28.03.1980
Neðri deild: 51. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

96. mál, almannatryggingar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína með að hæstv. félmrh. skuli nú flytja það frv. sem hér er á dagskrá. Mér finnst sú hugmynd, sem kom fram í máli hans um fasta mánaðarlega greiðslu, mjög vel koma til greina. Yrði það þá að koma í reglugerð.

Þó að sú breyting, sem í frv. felst, sé mjög til bóta fyrir þá sem verst eru settir í þessum efnum, þá er að mínu áliti sjálfsagt að athuga þessi mál enn betur í þeirri allsherjarendurskoðun sem nú fer fram á lögum um almannatryggingar. En nú er, eins og hv. þm. er kunnugt, starfandi nefnd allra þingflokka sem vinnur að allsherjarendurskoðun þeirra laga.