25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

113. mál, útreikningur framfærsluvísitölu í hverju kjördæmi

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram mjög fróðlegar umræður og að mínu mati mikill munur að sitja yfir slíkum umræðum sem hér hafa farið fram nú, miðað við þær umr. sem fóru fram hér á þinginu fyrr í dag.

Það mætti að sjálfsögðu tala mjög lengi um það sem hér er til umræðu og snertir jöfnun lífskjara um lands­byggðina og hinn mikla aðstöðumun o.s.frv., en ég ætla ekki að eyða tíma þingsins nú í það sérstaklega. Ég vil þó taka undir það, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að það má e.t.v. segja það varðandi ýmis mál, sem horfa til bóta eða framfaramál fyrir landið í heild, sem hann var að nefna hér, svo sem tollvörugeymslu og margt fleira, að við erum e.t.v. lengi að taka við okkur í slíku. Það má færa mörg rök fyrir því, að það sé eðlilegt í ekki stærra þjóðfélagi en okkar þjóðfélag er, sem hefur byggst upp til framfara á miklu styttri tíma en mörg þjóðfélög i kringum okkur.

Þá þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 178, tel ég um margt athyglisverða og það sé góður hugur á bak við hana. En ég get tekið undir það, sem hefur komið fram áður, að hún er helst til þröng. Ég efast um að hún nái þeim tilgangi sem hv. flm, stefnir að með flutningi hennar. En mér finnst ástæða til að vekja athygli á því að fyrrv. vinstri stjórn undir forsæti Ólafs Jóhannessonar tók þetta mál sérstaklega upp og fól Hagstofu Íslands að láta reikna út nýjan vísitölugrundvöll sem tæki mið af fleiri atriðum en sá vísitölugrundvöllur, sem við höfum búið við og búum við í þessu landi og miðaður er við vísitölufjölskyldu í Reykjavík, ber með sér. Eftir því sem ég hef fregnað mun hinn nýi vísitölugrundvöllur nú að mestu tilbúinn. Það verður forvitnilegt að kynnast því, hvaða breytingar hann kann að hafa í för með sér í sambandi við viðmiðun þá sem vísitalan er hér á landi. Ég vonast fastlega til þess, að miðað við það, sem að er stefnt með þeirri breytingu, hafi útkoman mjög bætandi áhrif.

Ég get ekki stillt mig um að gera aths. við ræðu hv. 1. landsk. þm. Hann var að tala um eitt atriði, þ.e. hafna­uppbyggingu í landinu. Hann minntist á Reykjavíkur­höfn sem hefði engan aðgang að opinberu fjármagni til uppbyggingar hafnarinnar eins og aðrar hafnir í landinu. Ég vil benda hv. þm. á það, sem ég tel að vísu að hann hljóti að vera sér meðvitandi um, að Reykjavíkurhöfn hefur alla tíð haft þá sérstöðu hér á landi, að hún hefur tekjur af svo til öllum innflutningi til landsins, ekki aðeins einu sinni, heldur að verulegu leyti tvisvar sinnum. Þetta hefur haft það að segja fyrir Reykjavíkurhöfn að hún hefur, sem betur fer, á undanförnum áratugum verið þess megnug að byggja sig upp af eigin tekjum. Þegar við lítum í opinberar skýrslur frá t.d. árunum 1978–1979, kemur í ljós að Reykjavíkurhöfn hefur haft meiri tekjur en hún hefur þurft að nota í uppbyggingu sína. Þetta er góðra gjalda vert og alls ekki sagt til að gera lítið úr því eða telja það óeðlilegt. Ég er ekki þar með að segja að Reykjavíkurborg eða Reykjavíkurhöfn eigi ekki að fá sama aðgang að opinberu fjármagni og aðrir, en það getur þurft að taka mið af því sem ég hef hér sagt.

Ég vil taka undir margt sem hér hefur komið fram. Ég ætla ekki, eins og ég sagði í upphafi, að fara að tíunda þann mun sem er á landsbyggðinni og þéttbýlinu, en ég get ekki stillt mig um að segja ykkur frá bréfi sem mér barst í hendur í dag. Þetta bréf er undirritað af flestöllum oddvitum í Dalasýslu. Þessir oddvitar skrifa póst- og símamálastjóra og fara vinsamlegast fram á að á sím­stöðinni í Búðardal verði tekin upp vakt þannig að fólk, sem býr í Dalasýslu, hafi möguleika til að komast í sam­bandi við þessa símstöð, einu sjálfvirku símstöðina á svæðinu, í neyðartilfellum allan sólarhringinn. Eins og hv. alþm. vita er Landssíminn víða búinn að leggja niður litlu símstöðvarnar, sem gerir það að verkum að fólkið, sem býr á þeim svæðum, er algjörlega einangrað frá umheiminum hvað síma snertir meiri hluta sólarhrings­ins. Þetta er eitt af þeim málum sem er aðkallandi að leysa úr fyrir þjóðarheildina. Öryggisleysið, sem fólk býr við að þessu leyti, er vart skiljanlegt fólki sem þekkir ekki slíkar aðstæður. Þetta er vandamál sem við hljótum að vera sammála um að reyna að leysa.

Mitt mat er það, og ég get tekið undir með hv. 9, þm. Reykv., að auðvitað erum við ein þjóð í þessu landi. Við Íslendingar erum ekki svo fjölmennir að við höfum raunverulega efni á að vera í návígi hver við annan og heyja deilur. Þess vegna hef ég þá skoðun, að þéttbýli og dreifbýli eigi að vinna saman. Hvorugt getur án hins verið. Ég tel að það væri uppbyggjandi í raun og veru og fræðandi mjög ef hægt væri að koma því á að fólk í mesta þéttbýli landsins hefði tækifæri til að ferðast um lands­byggðina og taka á slagæð þjóðarinnar, fylgjast með framleiðslugreinum til lands og sjávar og skilja þar með mikilvægi dreifbýlisins fyrir þéttbýlið og fyrir landið í heild. Þetta held ég að væri mjög nauðsynlegt. Ég vil heils hugar taka undir allt, sem stuðlar að því að eyða ágreiningi milli þéttbýlis og dreifbýlis, og vinna að því að hægt sé í fullu samkomulagi að gera ráðstafanir, eftir því sem þjóðfélagið hefur möguleika til, til að jafna lífs­kjörin og aðstöðumuninn í landinu.