25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

81. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Flm. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Á næstsíðasta þingi lagði flm. fram samhljóða till. til þál. um innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum. Umræður um till. voru mjög jákvæðar, en hins vegar hlaut till. ekki endanlega afgreiðslu. Í grg. þeirrar till., sem lögð var fram í fyrra og hér er endurflutt, segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

Fyrir ári lauk skipulagðri kynningu og upplýsinga­starfsemi um íslenskan iðnað undir nafninu „Íslensk iðnkynning“. Tilgangur hennar var að efla sölu á ís­lenskum iðnaðarvörum, glæða almennan skilning á mikilvægi iðnaðarins, á þeirri miklu atvinnu sem hann veitir, gjaldeyrisöflun og þeim gjaldeyrissparnaði sem hann hefur í för með sér. Frá því að kynning þessi hófst hafa málefni iðnaðarins verið mjög til umræðu og skoð­anakannanir, sem fram fóru af hálfu aðstandenda kynningar þessarar, þóttu leiða í ljós að innkaupavenjur al­mennings hefðu breyst íslenskum iðnaði í hag.

Staðreynd er, að það er á ýmsum öðrum sviðum sem mögulegt ætti að vera að hafa áhrif á innkaup er varða hag íslensks iðnaðar. Umsvif fjármála ríkis og sveitarfé­laga eru mikil í þjóðarbúinu. Auk þess sem útgjöld opin­berra aðila hafa bein áhrif á heildareftirspurn í þjóðar­búskapnum getur markviss beiting þeirra reynst mikil­vægt tæki til áhrifa á einstakar atvinnugreinar, ekki síst á hagræna og tæknilega framþróun íslensks iðnaðar.

Innkaupum opinberra aðila má einkum skipta í eftir­farandi flokka eftir eðli þeirra: rekstrarvörur, þjónustu og fjárfestingarvörur.

Verulegum fjárhæðum er varið á vegum ríkis og sveit­arfélaga til kaupa á hinum margvíslegu rekstrarvörum. Má í því sambandi nefna innanstokksmuni, hreinlætis­vörur, pappírsvörur og margvíslegar aðrar rekstrarvörur til skóla, sjúkrahúsa og annarra stofnana. Sama gildir um margvíslega viðhalds- og viðgerðarþjónustu þessara stofnana, svo sem Hafrannsóknastofnunar, Landhelgis­gæslu, Skipaútgerðar ríkisins og fjölmargra annarra.

Þeim aðferðum, sem beitt er í opinberum innkaupum, má skipta í bein innkaup, innkaup eftir að fram hefur farið sérstök verðkönnun og loks útboð. Varðandi útboð skal sérstaklega bent á nauðsyn þess, að lengd skilafrests og stærð útboðseininga sé hagað þannig að innlendir framleiðendur geti boðið í verk.

Flm. till. þessarar vill minna á samþykkt sem gerð var fyrir nokkrum árum í borgarstjórn Reykjavíkur um inn­lend innkaup, þar sem sú stefna er mörkuð í innkaupum, að heimilt sé að taka tilboð innlendra aðila fram yfir erlenda, þótt verð hinnar innlendu vöru sé allt að 15% hærra, en gæði sambærileg. Flm. telur nauðsynlegt að slík regla eða svipuð verði tekin upp fyrir öll opinber fyrirtæki, og er eðlilegt að slíkt mál verði metið í tengsl­um við þá athugun sem hér er lagt til að fram fari.

Það er ljóst, að þjóðarbúskapur okkar verður um ófyrirsjáanlega framtíð háður viðskiptum við önnur lönd. Benda má þó á, að í auknum mæli ber að athuga vandlega, þegar um meiri háttar viðskipti hins opinbera er að ræða við erlenda aðila, sem innlendir framleiðend­ur ráða ekki við sem heild vegna umfangs verksins og tæknilegra atriða, að farið sé inn á þá braut að semja um að hluti framleiðslunnar fari fram hér innanlands. Auk þess sem slíkt eykur hlut innlendra aðila í innkaupum gæti slíkt stuðlað mjög að flutningi nýrrar tækniþekking­ar inn í landið.

Loks skal bent á þau tækifæri sem opinber innkaup bjóða varðandi nýjungar í framleiðslu og ný iðnaðar­tækifæri. Íslensk framleiðslufyrirtæki eiga oft erfitt með að takast á við meiri háttar vöruþróunarverkefni, þar sem áhætta er mikil. Víða erlendis hafa stjórnvöld gert sér grein fyrir því, hversu mikilvægu hlutverki opinberir aðilar hafa gegnt á þessu sviði, með því að fela fyrirtækj­um að leysa ákveðin tæknivandamál varðandi framleiðslunýjungar á þann hátt að greiða fyrir verkefnið samkvæmt samningi eða tryggja lágmarkssölu fram­leiðsluafurða. Slíkur stuðningur við nýsköpun er fjarri því að vera eingöngu hagsmunamál fyrirtækjanna sjálfra, heldur þjóðarinnar í heild. Það er nauðsynlegt að hið opinbera stuðli að slíkri starfsemi og geri hana eftir­sóknarverða.

Árið 1977 skipaði þáv. iðnrh. starfshóp, sem í voru fulltrúar frá iðnrn., fjmrn. og viðskrn., til að gera tillögur um hvernig haga megi innkaupum ríkisins og stofnana þess, þannig að þau miði að því að efla íslenskan iðnað. Starfshópur þessi skilaði áliti fyrir ári og gerir ýmsar athyglisverðar tillögur um hvernig vinna megi að því að auka innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvör­um. Ekki er vitað hvað gerst hefur síðan starfshópurinn lauk störfum. En frá því að þessi till. varð lögð fram í vetur hefur verið mynduð ný ríkisstj. og í málefnasamn­ingi hennar segir að mörkuð verði ákveðin stefna í inn­kaupum hins opinbera. Er vonandi að skriður fari að komast á þetta mál, sem svo lengi er búið að tala um, en ekki er komið til framkvæmda nema að hluta hjá Reykjavíkurbæ.

Ég vil að lokum vitna til hluta af framsöguræðu er ég flutti fyrir þessu máli fyrir ári, með leyfi hæstv. forseta: „Flm. vill minna á þá staðreynd, að þrátt fyrir alla fríverslun virðist sem opinberum framkvæmdum í Vest­ur-Evrópu sé meira og minna stýrt til innlendra aðila og sú skoðun ríki, að sem mest af opinberum innkaupum fari fram á heimamarkaði. Allur tölulegur samanburður milli landa er erfiður í þessu sambandi þar sem um mjög mismunandi vöruframboð er um að ræða. Iðnaður okkar er í samanburði við margar þjóðir Vestur-Evrópu ein­hæfur og vöruframboð minna. Þessi staðreynd sýnir hins vegar fram á nauðsyn þess að efla vöruþróun og fjölga innlendum vörutegundum, sem vissulega er hægt að gera með ákveðinni stýringu opinberra innkaupa.

Þá vill flm. einnig minna á finnska rannsókn á opin­berum innkaupum sem leiddi til þeirrar niðurstöðu, að mjög algengt væri að innkaup hins opinbera á þarlendri framleiðslu hefðu í för með sér að 40% af virði fram­leiðslunnar skiluðu sér aftur í ríkissjóð í formi skatt­tekna. Þetta hefur haft þau áhrif á afstöðu finnskra yfir­valda, að þau stuðla sem mest þau mega að opinberum innkaupum innanlands þótt borga þurfi hærra verð fyrir innlenda framleiðslu. Það er skoðun flm., að með bættu skipulagi á opinberum innkaupum, m.a. með samantekt á hinum margvíslegu rekstrarvörum sem ríkið notar, megi ná mun hagkvæmari samningum fyrir ríkið við innlenda framleiðendur. Gæti þannig endurskoðun þessara mála haft í för með sér lækkun ýmissa útgjalda ríkisins fyrir rekstrarvörur.

Við Íslendingar verðum oft að sæta því vegna markaðsaðstæðna erlendis að flytja út stóran hluta út­flutningsvöru okkar lítt unninn eða hálfunninn. Þannig glata íslenskar hendur tækifærum til arðbærrar vinnu. Þess vegna er ekki óeðlilegt, um leið og við keppum að því markmiði að flytja sem minnst út óunnið, að við á okkar litla markaði hyggjum að því sama í sambandi við innfluttar vörur, án þess að þurfa að tala um að við séum að brjóta nokkra fríverslunarsamninga. Aðrar þjóðir vinna markvisst að þessu á sínum heimamarkaði, eins og áður er sagt. Það er því knýjandi nauðsyn að frumkvæði stjórnvalda í þessum efnum komi til, en það mun stórefla íslenskan iðnað og gera hann færan um að framleiða betri vörur, sem aftur leiðir af sér aukin innkaup al­mennings á íslenskri framleiðslu.“

Að síðustu þetta: Í úrvinnslu og iðnaði almennt felst höfuðvaxtarbroddur atvinnumála Íslands í dag. Innlendi markaðurinn er sá vettvangur sem við getum ráðið við, og hinn opinberi þáttur hans er sá þáttur sem Alþ. og ríkisstj. geta fyrst og fremst haft áhrif á. Það er því meginatriði að á máli þessu sé tekið og mörkuð sé ákveðin stefna í innkaupum hins opinbera.

Herra forseti. Ég vil að lokum leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. atvmn. til umfjöllunar.