25.03.1980
Sameinað þing: 37. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

81. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Sigrún Magnúsdóttir:

Herra forseti. Ég get með ánægju tekið undir þessa till. til þál. um innkaup opin­berra aðila á íslenskum iðnaðarvörum með hv. 6. þm. Suðurl. Annars er það dæmigert um umræður um málefni íslensks iðnaðar sem segir í 1. mgr. grg., en þar segir flm., með leyfi forseta:

„Á næstsíðasta þingi lagði flm. fram samhljóða till. til þál. um innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðar­vörum. Umræður um till. voru mjög jákvæðar, en hins vegar hlaut till. ekki endanlega afgreiðslu.“

Þetta finnst mér einkennandi um þá umræðu sem hef­ur farið fram mörg s.l. ár um íslenskan iðnað. Það er mikið rætt, en árangurinn er lítill.

Það er algjör nauðsyn að þessi atvinnugrein, sem á að vera vaxtarbroddur atvinnulífsins í framtíðinni, fái að njóta sömu skatta- og lánakjara og samkeppnisatvinnu­greinarnar landbúnaður og sjávarútvegur. Við skulum einnig vera minnug þess, að atvinnuleysi eða skulum við segja landflótti er oft fylgifiskur þjóða sem búa við ein­hæft atvinnulíf. Það gætir oft mikillar vantrúar á getu íslensks iðnaðar hjá ráðamönnum og þá ekki hvað síst hjá stjórnendum lánastofnana. Hefur jafnvel komið fyrir að stofnendum nýs iðnfyrirtækis, er leita til lánastofnana hér á landi, er góðfúslega bent á að auðveldari lausn sé til, sem sé að flytja vöruna inn. Því miður hef ég sem verslunarmaður einnig orðið vör við að sífellt fleiri fyrirtæki eru farin að fara inn á þessa braut. Ég verð að segja það, að ég er á þeirri línu, að það, sem við getum framleitt hér í landinu sjálf, eigum við skilyrðislaust að reyna að framleiða. Eða telja hv. þm. annað fyrirkomu­lag vera heppilegt fyrir þjóðarbúið? Það getur ekki verið eðlilegt, að það sé betra fyrir framleiðslufyrirtæki, sem hafa starfað í mörg ár og eru búin að koma sér upp vélum og tækjum, að fara frekar út í innflutning á sams konar vörum og láta tækjabúnað standa ónotaðan. Þetta er vegna þess að það er erfitt að fá að verðleggja vörur okkar innanlands á meðan innflutningur rennur í gegn.

Við framsóknarmenn höfum oft lagt á það áherslu, að leitað yrði eftir hentugum iðnaði fyrir landbúnaðar­byggðir landsins, m.a. til að koma í veg fyrir byggða­röskun. E.t.v. er ástandið þannig núna, að réttara sé að segja: til þess að landið sé byggt.

Þar sem efling framleiðsluiðnaðar er eitt brýnasta úr­lausnarefni Íslendinga á sviði atvinnumála er gleðilegt að nokkrir framtakssamir einstaklingar skuli vera að stofna hér fyrirtæki er nefnist Fiskeldi. Ég vil benda hv. þm. á sérstöðu Íslands varðandi aðstöðu til fiskeldis. Náttúru­skilyrði eru mjög góð víða um land og henta slíkri fram­leiðslu. Þá höfum við einnig gnægð af vatni, bæði heitu og köldu. Engin framleiðslugrein á Íslandi hefur möguleika á jafnmiklu framleiðsluverðmæti miðað við stofnkostn­að. Enn fremur þurfum við ekki að óttast mengun né náttúruröskun frá slíku fyrirtæki. Einnig mundi hér skapast atvinna fyrir fjölda fólks við að fullvinna vöruna til útflutnings. Sem dæmi má taka að á síðasta ári kostaði kg af ferskum laxi 3000 kr., en af reyktum og vacuum­pökkuðum ca. 30 000 kr. Það er því sorgleg staðreynd að frumkvöðlum að stofnun þessa fyrirtækis hefur gengið erfiðlega að fá hjá sumum ríkisstofnunum okkar ýmsar nauðsynlegar upplýsingar. Hér erum við að tala um að hið opinbera stuðli að iðnaðaruppbyggingu, en setji ekki stólinn fyrir dyrnar þegar einstaklingar leita til þess. Það er ekki nóg að tala fallega um að efla íslenskt framtak á sviði atvinnumála, við verðum líka að gera eitthvað.

Í Dagblaðinu í gær birtist grein um laxeldi hjá Norð­mönnum. Í greininni er rætt um hvað laxeldi er arðbær atvinnugrein hjá Norðmönnum, tvisvar til þrisvar sinn­um arðbærari en iðnaður. Norsk stjórnvöld vilja nú tak­marka stærð og fjölda fyrirtækja á þessu sviði og hefur því komið fram áhugi á samstarfi við Íslendinga. Norð­menn telja hér enn betri aðstæður fyrir slíkan iðnað en hjá þeim, sérstaklega þó vegna heita vatnsins. En engin ástæða er til þess að við förum að hleypa norskum auð­hringum inn í þessi mál hjá okkur. Við verðum að treysta því, að íslensk stjórnvöld sýni þessu máli áhuga, þannig að til slíks þurfi ekki að koma.

Þá vil ég einnig láta það koma hér fram, að þeir ein­staklingar, sem hafa tekið sig saman um þetta fyrirtæki, eru þegar búnir að safna um 400–500 millj. kr. í hlutafé. Ég endurtek, að ég treysti því, að stjórnvöld okkar og við hér reynum að hlúa þannig að þessu máli að þeir geti sýnt og sannað hvað þeir geta gert. Ég tel að þarna sé stórmál á ferðinni.

Margar þjóðir styrkja iðnað sinn með ýmsu móti. Þær hafa skilið að óbeinn hagnaður iðnaðar er oft mikill fyrir þjóðfélagið í heild sinni. Íslendingar hafa líka í gegnum aldirnar sannað að þeir eru hagir menn. T.d. sýnir ullar­iðnaður okkar síðustu árin að við eigum frábæra hönn­uði. Þess vegna þurfum við ekki að vera hrædd við að fara út í vandasaman smáiðnað.

Hið opinbera getur stuðlað að því að efla ýmsar grein­ar iðnaðar með því að beina innkaupum sínum til þeirra. Og það verðum við að skilja, að það hjálpar okkur enginn ef við gerum það ekki sjálf.