31.03.1980
Efri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. 11. þm. Reykv. sagði um ábyrgð og hlutverk sveitarfélaga. Það var allt vel og skynsamlega mælt og ég get tekið undir það. Eins og kom fram hjá honum og hefur komið áður fram í umr. um þetta mál eru þessi mál öll til endurskoðunar, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga, og hefur svo verið um nokkur ár. Við sjálfstæðismenn höfum haft bæði frumkvæði og mikinn áhuga á þessum málum og skal ég ekki fara að rekja það. Það er líka ánægjulegt að heyra þennan áhuga hjá hv. 11. þm. Reykv., og reyndar kom hann líka fram hjá hæstv. félmrh. við 1. umr. þessa máls. Þetta er ekki deiluefni.

Hins vegar varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum út af því, sem hv. 1 l. þm. Reykv. sagði um brtt. sem hér hafa verið lagðar fram, og með þá afstöðu hans að standa gegn þeim. Hv. þm. sagði að það væri samkomutag um það milli þingflokkanna að ljúka þessu máli fyrir páska. Það er samkomulag og auðvitað stendur það samkomulag þó að þetta frv. færi til Nd. til smávegis lagfæringar. Samkomulagið er einmitt rök fyrir því að við getum án þess að tefla málinu í neina tvísýnu, gert hér breytingar og þá yrði verkið fullkomnað í hv. Nd. Það samkomulag er ekki rök gegn brtt. af þessum ástæðum.

Hv. 11. þm. Reykv. talaði um að það þyrfti að breyta ýmsum tæknilegum atriðum í þessari löggjöf þegar reynsla væri komin á. Ég er alveg samþykkur honum um að það þurfi. En ég held að ekki sé hægt að kalla tæknileg atriði það sem hér er um að ræða, eins og hvort það á að vera heimilt að leggja dráttarvexti á allar eftirstöðvar útsvars eða ekki. Ég hygg að þeir, sem verða fyrir því, telji þetta annað og meira en tæknilegt mál. Auðvitað er þetta ákaflega óeðlilegt og ósanngjarnt, þó að ekki sé annað sagt, og veldur skattþegnum byrðum sem er ekki hægt að ætlast til að þeir beri.

Hæstv. félmrh. vék sérstaklega að einni brtt. sem ég lýsti. Það var brtt. um að fella skyldi niður 6. mgr. 9. gr. Mér skildist á honum að sú breyting á 19. gr. frv., sem gerð var í Nd. og ég vék að í fyrri ræðu minni, gæti staðist þó að við hefðum 6. mgr. 9. gr. Og mér skildist að ef kannske væri bætt þarna inn í og sagt: Vangreiðsla að hluta veldur því að útsvar gjaldandans að hluta o.s.frv., gæti þetta verið í lagi frá hans sjónarmiði, ef ég hef skilið hann rétt. (Gripið fram í.) Já, en ég held að þetta um gjalddaga geti í þessu sambandi ekki átt við annað en útsvarið allt, alla skuldina. Það þarf ekki að taka fram að vangreiðsla sé komin í gjalddaga því að hún er þegar komin í gjalddaga. Þess vegna held ég að það orki ekki tvímælis að ef ekki á að koma einkennilegt út úr þessu þurfi að leiðrétta það. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um það.

Það var verið að tala um tæknileg atriði. Hv. 11. þm. Reykv. ræddi þau og ég skildi hann svo að brtt. mín, sem gerð er við 14. gr., flokkaðist að hans mati undir tæknileg atriði, þ.e. hvort ætti að láta gæta áhrifa gjaldfærslu og tekjufærslu samkv. 53. gr. skattalaganna þegar ákveðinn er aðstöðugjaldsstofn. Ég held að þetta sé miklu meira en tæknilegt atriði. Ég held að eins og frv. stendur núna sé það versti kosturinn. Ef væri ástæða til þess að gera upp á milli gjaldfærslu og tekjufærslu ætti að gera það þveröfugt við það sem gert er núna samkv. frv. Það er vegna þess að gjaldfærsla samkv. 53. gr. er í reynd ætluð til að bæta skattþegnum tap sem þeir hafa orðið fyrir á verðbólgunni, m.a. vegna skynsamlegrar fjárfestingar og notkunar eigin fjármagns í stað þess að byggja atvinnurekstur upp með lántökum, en tekjufærslan samkv. 53. gr. er í reynd ætluð til að vega upp á móti þeim hagsbótum sem skattþegnar hafa haft af því að fjárfesta með lánsfé í stað eigin fjár, m.a. til þess að hagnast á verðbólgunni. Ég skal ekki halda áfram þessari röksemdafærslu, en niðurstaðan af henni er sú, að við erum, eins og frv. er nú, að gera það sem síst skyldi. Við erum að verðlauna verðbólgubraskarana, en við erum að leggja byrðar á þá sem fjárfesta skynsamlega og leggja ekki upp úr því að hagnýta sér verðbólguna til hagsbóta.