26.03.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

116. mál, fjárlög 1980

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ekki veit ég hvað hv. 1. landsk. þm. átti við þegar hann ræddi um minnkaða þjónustu fyrir farskipin. Ef hann hefur átt við afskipti mín af þessu máli, þegar hann talaði um fyrrv. ráðh., þá voru þau þau ein, að ég beitti mér fyrir því að hádegisfréttirnar væru færðar yfir á kvöldið samkvæmt eindregnum og margítrekuðum óskum farmanna. Um aðrar tilfærslur á þessu veit ég ekki.

Að mínu mati má margt að fyrirliggjandi fjárlagafrv. finna, en ég mun þó aðeins drepa á örfá atriði. Samkvæmt frv. er framlag til Gæsluvistarsjóðs 94 millj. kr., sem er allt of lágt miðað við þau mörgu brýnu verkefni sem sjóðnum er ætlað að sinna. En eins og hv. þm. er kunnugt er honum ætlað að styrkja hvers konar starfsemi til hjálpar áfengissjúklingum. Sem dæmi má nefna að mjög hefur verið óskað eftir því af Norðlendingum, að ónotað skólahúsnæði að Laugalandi í Eyjafirði verði tekið til afnota fyrir áfengissjúklinga með svipuðum hætti og nú er um Sogn í Ölfusi. Gæsluvistarsjóður hefur ekki haft bolmagn til að sinna þessu verkefni og húsið, sem er eign ríkissjóðs og Eyjafjarðarsýslu, stendur ónotað og í niðurníðslu, öllum til vansa. Mörg önnur dæmi mætti nefna.

Svipað er að segja um Erfðafjársjóð. Samkvæmt fjárlagafrv. eru honum ætlaðar 327.3 millj. kr. þó að markaðir tekjustofnar hans séu áætlaðir 700 millj. Sá sjóður á að standa undir stofnkostnaði endurhæfingarstöðva fyrir öryrkja vítt um landið. Einnig er honum ætlað að styðja byggingu dvalar- og hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Hans verkefnum verður afar illa sinnt með 327 millj. kr. framlagi.

En það er ekki aðeins í þessu fjárlagafrv. sem umræddir sjóðir eru sveltir, þróunin undanfarin ár hefur gengið í þá átt.

Það, sem ég hef þó mestar áhyggjur af í sambandi við fjárlagafrv., er að það gerir ráð fyrir að skerða markaða tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna um hvorki meira né minna en 3866 millj. kr., eða meira en 34%. Á fjárlögum s.l. árs voru þessir mörkuðu tekjustofnar skertir um 10%, eins og var um flestalla lánasjóði þá, og átti þó ekki að vera, a.m.k. ekki varðandi þessa sjóði, nema til bráðabirgða.

Í fjárlagafrv. því, sem hæstv. fyrrv. fjmrh., Tómas Árnason, lagði fram, var reiknað með 15% skerðingu á þessum sjóðum og sú skerðing var áframhaldandi í fjárlagafrv. hæstv. fyrrv. ráðh. Sighvats Björgvinssonar. En nú er sem sagt reiknað með að þessi skerðing verði 34%. Ég mótmæli mjög eindregið skerðingunum í fyrri frumvörpum, 15% skerðingunum, bæði munnlega og skriflega. En með þessari skerðingu, þessari 34% skerðingu, er verið að eyðileggja alla möguleika til uppbyggingar öflugs veðlánakerfis í næstu framtíð og þar með allar meiri háttar umbætur á sviði húsnæðislána. Auk þess eru þetta svik við áður gert samkomulag við launþegasamtökin um þessa sömu mörkuðu tekjustofna.

Sagt er að úr þessu eigi að bæta í lánsfjáráætlun. Það er auðvitað hægt að bjargast eitt og eitt ár með auknum lántökum til veðlánakerfisins. En það er ólíku saman að jafna: lántökum annars vegar og tekjum af mörkuðum tekjustofnum hins vegar. Við byggjum aldrei upp öfluga lánasjóði með lántökum einum saman, með því að taka lán hjá lífeyrissjóðunum með 5% vöxtum og fullri verðtryggingu til 15 ára, eins og nú er gert, og endurlána féð með 2% vöxtum til 26 ára, eins og líka er gert í dag. Það liggur í augum uppi, að við tæmum sjóðina með því móti, ef langt verður gengið á þessari braut.

Það er algjört grundvallaratriði fyrir meiri háttar umbætur í húsnæðislánakerfinu, að núverandi tekjustofnar byggingarsjóðanna verði óskertir næstu 10–12 árin. Eftir það geta sjóðirnir staðið á eigin fótum að mestu og veitt margfalda þjónustu, miðað við það sem þeir gera í dag, án verulegra framlaga frá ríkissjóði. En til þess að svo megi verða verður fyrst að byggja sjóðina upp. Það verður aldrei gert ef stefna fjárlagafrv. í þessum efnum verður ráðandi. Ég vara eindregið við þessari þróun.