakkar:

Sá siður hefur verið upp tekinn að auðvelda lausn kjarasamninga með félagsmálapökkum. Stundum hafa þessir félagsmálapakkar orðið til jöfnunar úti um allt land, en þeim hefur líka verið beitt til hagsbóta fyrir ákveðin svæði, svo sem til framkvæmda í húsnæðismál­um. Breiðholtsframkvæmdirnar eru gott dæmi um það. Ekki er óeðlilegt að verkalýðsfélög utan höfuðborgar­svæðisins gefi meiri gaum að þessum atriðum en áður.

Gjaldskrá opinberra fyrirtækja:

Gjaldskrá opinberra fyrirtækja hefur orðið fyrir barðinu á því vísitölukerfi sem nú er notað. Það hefur stuðlað að því að halda niðri gjaldskrám hjá fyrirtækjum hér á Reykjavíkursvæðinu, svo sem hitaveitunni, sem verður að telja fráleitt, og hefur þannig neitt hana til hallarekstrar. Gjaldskrár opinberra fyrirtækja, svo sem Pósts og síma, hafa um árabil borið þess merki, að í lagi var t.d. að halda háum greiðslum fyrir langlínusamtöl á sama tíma og inntökugjald fyrir síma, sem kom í vísitöluna, var ekki látið fylgja almennu verðlagi. Það verður tvímælalaust að haga gjaldskrám opinberra fyrirtækja á þann veg, að ekki leiði til lífskjaramunar eftir landshlut­um, og hitt er jafn fráleitt, að vísitölukerfi stuðli að því, að þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki séu neydd til halla­rekstrar.

Almannatryggingar:

Útreiknuð framfærsluvísitala fyrir hvert kjördæmi ætti að auðvelda ákvarðanatöku um tryggingabætur. Þetta er eðlileg upplýsingaöflun fyrir almannatryggingarnar.

Ef horft er til fjárlaga og aðgætt, hve stór hluti þeirra fer í almannatryggingar og er ætlaður til jöfnunar lífs­kjara, hlýtur framfærslukostnaður að koma inn í það dæmi.

Söluskattur:

Söluskattur er, eins og allir vita, lagður á vöru eða þjónustu á lokastigi. Þess vegna leiðir hátt verðlag á vörum eða þjónustu jafnframt til hærri skattheimtu. Það verður að teljast hæpið, að ekki sé meira sagt, og mikil afturför hvað réttlæti varðar frá þeim tímum er tollatekj­ur voru afgerandi, en enginn söluskattur. Hugsanlegt er að leysa þetta með mishárri söluskattsprósentu er leiddi til jafnari skattheimtu.

Höfuðtilgangurinn með þessari till. er að leggja því máli lið, að í þessu landi megi búa ein þjóð með sam­bærileg lífskjör, sem finni að stjórnvöld vilja vinna að því markmiði.“

Ég vil geta þess hér alveg sérstaklega, að það hefur einu sinni verið framkvæmd athugun á framfærslukostn­aði á fjórum stöðum utan Reykjavíkur. Ég tel eðlilegt að þm. kynni sér það rit, þegar þeir leiða hugann að því máli sem hér er fram sett. Þetta rit var gefið út í nóv. 1976. Helstu niðurstöður um mismun á framfærslukostnaði þá voru á þann veg, að miðað við Reykjavík var þá talið að framfærslukostnaður á Ísafirði væri 4.8% meiri, á Akur­eyri 3.4%, í Neskaupstað 5.4 og á Hvolsvelli 4.6. Aftur á móti kemur í ljós ef þetta plagg er skoðað, að sá liður, sem mestu réð um mismun á framfærslukostnaði, var upphitunarkostnaður. Nú hefur gífurleg breyting orðið á. Sá liður vegur miklu meira í dag en hann gerði þá. En það voru fleiri liðir sem komu þarna mjög sterkt inn, t.d. Póstur og sími og rafmagnsverð á hinum ýmsu svæðum.

Ég held að það dyljist engum manni, sem horfir á þá byggðaþróun, sem orðið hefur á Íslandi, og er ófullur, að byggðaröskun í þessu landi hefur orðið gífurleg frá því að innlend stjórnvöld tóku hér við málum. Sú byggðarösk­un hefur orðið svo afgerandi, að það er hægt að tala um hlutina úr frá því sjónarmiði, að það virðist eins og viss svæði hafi verið gerð að nýlendum fyrir hin. Það vita trúlega fáir t.d., að einu sinni var höfuðstaður Vestfjarða, Ísafjörður, næstfjölmennasti bær í þessu landi. En það er hægt að halda áfram að haga þannig aðgerðum á þessum stað, Alþingi Íslendinga, að búsetuþróun fari ekki eftir landsgæðum, heldur eftir því, hvernig lögum er skipað á hinu háa Alþingi. Samkv. þeim upplýsingum, sem hér liggja fyrir, er búið að sjá til þess, að sumar vörur eru seldar á sama verði hvar sem er á Íslandi, m.a. olíuvörur. Hví skyldi ekki vera hægt að selja rafmagn á sama verði? Hvaða rök eru fyrir því réttlætanleg, að á bökkum Bola­fljóts þurfi menn að borga miklu hærra verð fyrir raforku en hér í Reykjavík? Hvaða rök eru fyrir slíkri verðlagn­ingu? Og hve lengi halda menn að slíkt óréttlæti fái staðist? Hvaða rök eru fyrir því, að á sama tíma og við borgum sama verð fyrir hljóðvarp og sjónvarp í þessu landi er enn verið að reikna út gjaldskrá Pósts og síma eftir fjarlægðarkerfi, þrátt fyrir það að farið er að senda þetta þráðlaust á milli staða? Hvaða rök eru fyrir því, að t.d. hefur gjaldskráin verið þannig, að sá einstaklingur, sem hefur fengið símatæki og aldrei borgað umframskref til Landsímans, hann hefur aldrei borgað inntökugjaldið fyrir þennan síma eins og það kostar raunverulega? Hvaða rök eru fyrir svona uppsetningu á gjaldskrá?

Hvaða rök voru fyrir því hjá íslenskri verkalýðshreyf­ingu að semja um það alveg sérstaklega í allsherjar­kjarasamningum, að á einum stað á Íslandi ætti að byggja íbúðir fyrir verkamenn, þ.e. í Breiðholtinu? Hvers vegna mátti ekki dreifa þessum íbúum um landið á sínum tíma og sjá til þess, að þessi ákvörðun yrði ekki til að valda byggðaröskun? Þúsund íbúðir, hvað þýðir það mikinn mannfjölda? Ég sé að sumir fulltrúar eru farnir að ókyrr­ast í sætum sínum.

Það er nefnilega fróðlegt að fá úr því skorið, hvort hið háa Alþingi vill hafa það sem algert leyniplagg, sem Íslendingar fái ekki að vita, hver framfærslukostnaður­inn er á hinum ýmsum stöðum i þessu landi, eða hvort menn eru reiðubúnir að láta reikna þetta út. Það er nefnilega fróðlegt að fá það alveg á hreint, hverjir það eru, sem vilja vinna að byggðastefnu eftir því leiðarljósi að það verði sem jöfnust lífskjör í þessu landi, og hverjir vilja áfram styðja það kerfi sem hér hefur verið og stuðl­að að því, að Íslendingar hafa safnast saman á örlítið svæði á suðvesturhorni landsins.

Ég veit ekki hvort hv. Alþ. er það ljóst, að þegar verið er að samþykkja skattstiga, þá er ekki verið að sam­þykkja það, að t.d. þeir lægst launuðu hafi sama fjár­magn eftir til ráðstöfunar alls staðar í landinu. Á sumum stöðum hafa þeir, vegna þess mikla munar sem er á framfærslu, miklu minna eftir. Það blasir við. Er réttlæti í þessu? Gera menn sér grein fyrir því, að eins og sölu­skatturinn er uppbyggður eru sum svæði á landinu látin borga mun meira í söluskatt en önnur?

Ég held að það sé tími til kominn að við gerum okkur grein fyrir því, að við erum að splundra þessari þjóð í tvær stríðandi fylkingar, annars vegar landsbyggðina og hins vegar stór-Reykjavíkursvæðið, ef við ekki snúum okkur að því verkefni að jafna lífskjörin í þessu landi. Og ég vænti þess, að hið háa Alþingi telji að það þurfi ekki að vera neitt leyniskjal í framtíðinni, hvernig þessum málum er fyrir komið, að það fallist á að Hagstofan hafi það sem verkefni á sinni könnu að reikna þetta út, þannig að menn geti metið það eftir tölum hlutlausra aðila hvernig ástandið er.