31.03.1980
Efri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. félmn. fyrir röskleg störf við afgreiðslu þessa máls. Ég tek undir þau orð að öllu leyti sem hv. 11. þm. Reykv. lét falla áðan um þessi mál og endurskoðun þeirra í heild. En ég vil aðeins víkja að brtt. í sambandi við 9. gr., vegna þess að þar gæti verið um að ræða hlut sem menn hafi ekki velt fyrir sér áður og ég vil koma á framfæri. Ég vil ekki gera mönnum í hv. d. upp misskilning, vegna þess að ég finn að það finnst mönnum ekki viðeigandi að ráðh. geri.

Í 6. mgr. þessara greinar stendur svo:

„Vangreiðsla að hluta veldur því að útsvar gjaldandans fellur í gjalddaga 15 dögum eftir gjalddagann, þó ekki fyrr en 15. næsta mánaðar eftir að álagningu er lokið.“

Hér er einfaldlega verið að kveða á um hvenær útsvar gjaldandans fellur í gjalddaga. Nú kann að vera að eðlilegt væri að segja að útsvar gjaldandans falli að hluta í gjalddaga þegar komið er að þessari dagsetningu og ég geri ráð fyrir að það sé það sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson á við, en ekki í sjálfu sér allt útsvarið, sem ógreitt er, falli þá í gjalddaga. Vandinn í þessum efnum snýr þó ekki bara að lögunum um tekjustofna sveitarfélaga, heldur snýr hann líka að lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Það verður að gilda sama regla bæði í sambandi við innheimtu tekjuskattsins og útsvarsins í þessum efnum. Ég held því að ekki sé hægt að breyta greininni án þess að breyta um leið tekjuskattslögunum. Þess vegna er það sem þetta helst enn þéttar í hendur við endurskoðun tekjuskattslaganna en ella væri, með svipuðum hætti og hv. 1. þm. Reykv. gerði grein fyrir áðan. — Ég vil koma því sjónarmiði á framfæri að dálítið erfitt er að greina þarna í sundur og alveg sérstaklega þegar um er að ræða sameiginlega innheimtu, eins og t.d. er um að ræða hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík.

Aftur á móti afnemur þetta hvorki né heldur samþykkir ákvæði 1. mgr. 19. gr., en þar er verið að fjalla um dráttarvextina einvörðungu. Þessar tvær mgr., annars vegar 6. mgr. 9. gr. og hins vegar 1. mgr. 19. gr., stangast ekki á að mínu mati, að svo miklu leyti sem ég hef forsendur til að meta það á þessum stað og þessari stund. Ég held því að það sé í rauninni ekkert að gera annað en láta greinina fara með þessum hætti í gegn-núna, taka hana síðan til endurskoðunar um leið og tekjuskattslögin yrðu tekin til endurskoðunar, en ríkisstj. mun oft hafa lýst því yfir að þau hljóti að verða skoðuð eftir að reynsla kemur í ljós á miðju sumri af þeirri framkvæmd sem gert er ráð fyrir í lögum nr. 1 frá 1980.

Þessum almennu aths. vildi ég leyfa mér að koma á framfæri, en þakka að öðru leyti aftur félmn. d. fyrir hennar góðu störf að afgreiðslu þessa máls.