31.03.1980
Efri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. hefur tekið til meðferðar það frv. sem hér er til umr. Nefndin hefur haldið nokkra fundi, rætt málið ítarlega og fengið til viðtals við sig m.a. fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands, Verslunarráði og ríkisskattstjóra. Það er niðurstaða nefndarinnar af þessari athugun allri að mæla með því að frv. verði samþ. Fjórir nm., Guðmundur Karlsson, Karl Steinar Guðnason, Salome Þorkelsdóttir og Þorv. Garðar Kristjánsson, hafa þann fyrirvara á meðmælum sínum að samþ. verði brtt. frá þeim um að felld verði niður úr frv. heimild sveitarstjórna til að hækka útsvör um 10%. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Þetta frv., sem við nú fjöllum um, felur fyrst og fremst í sér ákvæði sem eru til þess að aðlaga lög um tekjustofna sveitarfélaga lögum um tekjuskatt og eignarskatt, lögum nr. 40 frá 1978. Það hefur ekki verið neinn ágreiningur um að það væri nauðsynlegt og rétt að slík aðlögun færi fram og enginn ágreiningur um með hverjum hætti það er gert. Þetta kom m.a. fram þegar málið var í Nd. Þá héldu félmn. beggja d. sameiginlega fundi og þar varð samstaða um þetta meginefni frv. og þannig var það afgreitt með verulegum breytingum úr félmn. Nd. En í Nd. tók það þó einni breytingu sem hefur valdið miklum ágreiningi, og það er enn þá ágreiningur um það atriði. Það er einmitt það atriði sem ég ásamt þremur öðrum félögum mínum í hv. félmn. Ed. hef gert að fyrirvara fyrir því að mæla með að frv. verði samþ.

Hér er um að ræða 10% álagið á útsvarið. Ég skal ekki fara að hefja langar umr. um það ágreiningsefni, en ég get ekki látið hjá líða að víkja nokkrum orðum að ræðu sem hæstv. félmrh. hélt við 1. umr. um þetta mál. Ég svaraði því ekki þá og gat þess að ég vænti þess, að þegar málið kæmi aftur fyrir deildina værum við búnir að ná samkomulagi um þetta atriði. Nú fór svo, að ekki varð samkomulag. Ég vil því með fáeinum orðum víkja að því sem hæstv. félmrh. sagði um þetta mál.

Mér virtist kjarni málsins vera sá, að hann lagði áherslu á kosti ákvæðisins um 10% álag fyrir skattþegnana í landinu, þ.e. að útsvarið er hækkað úr 11% í 12.1%. Hæstv. félmrh., sem nú gengur í salinn, talaði um þetta við 1. umr. málsins sem hér væri um að ræða hagnað eða ávinning fyrir suma skattþegna og átti hann við þá sem minnstar tekjur hafa. Þetta átti að vera vegna þess að ónýttur persónufrádráttur af tekjuskatti mundi greiða fyrir þá lægst launuðu útsvarið að öllu eða miklu leyti.

Um þetta er það að segja, að alls ekki er hægt að alhæfa þetta sjónarmið eins og hæstv. ráðh. gerði. Í fyrsta lagi er það svo, að ekki er búið að ákveða persónufrádráttinn enn. Í öðru lagi er ekki búið að ákveða skattstigana enn. Og það, að hve miklu leyti persónufrádrátturinn nýtist hinum einstaka gjaldþegni, fer að sjálfsögðu líka eftir því hver skattstiginn er. Nú er það hins vegar, að í útreikningum eða í málflutningi hæstv. ráðh. leggur hann að vísu til grundvallar, að því er mér skilst, þann skattstiga og þann persónuafslátt sem lagður er til í frv. til l. um breytingar á tekju- og eignarskatti, mál nr. 127. En þó að slíkt sé gert segir það ekki mikla sögu vegna þess að ekkert er ákveðið um þetta. Það eru m.a.s. uppi ýmsar hugmyndir um hver persónuafslátturinn eigi að vera eða skattstigarnir. Fyrir helgina, þegar fjh.og viðskn. beggja d. héldu sameiginlega fundi, komu upp hvorki meira né minna en fjórar tillögur frá stjórnarliðinu um mismunandi skattstiga og mismunandi persónuafslátt. Af þessu sést hve mikið er hægt að leggja upp úr því þó að ákveðnar tölur séu á þessu stigi lagðar til grundvallar hjá hæstv. félmrh.

Við skulum halda okkur við þær tölur sem hæstv. ráðh. byggir fullyrðingar sínar á. Þá er það svo, ef skattstiginn verður óbreyttur, persónuafslátturinn óbreyttur frá því sem gert er ráð fyrir í frv. til l. um breytingar á tekju- og eignarskattslögunum, að útsvarshækkunin frá 11% upp í 12.1% kemur ekki til þyngingar fyrir útsvarsgreiðendur fyrr en útsvarstekjurnar hafa náð 1.5 millj. En ef útsvarstekjurnar eru lægri en 1.5 millj. er það ekki til þyngingar, eins og hæstv. ráðh. segir. Þetta held ég að sé rétt að taka hér fram, því að mér fannst nokkurs — ja, ég vil ekki segja yfirlætis gæta hjá hæstv. ráðh., en vissra drýginda þegar hann vildi meina að allir aðrir en hann, eða þeir sem ekki væru honum sammála í þessu efni, væru haldnir einhverjum misskilningi um þetta. (Félmrh.: Vill ekki hv. þm. endurtaka þessa tölu?) 1.5, þegar útsvarstekjurnar hefðu náð 1.5. En ég legg satt að segja ekki sjálfur of mikið upp úr þessari umr. og síst ákveðnum tölum — mér liggur við að segja hvorki frá mér né hæstv. ráðh. — meðan óvissa ríkir enn um hver persónuafslátturinn verður og hverjir skattstigarnir verða.

Í samræmi við þá skoðun, sem ég lýsti við 1. umr. þessa máls og einnig þegar á sameiginlegum fundum félmn. beggja deilda, legg ég til, og ber fram brtt. á þskj. 246 ásamt Karli Steinari Guðnasyni, Guðmundi Karlssyni og Salome Þorkelsdóttur um það, að 4. mgr. 5. gr. frv. falli niður, en þar er ákvæði að finna sem heimila sveitarstjórnum að hækka útsvörin um allt að 10% að fengnu samþykki ráðh. Ástæðan til þess, að brtt. er fram borin, er að sjálfsögðu sú, að við flm. hennar teljum að nú sé nóg komið af skattbyrðum, sem lagðar eru á almenning, þó að þær séu ekki auknar eða heimild veitt til hækkunar um þau 10% sem þetta ákvæði frv. felur í sér.

En í því trausti, að þessi till. verði nú samþ., viljum við, sem erum á þeirri skoðun að nú sé nóg að gert í skattahækkun á almenning, gera ráðstafanir til að aðstoða þau sveitarfélög sem sérstaklega eru illa á vegi stödd og hafa þá ekki möguleika á 10% álaginu á útsvarið. Samkv. þessu ber ég ásamt Salome Þorkelsdóttur og Guðmundi Karlssyni fram till. á þskj. 247. Í till. felst það, að á undan 1. gr. frv. komi ný grein, sem orðist svo sem þar er greint frá. Efni þessarar brtt. er fólgið í því, að heimilt er að greiða aukaframlag úr ríkissjóði sem nemur 2% af söluskatti þeim sem innheimtur er í ríkissjóð á árinu 1980, og skal þetta aukaframlag þá renna til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum sveitarfélaganna.

Þessi till. felur ekki í sér neinar auknar skattbyrðar á fólkið í landinu, en samt er hér gert ráð fyrir að líta til þeirra sveitarfélaga sem kunna að standa í einhverjum erfiðleikum. Við teljum að það ætti að vera nægilegt eða a.m.k. mikil bót að því að heimila að það megi greiða sveitarfélögunum samkv. þessu ákvæði sem svarar 2% af söluskatti. Í hv. Nd. kom fram till. þessa eðlis, en þá var m.a. gert ráð fyrir 4%. Og hér hefur verið lögð fram af hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni till. um 4%. Við, sem stöndum að till. sem ég er nú að lýsa og nemur aðeins 2%, gerum það í von um að enn megi takast að ná samstöðu um þetta mál á þann veg sem ég greindi og vék sérstaklega að við 1. umr. málsins.

Þá leyfi ég mér að víkja að brtt. á þskj. 246, þ.e. brtt. frá fjórum nm. í hv, félmn., þeim Karli Steinari Guðnasyni, Guðmundi Karlssyni, Salome Þorkelsdóttur og mér. Það er brtt. við 9. gr. frv. og er um að 6. mgr. falli niður. En í 6. mgr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Vangreiðsla að hluta veldur því að útsvar gjaldandans fellur í gjalddaga 15 dögum eftir gjalddagann, þó ekki fyrr en 15. næsta mánaðar eftir að álagningu er lokið.“

Þetta þýðir, að ef gjaldþegn getur ekki greitt eina afborgun af útsvari sínu er öll útsvarsupphæðin, sem eftir stendur, fallin í gjalddaga. Þetta er í samræmi við gildandi lög. En það er ekki nóg með að svo hafi verið ákveðið um gjalddaga, heldur hefur samkv. gildandi lögum verið heimilt að leggja á dráttarvexti þegar um vanskil hefur verið að ræða, ekki einungis á vanskil þeirrar afborgunar, sem um er að ræða, heldur allra eftirstöðva útsvarsins.

Þegar frv. þetta var lagt fram var engin breyting í þessu efni frá gildandi lögum. En í hv. Nd. sáu menn að hér var nauðsynlegt að gera á breytingu, og það var líka gert. Ég hygg að það hafi verið ætlun hv. Nd. að breyta báðum þessum ákvæðum, hinn beina ákvæði um dráttarvextina og hinu beina ákvæði um hvenær útsvarið væri allt gjaldfallið. Með tilliti til þessa var gerð sú breyting í hv. Nd. á 1. mgr. 19. gr. frv., að greiða skyldi sveitarfélagi dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Í frv. stóð upphaflega: „af því sem ógreitt er“, þ.e. dráttarvexti mátti leggja á alla útsvarsupphæðina, en samkv. breytingu, sem gerð var í Nd., er nú ekki heimilt að leggja dráttarvextina á aðra upphæð en þá sem er gjaldfallin. En hv. Nd. varð það á í messunni að ekki var stigið skrefið til fulls. Það láðist að fella niður 6. mgr. 9. gr., sem kveður á um hvenær skuld er gjaldfallin. Ef það er ekki gert er breytingin, sem Nd. gerði á 19. gr., sama og ógerð. Það er sama þótt þá sé miðað við gjaldfallna skuld ef á hinum staðnum er búið að segja að allt útsvarið, allar eftirstöðvarnar séu gjaldfallnar. Þetta er nánast, finnst mér, til þess að leiðrétta mistök sem hafa orðið í hv. Nd. Ég vænti þess að það verði enginn ágreiningur um að leiðrétta þau mistök hér.

Þá vil ég víkja að brtt. sem ég flyt ásamt Guðmundi Karlssyni og Salome Þorkelsdóttur og er á þskj. 245. Hér er um að ræða brtt. við 14. gr. frv. Ég vek athygli á að í 1. mgr. 14. gr. frv. er fjallað nm aðstöðugjaldsstofn, kveðið á um hver hann skuli vera, en aðstöðugjaldsstofn skal vera rekstrarkostnaður sá sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 40 frá 1978. Í framhaldi af þessu segir nú í frv.:

„Til rekstrarkostnaðar í þessu sambandi telst gjaldfærsla samkv. 53. gr. laga nr. 40/1978, en frá honum dregst tekjufærsla samkv. sömu grein.“

Þetta ákvæði var sett inn í frv. í hv. Nd. Það var ekkert í frv. um hvaða áhrif gjald- eða tekjufærsla samkv. 53. gr. tekju- og eignarskattslaganna ætti að hafa á aðstöðugjaldsstofninn. M.ö.o. varð að líta svo á, að tekjufærslan og gjaldfærslan kæmu fram með fullum áhrifum þegar væri ákvarðaður aðstöðugjaldsstofninn og til skattaþyngingar. En Nd. breytti þessu og kvað svo á, eins og stendur í frv. núna, að frá rekstrarkostnaði skyldi dragast tekjufærsla samkv. 53. gr. skattalaganna, þ.e. tekjufærslan átti ekki að hafa áhrif. Jafnframt er beinlínis tekið fram, að gjaldfærslan skuli hafa áhrif. Þannig gekk hv. Nd. frá þessu ákvæði. Upphaflega, þegar frv. er lagt fram, er enginn greinarmunur gerður á gjaldfærslu og tekjufærslu í þessu sambandi og hvorugt látið hafa áhrif á ákvörðun aðstöðugjaldsstofnsins. Í Nd. er þessu breytt þannig að tekjufærslan er ekki látin hafa áhrif, en gjaldfærslan látin hafa áhrif.

Till. sú, sem við þremenningarnir berum fram á þskj. 245, fjallar um að láta gilda það sama um gjaldfærslu og tekjufærslu í þessu efni. En sá er munur á því, hvernig frv. var lagt fram upphaflega og hvernig það yrði ef brtt. okkar yrði samþykkt, að upphaflega komu áhrifin fram bæði hvað varðar gjaldfærsluna og tekjufærsluna, en ef okkar till. verður samþ. koma hvorug áhrifin fram.

Það má að sjálfsögðu ræða miklu frekar um þetta mál og fara út í þau sjónarmið, sem liggja til grundvallar ákvæðum 53. gr. tekjuskattslaganna, og fara út í skýringar á þeim grundvallarsjónarmiðum sem gjaldfærslan annars vegar byggist á og tekjufærslan hins vegar, en ég skal ekki gera það nema að gefnu tilefni og skal nú stytta mál mitt. Ég vænti þess, að þetta atriði sé augljóst og nánast, eins og það atriði sem ég vék að áðan, væri þetta til leiðréttingar og til að koma frv. í það horf sem við ættum öll að geta verið sammála um.

Herra forseti. Ég hef þá rætt frv. og gert grein fyrir nál. hv. félmn. og þeim brtt. sem ég ásamt fleiri hef flutt á þskj. 245, 246 og 247. Ég skal því ekki hafa þessi orð fleiri.