28.03.1980
Neðri deild: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

96. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér er á dagskrá, 96. mál Nd., á þskj. 145, fjallar um breyt. á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.

Frv. þetta var lagt fram af fyrrv. ríkisstj. og kemur nú til 1. umr. Í frv. er um að ræða breytingu á 19. gr. almannatryggingalaga og er breytingin fólgin í því, að sérstaklega sé tekið fram að við ákvörðun bótahækkunar vegna uppbótar á elli- og örorkulífeyri og örorkustyrk megi taka sérstaklega tillit til afgerandi sérþarfa bótaþega, t.d. bifreiðaeignar og bifreiðarekstrar þeirra sem hreyfihamlaðir eru. Þessi breyting er gerð vegna þess að ekki þótti ótvírætt, að 19. gr. laganna, eins og hún er nú orðuð, fell í sér heimild til svo viðamikilla lífeyrisuppbóta sem þörf er á, ef taka á tillit til þeirra miklu breytinga á eldsneytiskostnaði og öðrum rekstrarkostnaði bifreiða sem orðið hafa á síðustu árum. Gert er ráð fyrir að breyta lögunum í samræmi við þetta. Einnig er gert ráð fyrir að ráðh. setji reglugerð, að fengnum tillögum tryggingaráðs, um framkvæmd þessara bótahækkana.

Í grg. með frv. er gerð tilraun til þess að meta kostnaðaráhrif frv. þessa, ef það verður að lögum. Ég tel að eins og sakir standa sé þó erfitt að slá því föstu að sú tala, sem í grg. kemur fram, sé rétt. Það er því skoðun mín að komið gæti til álita að breyta frvgr. á þann veg, að um væri að ræða fasta upphæð mánaðarlega sem heimilt væri að veita í þessu skyni, eftir ákvörðun á fjárlögum hverju sinni.

Ég vil með þessum aths. leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.