31.03.1980
Efri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, sem var frsm. n., er innan n. samstaða um afgreiðslu frv. að meginhluta og n. hefur unnið vel og dyggilega að framgangi málsins. Vil ég þakka samnm. mínum fyrir það samstarf.

Þegar hliðstætt frv. var til umr. á sínum tíma um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt var skýrt tekið fram af hálfu fjmrh. og tekið undir það af öðrum stuðningsmönnum ríkisstj. að seinni partinn á þessu ári, þegar álagning lægi fyrir og menn hefðu heildarsýn yfir hvernig hin einstöku ákvæði hinna nýju skattalaga yrðu í framkvæmd, færi fram endurskoðun, bæði tæknileg endurskoðun á lögunum um tekju- og eignarskatt og endurskoðun á álagningunni sjálfri. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn hafi í huga að við erum að ganga inn í nýtt kerfi og það eru eðlilega mjög skiptar skoðanir um það kerfi. Fjmrh. lýsti því yfir hér fyrr í vetur, að hann hefði hugleitt það, eftir að hann tók við, að fresta þessari kerfisbreytingu um eitt ár, en það var samdóma álit allra þeirra sérfræðinga, sem hann leitaði til, að slíkt væri óframkvæmanlegt, fyrirtæki og einstaklingar hefðu miðað aðgerðir sínar á þessu ári við það að hin nýju skattalög, sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen beitti sér fyrir á sínum tíma, tækju gildi.

Það hafa komið fram, bæði varðandi frv. um tekju- og eignarskatt og eins það frv., sem nú er til umr., fjölmargar breytingar um nauðsynlega tæknilega endurskoðun á frv. Niðurstaðan hefur þó orðið sú með allan þorra slíkra breytinga, að mjög skiptar skoðanir hafa verið meðal þeirra sérfræðinga, sem um málið hafa fjallað, um hvort þær væru æskilegar eða réttar. Þess vegna hefur það verið afstaða margra okkar að geyma tæknilega endurskoðun á báðum þessum frv., þ.e. á frv. um tekju- og eignarskatt, sem nú er reyndar orðið að lögum, og eins þessu frv., þar til álagning lægi fyrir um mitt sumar. Það er sú afstaða sem ég hef til þeirra brtt. sem hér eru fluttar og snerta það sem kalla má tæknilega hlið frv. Ég treysti mér þess vegna ekki á þessu stigi til að greiða atkv. með brtt. og teldi æskilegast að þær væru annaðhvort dregnar til baka eða þá að d. samþykki þær ekki, bæði vegna þess, að hin tæknilega endurskoðun mun fara fram og mjög skiptar skoðanir eru um þessi atriði, og eins vegna þess, að málið hefur nú þegar orðið fyrir miklum töfum í þinginu og getur orðið hættulegt vegna hins mikla tímaskorts sem er hér vegna páskanna að fara að hleypa því aftur niður í Nd. Við vitum af slæmri reynslu að Nd. tekur sér ætíð langan tíma til að afgreiða flestöll mál og gæti hæglega orðið til þess að málið yrði ekki afgreitt úr þinginu fyrir páska, einkum og sér í lagi ef inn í það kynnu að blandast deilur um önnur frv. sem liggja óafgreidd í þinginu. — Í þessu sambandi er rétt að minna á að formenn þingflokkanna hafa fyrir sitt leyti gert samkomulag um það, og það var tilkynnt á fundi sem þeir héldu fyrir kl, tvö í dag, að flokkarnir mundu stuðla allir að afgreiðslu málsins fyrir páska.

Varðandi þær brtt., sem snerta verulegan efnisþátt, þ.e. afstöðuna til þeirrar 10% viðbótar sem samþ. var í Nd. á útsvarið, er það eindregin afstaða mín, eins og ég lýsti yfir í d. snemma í vetur, að það hafi verið gengið svo nálægt fjárhagsstöðu sveitarfélaga á síðasta áratug af öllum þeim ríkisstj. sem hér sátu, að á sama tíma og hlutfall ríkisútgjalda af þjóðartekjum hefur aukist um, að ég held, fjórðung eða tæpan fjórðung hefur hlutfall tekna sveitarfélaganna staðið í stað. Samt sem áður hafa þau orðið að taka á sig verulega aukin útgjöld. Ég sagði jafnframt þá, að mér fyndist koma til greina að gengið væri lengra í átt að kerfisbreytingu sem ríkjandi er í nágrannalöndum okkar, eins og t.d. Danmörku, og sveitarfélögunum veitt miklu meira svigrúm til að breyta álagningu sinni upp á við — og þá náttúrlega niður á við — vegna þess að fjárþarfir sveitarfélaganna eru mjög mismunandi, bæði vegna mismunandi atvinnulífs og annarra tekjumöguleika sem þar eru og eins vegna mismunandi þarfa á ólíkum aldursskeiðum sveitarfélaganna. Þess vegna ætti að skapa miklu meiri sveigjanleika við álagninguna en gert hefur verið til þessa og láta þá, sem stjórna sveitarfélögunum, bera alla pólitíska ábyrgð á því hvort þeir hagnýta sér slíkan sveigjanleika eða ekki.

Ég held að á Alþ. eigum við ekki að reyna að axla einnig pólitíska ábyrgð sveitarstjórnarmanna. Lýðræðiskerfi okkar er grundvallað á því, að á þessum tveimur stjórnstigum eru sérstakar kosningar. Það eru ólíkir hópar manna sem deila hinni lýðræðislegu ábyrgð. Alþ. ætti að vera hætt að veita fulltrúum sveitarfélaganna möguleika á að axla slíka ábyrgð.

Í þessu sambandi vil ég minna á að Samband ísl. sveitarfélaga hefur hvað eftir annað óskað eftir að fá heimild til hækkunar útsvara. Mér finnst þess vegna sjálfsagt að við verðum við þeirri beiðni og auðveldum þannig sveitarfélögum að standa undir þeim verkefnum sem á þau hafa verið lögð. Hvort slíkt leiðir til aukinnar skattbyrði í heild í landinu verður að koma í ljós á sínum tíma. Það liggur ekkert fyrir endanlega um það enn vegna þess að skattstigi tekju- og eignarskattsfrv. hefur ekki enn þá verið ákveðinn. Mín afstaða er sú, eins og ég lýsti fyrr í vetur, bæði áður og eftir að flokkur minn tók við ábyrgð ríkisfjármálanna, að við ættum í þetta sinn að fara öðruvísi í þetta mál en áður, lofa sveitarfélögunum að hafa forgang og knýja síðan ríkisvaldið til að taka tillit til þess með aðgerðum sínum, en ekki fylgja gömlu reglunni, að fyrst skuli ríkisvaldið hafa forgang og sveitarfélögin mæti afgangi.

Þetta mál hefur verið mikið rætt í þinginu og í þjóðfélaginu almennt. É veit að það, sem ég er hér að segja, er ekki neitt nýtt. Ég vildi hins vegar í tilefni þessarar umr. láta þessi meginsjónarmið koma fram og mun þess vegna greiða atkv. gegn brtt., sem hér hafa verið lagðar fram, þótt af mismunandi ástæðum sé. Varðandi tvær brtt. byggist það á því, að tæknileg endurskoðun um frv. fari fram í sumar og hæpið sé að fara að senda frv. aftur til Nd. eingöngu vegna tæknilegra atriða. Varðandi brtt. um tekjustofna sveitarfélaganna helgast afstaða mín af þeim meginsjónarmiðum sem ég lýsti í seinni hluta ræðu minnar.