27.03.1980
Efri deild: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

131. mál, flugvallagjald

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Í því frv., sem hér er lagt fram, er gert ráð fyrir að hækka flugvallagjald um 60% frá 1. jan. 1979 eða frá því sem í gildi var þá, en þar að auki er ákvæði um að ráðh. geti hækkað gjaldið í hlutfalli við hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar miðað við grunntaxta 1. jan. 1980. Samkv. því og þeirri verðlagsþróun, sem fram undan er, gæti þetta gjald hækkað í heild um 100% eða svo. Hugmyndin er að bæta þessu ofan á stórkostleg áform um tekjuskattshækkanir og aðrar hækkanir sem birst hafa í boðskap ríkisstj. Ég verð því að segja, að a.m.k. við þessar aðstæður sýnist okkur nokkuð djúpt seilst í vasa skattborgaranna og þetta ekki vera líklegt til að verða liður í þeim aðhaldsaðgerðum sem nauðsynlegar eru.

Í stuttu máli sagt líst Alþfl.-mönnum heldur illa á frv.