25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

113. mál, útreikningur framfærsluvísitölu í hverju kjördæmi

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég held að sú þáltill., sem hér liggur fyrir, hafi ýmsa kosti. Sannleikurinn er sá, að á undanförnum mánuðum og árum hafa menn haldið uppi miklum umr. og deilum um ójöfn lífskjör í þessu landi. Og menn hafa beitt ýmsum aðgerðum og inngripum í efnahagslíf þjóðarinnar til jöfnunar án þess að þekkja þessa stöðu til hlítar eða hafa nein tæki til þess að bera hér nægilega vel saman. En fleira kemur til. Eins og allir, sem hér eru inni, vita vel, býr hin títtumrædda vísitölufjölskylda í Reykjavík. Afleiðingin af því er auðvitað sú sem allir þekkja, að fyrirtæki Reykjavíkurborgar fá ekki þá hækkun á gjaldskrám sem þeim er nauðsynleg.

Hitaveita Reykjavíkur stendur þannig í ár, að hún þarf að taka um 1600 millj. kr. erlend lán, fyrirtæki, sem er eitthvert mesta þjóðþrifafyrirtæki Íslendinga, fyrirtæki, sem selur orkuna á nálægt 1/8 af því verði sem kostar að kynda með olíu, er þannig statt að nánast má líkja við bónbjargafyrirtæki. Enn þá alvarlegra verður þetta mál þegar horft er til þess, að vatnsöflun Hitaveit­unnar er nú með þeim hætti, að líklega þegar árið 1985 verðum við að hafa náð heitu vatni frá Nesjavöllum við Þingvallavatn. Þar er um gífurlega fjárfestingu að ræða og Hitaveitan algerlega vanbúin að ráðast í þá fram­kvæmd eins og nú er háttað. Allir, sem hér eru inni, þekkja hvernig statt er með Strætisvagna Reykjavíkur, sem Reykjavíkurborg verður líklega að leggja með um 2 000 millj. á þessu ári. En hver er ástæðan? Jú, ef við hækkum gjaldskrá strætisvagnanna í Reykjavík, þá fá allir á Fáskrúðsfirði launahækkun. Ef við hækkun hita­veitugjöldin í Reykjavík, þá fá menn á Patreksfirði launahækkun. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta, því að þessa sögu þekkja allir og hún er Reykvíkingum til mikils óhagræðis og beinlínis háska þegar sérstaklega er litið til hitaveitunnar.

Þegar jöfnun lífskjara er rædd hefur hún venjulega og ævinlega verið miðuð við það sem dýrara er úti um land. Menn horfa þá síður til þess sem dýrara er hér í Reykja­vík, en þar er um marga hluti að ræða. Stærð borgarinnar og dreifð byggð hefur það í för með sér, að það er bæði tímafrekt og kostar oft mikið bensín að komast á vinnu­stað, jafnvel að komast í verslanir eða komast um borg­ina. Slíkt er ekki metið þegar menn tala um jöfnun lífskjara. Tryggingar á bílum eru dýrari hér en úti um land. Sjálfsagt mætti þannig lengi telja. Ég held að það sé ólikt dýrara á aflaeiningu að gera togara Bæjarútgerð­arinnar út hér í Reykjavík heldur en togarana frá Ísafirði eða Vestfjarðatogarana, heima hjá flm. þessarar þáltill. Þar er ólíku saman að jafna og mikill aðstöðumunur. Og þó að hitaveitan sé ágæt hér í Reykjavík, þá gerum við ekki togarana út með hitaveitunni.

Ef framkvæmd þessarar þáltill. gæti gefið okkur nokk­uð raunsanna mynd af því, hvað raunverulega kostar að lifa í þessu landi á hinum ýmsu stöðum, þá væri til nokk­urs unnið. Og væntanlega gæti það orðið vísir að því, að breyting yrði gerð á framfærsluvísitölu, sem kaupgjalds­vísitala er síðan miðuð við. Ef slíkt yrði gert, þá mundi það vera hagur fyrir Reykvíkinga og fyrirtæki þeirra.

Flm. ræðir nokkuð um rauntekjur, sem hann vill reyndar skilgreina nokkuð þrengra eða ítarlegar en at­mennt er gert nú, og hygg ég að hann hafi nokkuð til síns máls í því. Ef menn athuga tekjudreifingu yfir landið, hygg ég að Reykvíkingar standi ekki orðið mjög ofarlega í því dæmi. Ég er hræddur um að það sé rétt, sem hefur komið fram hjá nokkrum ræðumönnum áður, að hér búi orðið margt lágtekjufólk. Og annað er það sem ég óttast í þessu dæmi líka, að atvinnulífið hér í Reykjavík, ef til samdráttar kæmi, muni reynast veikara en nánast nokk­urs staðar úti um land. Því miður óttast ég að þannig standi. Það má kannske segja, að sem betur fer hafi Byggðasjóði tekist víðast hvar að treysta atvinnulíf svo úti um land að það standi nú sterkt. Ef menn vilja meta alla þætti málsins og kannske nokkuð víðar en till. segir beint til um og í þeim anda, sem mér virðist flm. ætlast til, þá hygg ég að það sé öllum til góðs að fá till. samþykkta og framkvæmda.

Einu vil ég þó við þetta bæta. Auðvitað hlýtur það að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir okkur, hversu víð­tækt bákn menn eru hér að hugsa um. Ekki undir neinum kringumstæðum get ég léð því eyra, að menn ætli að setja upp einhvers konar hagstofur úti um allt land. Þessa framfærsluvísitölu hlýtur að vera hægt að reikna á til­tölulega ódýran hátt, þannig að sæmilega megi við una. En vara verður við því, að stefnt sé að einhverri úfþenslu Hagstofunnar eða ríkisbákns með þessu. Að öðru leyti vil ég segja það, að ég hygg að þegar allt kemur saman og er saman lagt sé þessi till. til bóta.