26.03.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

116. mál, fjárlög 1980

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt Sverri Hermannssyni, hv. 4. þm. Austurl., brtt. á þskj. 239, sem ég vil mæla fyrir og skýra nokkuð fyrir hv. alþm.

Á undangengnum dögum hafa orðið háværar umræður um verðlag innfluttra orkugjafa og það hversu ríkissjóður tekur í vaxandi mæli til sín skatta og aðflutningsgjöld, t.d. af bensíni og olíum, og verður sú skattheimta því meiri sem innkaupsverðið verður hærra. Nú er svo komið, að því er mér er tjáð, að áætlað er að á árinu 1980 taki ríkið til sín af bensíni einu 29 milljarða kr., en á árinu 1978 voru tekjur ríkisins af bensíninnflutningnum ekki nema 9 milljarðar kr. Þarna hefur orðið geysileg breyting á stuttum tíma. Árið 1978 fékk Vegasjóður í sinn hlut 51% þessara tekna. Eftir till. ríkisstj. í fjárlagafrv. er Vegasjóði gert að fá af áætluðum tekjum af bensínsköttum aðeins 11 milljarða kr., eða 38%, þegar ríkissjóður tekur til almennra nota 18 milljarða kr., eða 62% skattteknanna.

Þegar lítið er til þess, hversu risavaxin verkefni bíða í vegagerð, og það er jafnframt haft í huga, að hvarvetna í landinu beinist áhugi fólks fyrst og fremst að bættum vegum og öruggari samgöngum á landi, þá er þessi skipting vægast sagt óeðlileg. Bílaeigendur leggja að sjálfsögðu á það áherslu, að lagt verði bundið slitlag á vegi jafnóðum og þeir eru byggðir upp úr snjó, eins og það hefur verið kallað, og verður það að teljast eðlileg krafa þegar svo tilfinnanlega háir skattar falla til ríkisins af ökutækjum, bæði í stofnverði þeirra og rekstri. Um það má deila, hvernig haga skuli skattheimtu, hversu mikil hún skuli vera í hverju tilviki, en mestum ágreiningi veldur þó ráðstöfun skatta sem þeirra sem hér er rætt um.

Það er glöggt af þeim samanburði, sem ég hef lýst, á fjárlögum fyrir árið 1978, þegar Vegasjóður hafði til ráðstöfunar 50%, þ.e. helming þeirra álaga sem lögð eru á sem bensínskattar, og þeim till., sem nú eru í frv. til fjárlaga, sem eru um 38% álagðra bensíngjalda, að hlutur Vegasjóðs liggur illilega eftir. Það er till. okkar flm. að fá þessu hlutfalli breytt, en við göngum þó ekki lengra en svo að jafnast við árið 1978. Við leggjum til að til Vegasjóðs gangi 1411/2 milljarður kr. í stað 11 milljarða, sem till. er um í frv.

Vitaskuld er þetta miklu lægri upphæð en þarf til þess að halda þeim framkvæmdamætti Vegasjóðs sem Alþ. ætlaðist til að ná þegar vegáætlun var samþykkt 23. maí 1979, eða fyrir ellefu mánuðum. Til þess að halda þeim framkvæmdamætti í vegagerð skortir 61h milljarð kr., að því er mér er tjáð af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Það er því augljóst mál, að ekki er vanþörf á að ráða hér bót á. En hér er aðeins lagt til að koma til móts við viljayfirlýsingu Alþingis að hluta til að því er vegaframkvæmdir varðar. Og við flm. gerum till. um að viðbótarfénu verði ráðstafað til nýbyggingar vega. Ef annað fé, sem ætlað var til nýbyggingar í vegáætlun, verður ekki skert, þá heldur þó fyrri ákvörðun um framkvæmdamagn nýbygginga gildi sínu. Vísitala vegagerðarkostnaðar er að mati Vegagerðarinnar um 30% hærri 1980 en hún var fyrir ellefu mánuðum, þannig að nýbyggingar ættu að ganga fram í því magni sem Alþ. ákvað á sínum tíma. Ef sú till., sem ég mæli hér fyrir; verður samþykkt, verða til ráðstöfunar í þessu skyni 13 531 millj. kr. í stað 10 031 millj. kr. sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.

Við gerum ekki till. um þetta aukna fjármagn til vegamála með það í huga að auka álögur á skattborgarana í landinu. Okkur þykir það ekki vera hrósvert, þó við stöndum þannig að tillögugerð. Mér kom það því dálitið spánskt fyrir sjónir þegar gert var veður út af því, að einn og einn maður tæki ábyrga afstöðu í fjármálapólitík, eins og hv. þm. Karvel Pálmason hrósaði sér af áðan að hann og hans flokksmenn gerðu. Ég tel ekki nema sjálfsagðan hlut að þannig sé staðið að málum hverju sinni, að menn geti forsvarað gerðir sínar og staðið við þau fyrirheit sem þeir hafa haft uppi. Og þegar svo stutt er liðið frá kosningum eins og hún er, þá ætti mönnum ekki að hafa gleymst það sem þeir hafa sagt. (Gripið fram í: Það er nú heilmörg gleymska samt.) Það er einn og einn maður, sem gleymir því sem hann sagði kjósendum fyrir kosningarnar, en sumir eru líka fljótir að skipta um skoðun þegar þeir eru komnir hér inn í salinn. (Gripið fram í: Þessir menn eru fjarstaddir.) — Þess vegna gerum við einnig till. um sparnað á fjárlögum og aðhald í ríkisrekstri til jafns við það aukna fjárframlag til Vegasjóðs, en það er 31/2 milljarður kr.

Vinstri stjórnin, sem sprakk, ákvað að framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna skyldi vera 2235 millj. kr. og var sú fjárhæð til ráðstöfunar á árinu 1979. Í fjárlagafrv. fyrir 1980 er þetta framlag hækkað um 141.3%, á sama tíma og útgjöld vegna lífeyristrygginga hækka um 71.5%. Ef hækkun framlags til Lánasjóðsins er miðuð við svipaðan hundraðshluta og lífeyristryggingarnar, eða 70%, þá sparast á þeim lið fjárlaga um 11/2 milljarður kr. Við leggjum til að framlagið verði lækkað um þá upphæð, eins og till. ber með sér.

Þá telja tillögumenn ríka ástæðu til, á slíkum verðbólgutímum sem nú ganga yfir land og lýð, að gera að því gangskör að beita aðhaldi í rekstri ríkisbáknsins. Í fjárlagafrv. kemur fram að launaliður ríkisins nemur 95 milljörðum 525 millj. kr. og er þá 77.3% hærri en sá liður var á fjárlögum 1979. Þetta er allt of mikil hækkun milli ára, þegar mið er tekið af almennri þróun launamála og þeim áætlunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur í launamálum, og ef ekki á að halda áfram þeirri verðþenslu sem ríkt hefur hér um skeið. Tillögumenn gera ráð fyrir því, að launaliður frv. verði lækkaður um 1600 millj. kr., og benda á þá leið til að ná því marki, að hverju sinni sem ríkisstarfsmaður hverfur frá starfi af einhverjum sökum, þá verði þess gætt að ráða ekki að nýju í starfið næstu tvo mánuði, nema sérstakar ástæður banni slíka ráðstöfun. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér um hreyfingu á starfsliði ríkisins, má gera ráð fyrir að með þessum hætti yrði sparnaður fyrir ríkissjóð sem nemur 1600 millj. kr. Um leið og þessum árangri væri náð má ætla að aðferðin hefði leitt í ljós í einhverjum — vonandi mörgum tilvikum að fækka mætti starfsfólki hér og þar í ríkiskerfinu og ekki yrði ráðið í störfin að nýju. Slíkum árangri er vert að leitast við að ná, og því er lagt til að fara þessa leið til aðhalds og sparnaðar í ríkiskerfinu.

Að síðustu leggjum við til að gengið sé á jafnaðartölu fjárlaganna og óviss útgjöld verði lækkuð um 400 millj. kr.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þessa till. öllu fleiri orð. Hún er mjög vel skiljanleg og ég þykist hafa dregið fram í dagsljósið þau helstu rök sem eru fyrir því, að hún er flutt, og þeim ráðstöfunum, sem gera þyrfti í sambandi við hana.

En ég get ekki látið hjá líða að koma hér aðeins inn á einn þátt fjárlagaumræðunnar, sem nokkuð hefur verið vikið að á undan mér af ýmsum aðilum, en það eru lánsfjáráætlanir sem eiga samkv. lögum að fylgja fjárlagafrv. Ég held að það sé rétt með farið hjá mér, að ekki var skyldugt að leggja fyrir Alþ. lánsfjáráætlanir lengi fram eftir árum. Og ég hygg að það hafi ekki verið gert fram til ársins 1975, það hafi verið samdar framkvæmda- og fjáröflunaráætlanir, en ekki lagðar fyrir Alþ. Ég hygg að fyrsta áætlun, sem lögð var fyrir Alþ., hafi verið fyrir árið 1976 og lögð fyrir Alþ. við 3. umr. fjárlaga 19. des. 1975. Og hún er ekki lögð fyrir þingið af því að það hafi verið lagaskylda, að svo skyldi gert heldur var þarna verið að gera tilraun til þess að styrkja fjárlagagerðina. Og þetta var fyrsta tilraunin. Áætlunin var lögð fram af þáv. fjmrh., Matthíasi Á. Mathiesen. Hún var kynnt á Alþ., eins og ég sagði áðan, við 3. umr., en frv. varðandi lánsfjáráætlunina hafði áður verið lagt fram, og var það samþykkt með fjárlögunum að þessu sinni.

Lánsfjáráætlun var aftur lögð fyrir Alþ. 1977. Hún var lögð fram og kynnt þar við 3. umr. fjárlaga 20. des. 1976. Það var alveg á sama hátt og áður, að það var ekki lagaskylda að leggja slíka lánsfjáráætlun fram. Hins vegar hafði frv. varðandi lánsfjáráætlun verið lagt fram áður og var samþykkt með fjárlögunum 21. des. 1976, og það held ég að sé rétt að rifja upp líka, að sá seinagangur, sem þá var kallaður svo, var mjög gagnrýndur af stjórnarandstæðingum og þó sérstaklega Alþb.-mönnum.

Lánsfjáráætlun fyrir árið 1978 tókst að leggja fram og kynna við 2. umr. 13. des. 1977, og þá var hún afhent fjvn.-mönnum svo og formönnum þingflokkanna nokkrum dögum áður. Lög varðandi lánsfjáráætlunina 1978 voru samþykkt 21. des. 1977 með fjárlögum 1978. Og þetta var harðlega gagnrýnt af stjórnarandstæðingum þá. Sérstaklega var það gagnrýnt af Alþb.-mönnum, þrátt fyrir það að ekki voru fyrirmæli um það í lögum, að lánsfjáráætlun skyldi lögð fram.

Lánsfjáráætlun fyrir árið 1979 var lögð fram, eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið, 21. febr. 1979. Lög um lánsfjáráætlun voru samþykkt 16. maí 1979, nærri hálfu ári eftir samþykkt fjárlaga 1979. Þarna hefur heldur sigið á ógæfuhliðina og hefði verið ástæða til að gagnrýna það, hefðu menn verið þess sinnis á þeim tíma. En þá gerist það, nokkru áður en lögin um lánsfjáráætlun voru samþykkt, að samþykkt voru lög um stjórn efnahagsmála. Þau voru samþ. 7. apríl 1979, og þar er sett í lög, að ríkisstj. skal leggja fyrir Alþ. fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn og skulu þær fylgja fjárlagafrv. Nú heyri ég ekki að neinn af stuðningsmönnum stjórnarinnar gagnrýni þann hátt sem nú hefur verið tekinn upp, og er það þó í fyrsta skipti sem það má heita ámælisvert, fyrir það að nú er það skyldugt samkv. lögum og þetta því lögbrot, en hefur ekki verið það áður.

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta þessar upplýsingar koma hér fram til þess að undirstrika þá gagnrýni sem með réttu hefur verið höfð hér uppi í sambandi við það, að lánsfjáráætlun hefur ekki verið lögð fram enn. Ég get þá látið máli mínu lokið og legg áherslu á það að síðustu, að alþm. líti á þá till., sem við hv. þm. Sverrir Hermannsson höfum flutt og ég hef skýrt, og samþykki hana með okkur.