27.03.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1510 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

116. mál, fjárlög 1980

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Í pósthólfi mínu lá, þegar ég kom á þennan fund, bréf heldur óhrjálegt frá Einari Steinþórssyni, Pétri Reimarssyni og Þorgeiri Pálssyni. Í þessu bréfi er vikið að Sjálfstfl. með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Það kemur alls ekki á óvart, að sjálfstæðismenn séu á móti því sem gert hefur verið til að auka jafnrétti í þjóðfélaginu, og er það raunar í rökréttu samhengi við leiftursókn þeirra gegn lífskjörum í landinu.“

Þetta bréf á að vinna fylgi við till. fjárlagafrv. um fjárveitingar til námsmanna. Ég sé ekki ástæðu til annars þrátt fyrir þessa sendingu, sem ég leyfi mér að kalla heimskulega sendingu, en að taka efnislega á þessu máli. Mér er það ljóst, að vandi lánasjóðsins er mikill og hann verður að leysa. Ég sagði í ræðu minni, sem ég flutti fyrr við þessa umr., að það væri nauðsynlegt að endurgreiðslureglum yrði breytt þannig að meira fengist inn í afborgunum. Í trausti þess, að að því verði unnið, segi ég nei.