27.03.1980
Efri deild: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

131. mál, flugvallagjald

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér höfum við til meðferðar eitt af skattahækkunarfrv. hæstv. ríkisstj. sem drífa nú að eins og skæðadrífa. Í dag höfum við flugvallagjald. Það er að vísu fleira að ske en stöðugar hækkanir á gjaldheimtu til ríkisins, hvort sem það er á einstökum sérmörkuðum gjöldum, eins og flugvallagjaldi, eða hækkun skatta. Jafnframt þessu eru svo boðaðar og hafnar aðgerðir sem þeir kalla „niðurtalningu á verðlagi.“

Það eru þess vegna einkennilegir tímar sem við lifum á. Ég hygg að flestum muni þykja svo, því að það þarf sérstaka kunnáttu og leikni til að skýra hvernig þetta má fara saman, enda höfum við ekki heyrt neinar skýringar á því enn sem komið er. En því miður er að óttast í þessu efni að reynslan verði ólygnust og út úr þessu komi ekki annað en aukið öngþveiti í efnahagsmálunum. Það er eðlilegt, vegna þess að hæstv. núv. ríkisstj. hefur enga stefnu í efnahagsmálunum. Og það er eins með flugvallagjaldið og aðra gjaldheimtu ríkisins, að hún þarf, ef vel á að vera, að vera markviss og hafa ákveðinn tilgang í sjálfri sér. Þarf þá skattheimtan hverju sinni og á hverju sviði að vera í samræmi við einhverja heildarstefnu.

Það var líka svo þegar flugvallagjaldið var tekið upp 1975. Þá var flugvallagjaldið liður í víðtækum ráðstöfunum sem þáv. ríkisstj. gerði í efnahagsmálunum. Í byrjun febr. það ár var framkvæmd gengislækkun. Í kjölfar þeirrar gengislækkunar og í beinu sambandi við gengislækkunina voru gerðar víðtækar ráðstafanir til að hamla gegn verðbólgu og stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum. M.a. voru þá gerðar skattalækkanir. Var þá lækkaður tekjuskattur, lækkaður söluskattur og lækkaðir tollar. Þarna var um víðtæka skerðingu á tekjum ríkissjóðs að ræða. En þessar skattalækkanir voru miðaðar við að bæta þeim, sem verst voru settir, verðhækkunaráhrif gengislækkunarinnar. En til þess að gæta hags ríkissjóðs var óhjákvæmilegt að gera fleiri ráðstafanir. Það var í því sambandi og af þeim ástæðum sem flugvallagjaldið var tekið upp 1975, sem hæstv. fjmrh. vitnaði til í ræðu sinni áðan. Enn fremur var gerð sú ráðstöfun, að komið var á sérstökum skyldusparnaði til að mæta þeim skattalækkunum sem hins vegar voru gerðar. Þannig var flugvallagjaldið í upphafi einn liður í víðtækum ráðstöfunum sem voru gerðar um þær mundir í efnahagsmálunum í heild. Þetta bið ég menn að hafa í huga.

Það var aldrei gert ráð fyrir að þetta flugvallagjald þyrfti að vera um alla framtíð þó að það hefði verið talið eftir atvikum fær leið til að mæta sérstökum þörfum árið 1975. M.a. voru ekki ákvæði um það í lögunum, sem þá voru sett, að flugvallagjaldið hækkaði sjálfkrafa samkv. vísitöluákvæði í lögunum sjálfum. Hvenær gerðist það? Auðvitað gerðist það ekki fyrr en vinstri stjórn kom, og hæstv. fjmrh. minnti á það í orðum sínum áðan. Það var 1978. Þá voru sýndir tilburðir til þess að gera þetta gjald varanlegt. Nú er lögð áhersla á það af hæstv. fjmrh. — Herra forseti. Ég kann betur við að hæstv. ráðh. sýni d. þá virðingu að vera viðstaddur 1. umr. um stjfrv. sem hann stendur að. (Forseti: Hann hlýtur að vera nálægur, ég skal láta athuga það.)

Já, hæstv. fjmrh. gengur á ný í salinn. Ég vildi vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. lagði í máli sínu áðan áherslu á að hér væri um ráðstafanir að ræða til að efla flugmálin eða auka framkvæmdafé til þeirra. Nú getum við öll verið sammála um að það er nauðsynlegt að veita meira fé til flugmála en gert hefur verið á undanförnum árum og ekki síst heldur en gert er ráð fyrir að verði gert á þessu ári. Í raun og veru er það svo, að það er furðuleg skammsýni af fjárveitingavaldinu að hafa ekki gert miklu betur við þennan mikilvæga þátt samgöngumálanna en hefur verið gert. Þess vegna hlýtur það að falla í góðan jarðveg þegar sagt er að eitthvað eigi að gera til að gera bragarbót í þessum efnum. Til þess að undirstrika þetta sjónarmið var 1978 gerð sú breyting á lögunum, að það var beint tekið fram að þetta fé skyldi ganga til flugmála.

En það er einikennileg árátta, sem oft er á þeim vinstri mönnum, að þegar þeir mæla sem fegurst eru framkvæmdirnar vestar. Og það er svo í þessu efni, því að fá dæmi eru skýrari um þetta en einmitt flugvallagjaldið og frv. það sem hér er lagt fram.

Hæstv. ráðh. sagði að þetta skyldi ganga til flugmála. Ég vil víkja örlítið nánar að þessu. við skulum athuga hvað það er sem hæstv. ráðh. á við þegar hann segir þetta. Við skulum hafa í huga að í fjárlagafrv. því, sem hæstv. ráðh. hefur lagt fram og er til afgreiðslu í þinginu, er gert ráð fyrir að framkvæmdafé til flugmála nemi 900 millj. kr., en í fjárlögum 1978 var sami liður 800 millj. kr., þannig að fjármagn það, sem veitt er til þessa mikilvæga samgönguþáttar, hækkar á þessum miklu hækkunartímum um 100 millj. eða 12.5%. Þetta er aukningin sem á að koma til framkvæmda í flugmálum, 100 millj., og það gerir 12.5% hækkun frá árinu 1979. Þetta er framkvæmdafé samkv. fjárlögum 1979 og fjárlagafrv. fyrir 1980. En hvað er þá um gjaldið á sama tíma, hvað er þá um fjármagnið sem flugvallagjaldið gefur á sama tíma?

Eins og hæstv. ráðh. tók fram voru tekjur af gjaldinu 1979 692 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því og tekið fram í grg. með þessu frv., að tekjur af gjaldinu séu áætlaðar á árinu 1980 1050 millj. kr. Tekjurnar af gjaldinu hækka því um 358 millj. Samkv. yfirlýsingum hæstv. ráðh., þeim upplýsingum sem við höfum úr fjárlögum fyrir síðasta ár og grg. með fjárlagafrv. fyrir árið 1980 eiga 258 millj. af þessari upphæð að fara í almenna eyðslu ríkissjóðs, en aðeins 100 millj. til flugmálanna, sem er hinn yfirlýsti tilgangur þessa frv. og hæstv. ráðh. leggur sérstaka áherslu á þegar hann mælir fyrir því hér. (Fjmrh.: Þetta er misskilningur.) Hæstv. ráðh. segir að þetta sé misskilningur. Við fáum að heyra í hverju sá misskilningur er fólginn. Ég legg áherslu á þetta atriði þangað til við heyrum þann misskilning.

Eitt af því, sem frv. gerir ráð fyrir, er að festa þennan skatt þannig að það þurfi ekki öðru hverju að leita til Alþ. um hækkanir eftir því sem verðlag hækkar í landinu. Það er tilraun til að gera þennan skatt varanlegan — skatt sem nú er lagður á undir því yfirskini að hann sé til að efla flugmálin í landinu, en er raunverulega í hina almennu eyðsluhít ríkissjóðs.

Ég vil enn fremur taka það fram, að ef við eigum að halda okkur við það að flugvallaskatt þurfi til að efla þennan samgönguþátt, flugmálin í landinu, er þessi skattur allt of lítill, ef menn standa í þeirri trú að það fjármagn, sem hann gefur, nægi sem framkvæmdafé í þennan þýðingarmikla samgönguþátt landsmanna. Þær tekjur, sem þessi skattur gefur, hefðu að sjálfsögðu þurft að koma ofan á eðlilegar fjárveitingar beint úr ríkissjóði til þessara mikilvægu mála. En með framferði hæstv. ríkisstj. má segja að þessi skattheimta sé frekar skálkaskjól fyrir undanbrögð stjórnvalda til að leggja nægilegt fé beint úr ríkissjóði til þessara mála.

Það ræður af því sem ég hef hér sagt, að við sjálfstæðismenn teljum óhafandi slíkt framferði sem lýsir sér í framlagningu þessa frv. og allri meðferð þessara mála. Við getum ekki verið með slíkri skattlagningu sem hér er um að ræða, sem er ekki í neinu samhengi við markvissar og ákveðnar aðgerðir til að bæta stöðu okkar í þeim mikilvæga þætti samgöngumálanna sem flugmálin eru. Hér er einungis um að ræða eitt af þessum skattheimtufrv. sem ríkisstj. kastar inn á borð okkar þm., ekki í samræmi við neina heildarstefnu í ríkisfjármálunum eða í efnahagsmálunum yfirleitt, enda ekki von þar sem slíkri stefnu er ekki fyrir að fara.