31.03.1980
Neðri deild: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

135. mál, orkujöfnunargjald

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni þykir mér rétt að víkja fyrst að málsmeðferð.

Hæstv. fjmrh. gat þess að stjórnarandstaðan hefði fengið vitneskju um þetta frv. í gær. Það er rétt, að formenn þingflokka voru kvaddir á fund klukkan hálfsjö í gærkvöld til að tilkynna þeim, að þetta frv. yrði flutt í dag, og ég fékk það sent heim í handriti seinna í gærkvöld. Ég hygg samt að hér sé um að ræða mikilvægara mál en svo að unnt sé að ætlast til af stjórnarandstöðu eða raunar þm. almennt að hafa einhverja fljótaskrift á afgreiðslu þess. Ég vil eindregið mótmæla þeim starfsaðferðum að ætla sér að sýna þm. þá lítilsvirðingu að setja þá upp að vegg með því að velja tímann tveim dögum fyrir páskahlé og segja: annaðhvort eða. Slíkar starfsaðferðir kunna ekki góðri lukku að stýra, en eru í raun dæmigerðar um vinnubrögð ríkisstj. svo og forvera hennar, vinstri stjórnarinnar.

Ástæða er til í þessu sambandi einnig að geta um það ráðleysi, fum og fát sem einkennir flutning þessa frv. sem og meðferð fjárlagafrv. og ákvörðun fiskverðs. Við þm. höfum orðið vitni að því, að klukkan tvö óskaði einn stjórnarflokkurinn eftir fundarhléi til klukkan þrjú til að halda þingflokksfund, væntanlega vegna þess að stjórnarliðar höfðu ekki gengið frá flutningi þessa máls eins og skyldi. Við þm. urðum vitni þess, að þegar máli, sem var á dagskrá, var lokið tíu mínútur yfir þrjú óskaði hæstv. fjmrh. eftir fundarhlé til klukkan hálffjögur til að fullnægja því fyrirheiti sínu að sýna hv. fjvn. A- og B-hluta lánsfjár- og fjárfestingaráætlunar. Að vísu hafði þessu verið lofað fyrir hádegi í dag, og var ekki seinna vænna þar sem 3. umr. fjárlagafrv. fer fram á morgun, en tafðist þangað til nú svo að gera þurfti hlé á þingstörfum. Og ekki var langur tími ætlaður til þessarar yfirferðar. 20 mínútur áttu að nægja.

Ég held að þessi vinnubrögð stjórnarliðsins sýni það og sanni, að ekki er sanngjarnt að ætlast til þess að stjórnarandstaðan segi já og amen við hverju því sem að henni er rétt, sérstaklega þar sem á ferðinni er frv. til l. sem leggja auknar skattbyrðar á þjóðina er nema um 11 milljörðum kr. á ári.

Ég nefndi fiskverðið. Nú er 31. mars, síðasti dagur marsmánaðar. Fiskverðsákvörðun hefur dregist allan marsmánuð og sjómenn og útvegsmenn hafa ekki vitað allan mánuðinn hvaða tekjur þeir bera úr býtum. Við höfum frétt að í hádeginu hafi verið ákveðin gengislækkun. Menn tala um gengislækkun, menn tala um gengissig, en það gegnir auðvitað sama máli: erlendur gjaldeyrir hækkar í verði. Með þessum hætti er reynt að ýta vandanum á undan sér. Síðast þegar ég vissi var fiskverð ekki ákveðið. Það kann að hafa verið ákveðið eftir hádegið. En hvað um það, það er ljóst að gengislækkun um 3 eða 4.5%, ef miðað er við dollara, er auðvitað ákveðin af hæstv. ríkisstj. í tengslum við fiskverðsákvörðun.

Ráðh. hafa að vísu sagt að fiskverðsákvörðun sé atfarið á vegum Verðlagsráðs sjávarútvegsins eða yfirnefndar. En það er alkunna að yfirnefnd hefur ekki getað kveðið upp úrskurð vegna þess að á hefur skort ákvarðanir um mikilvægustu mál af hálfu ríkisstj. sjálfrar. Þar hefur gætt sama ráðleysis og í fyrri vinstri stjórnum. Þar hefur hver höndin verið uppi á móti annarri, eins og í fyrri vinstri stjórnum. Þar hafa yfirlýsingar hvers ráðh. um sig gengið á víxl, eins og í fyrri vinstri stjórnum. Hæstv. sjútvrh. hefur spáð gengisfalli eða hröðu gengissigi. Hæstv. forsrh. hefur afneitað hvoru tveggja. Hæstv. forsrh. hefur m.a.s. gengið svo langt að gefa forverum sínum, fyrrv. ríkisstj., algera syndakvittun með því að lýsa því yfir að afkoma atvinnuveganna, t.d. sjávarútvegsins, væri með albesta móti og ekki væri þörf neinna sérstakra ráðstafana. En reynslan afsannar orð hans. Í dag er gengislækkun og ég hef það fyrir satt að hér sé aðeins um byrjun að ræða, ef koma eigi fiskverði saman liggi fyrir loforð um að gengið skuli látið síga a.m.k. um 5% til viðbótar næstu tvo mánuði. Um leið er spá manna, sem ég vona að rætist ekki, að það nægi engan veginn til að sjá afkomu þessa höfuðatvinnuvegar landsmanna borgið, hvað þá afkomu útflutningsiðnaðarins sem berst í bökkum.

Allt er á eina bókina lært, hvort sem lítið er á flutning þessa frv. til l. um orkujöfnunargjald, afgreiðslu fjárlagafrv. eða ákvörðun fiskverðs: ráðleysi, fum og fát. Hér hafa stjórnarsinnar ætlað sér tíma til að ráða málum sínum, flækt þessi vandamál á milli sín nær tvo mánuði sem stjórnin hefur starfað, en eru svo sanngjarnir eða hitt þó heldur-að ætla stjórnarandstöðunni tvo daga til að afgreiða þetta síðasta frv.

Ef stjórnarliðar ætla sér að koma frá ýmsum öðrum málum hér íþinginu væru það rétt vinnubrögð e.t.v. að leggja áherslu á meðferð þess frv. sem nú sér dagsins ljós, frv. til l. um orkujöfnunargjald, en er auðvitað réttnefndara frv. til l. um breyt. á lögum um söluskatt, eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur gert að tillögu sinni. Það væn réttara af stjórnarsinnum að leggja áherslu á afgreiðslu þessa frv. og láta fjárlagafrv. bíða. Ef það kynni að vera ákvörðun hæstv. ríkisstj. mun ekki standa á okkur sjálfstæðismönnum að framlengja heimild til greiðslu úr ríkissjóði meðan gengið er sómasamlega frá fjárlagafrv. sjálfu. Auðvitað er frv. til l. um orkujöfnunargjald eða breyt. á lögum um söluskatt forsenda þess að gengið sé frá fjárlagafrv. En þarna er ekki um eina gatið að ræða í fjárlagafrv. Það eru fleiri eyður, fleiri vandamál sem ekki er sagt hvernig leysa skuli. Það er ekki getið um það í fjárlagfrv., hvernig leysa skuli vanda landbúnaðarins eða útvega framlög til að standa undir fyrirsjáanlegum greiðslum hans vegna. Í fjárlagafrv. er ekki getið um, hvernig standa skuli að efndum loforðs ríkisstj. um svokallaðan félagsmálapakka til að greiða fyrir kjarasamningum. Í fjárlagafrv. er ekki greint frá því, hvernig staðið skuli að fjármögnun ýmissa framkvæmda sem markaðir tekjustofnar áttu að standa undir, en þeir hafa, eins og kunnugt er, verið notaðir í almenna eyðslu ríkissjóðs. Ekkert af þessu er í fjárlagafrv. Það væri sæmra fyrir hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild að gera grein fyrir því, hvernig að lausn slíkra mála eigi að standa.

Herra forseti. Ég sé ekki hæstv, fjmrh. (MÁM: Það er sjónvarpsviðtal úti í garði.) Ég óska eftir frestun á fundi d. meðan hæstv. fjmrh. er bundinn við önnur störf. — [Stutt hlé.]

Herra forseti. Ég vil bjóða hæstv. fjmrh. velkominn til fundar að nýju og vænti þess nú að allt sé þá þrennt er og ekki þurfi að fresta fundi aftur vegna anna hæstv. ráðh. eða fundarhalda hv. stjórnarsinna umfram það sem raunar var fyrir fram ákveðið.

Ég var að ræða um að það væru fleiri eyður í fjárlagafrv. en hvernig snúast ætti við greiðslu olíustyrkja eða tekjuöflun til að standa undir þeim. Það mætti nefna í því sambandi hvernig á að standa undir þeim. Það mætti nefna í því sambandi hvernig á að standa að útgjöldum vegna efnda í loforðum ríkisstj. vegna svokallaðs félagsmálapakka til lausnar yfirstandandi kjaradeilum. Ég nefndi einnig það gat sem í fjárlagafrv. væri vegna þess að ekki væri þar greint frá hvernig undir útgjöldum skyldi standa til ýmissa þeirra verkefna sem markaðir tekjustofnar hafa hingað til fjármagnað, en eins og kunnugt er hafa þeir í stórum stíl verið notaðir í eyðsluhít ríkissjóðs.

Ég nefndi sömuleiðis að í fjárlagafrv. væru ekki gerð skil fyrirsjáanlegum útgjöldum vegna landbúnaðarins. Þess vegna er nauðsynlegt m.a., nauðsynlegra en oftast áður, að fyrir liggi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun með fjárlagafrv., eins og lög gera ráð fyrir, vegna þess að það er bersýnilega ætlun ríkisstj. að skjóta vandanum á undan sér og láta lánsfjáráætlun sjá um fjármögnun til þeirra verkefna sem ríkisstj. ætlar sér að standa að, að svo miklu leyti sem efndir verða á loforðum ríkisstj. í stjórnarsamningi.

Það er ástæða til þess í þessu sambandi að rifja upp lög um stjórn efnahagsmála, sem samþykkt voru á Alþ. 7. apríl fyrir tæpu ári. Þar er sagt berum orðum eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta, í 14. gr. laganna:

Ríkisstj. skal leggja fyrir Alþ. fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn, og skulu þær fylgja fjárlagafrv.“

Í 15. gr. laganna er beinlínis getið um hvernig slíkum fjárfestingar- og lánsfjáráætlunum skuli háttað, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlunum skulu m.a. eftirtalin atriði koma fram:

1. Heildaráætlun um opinberar framkvæmdir og fjármögnun þeirra með framlögum á fjárlögum, eigin fjármögnun opinberra fyrirtækja og lánsfé, enn fremur um framkvæmdir annarra aðila.

2. Framlög til framkvæmda atvinnuvega og einstaklinga.

3. Framlög til fjárfestingarlánasjóða.

4. Útlánaáætlanir fjárfestingarlánasjóða og fjármögnun þeirra.

5. Útlánareglur og lánskjör fjárfestingarlánasjóða.

6. Áætlun um erlendar lántökur opinberra aðila. Enn fremur skal gera grein fyrir þróun, og horfum um fjárfestingu í einstökum atvinnuvegum. Þá skal greina frá áætlunum um lánamarkaðinn í heild, þar með áætlun - um erlendar lántökur og markmið í peningamálum, og þeim tækjum, sem beita skal til þess að þeim verði náð, sbr. ákvæði 28. og 29. gr.

Fjárfestingar- og lánsfjáráætlunum skal jafnan fylgja mat á mannaflaþörf áætlaðar framkvæmda í heild og þar með mat á atvinnuástandi í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð sérstaklega.“

Svo mörg eru þau orð sem standa í 15. gr. laga um stjórn efnahagsmála, sem hæstv. fjmrh. samþykkti á Alþ. fyrir tæpu ári.

Hæstv. fjmrh. bar það fyrir sig að hann hefði ekki haft tíma og ríkisstj, sem slík hefði ekki haft tíma til að undirbúa slíka lánsfjár- og fjárfestingaráætlun. Ég vil mótmæla þeirri ástæðu sem hæstv. fjmrh. ber fyrir sig, vegna þess að í höfuðatriðum áttu aðstandendur stjórnarinnar að gera sér grein fyrir umfangi fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar þegar áður en ríkisstj. var mynduð.

Því hefur verið haldið á loft að skamman tíma hafi tekið að mynda þessa ríkisstj. En sannleikurinn er sá, að þeir tveir mánuðir, sem fóru í stjórnarmyndunartilraunir, voru auðvitað notaðir til að glöggva sig á úrlausnum þeirra vandamála sem við blöstu. Og hafi skamman tíma tekið að mynda núv. ríkisstj. er skýringin eingöngu sú, að aðstandendur núv. ríkisstj. hafa alls ekki tekið á vandamálunum, alls ekki gert sér grein fyrir hvernig ætti að leysa vandamálin, og þess vegna er ríkisstj. á sandi byggð og fyrir henni mun fara sem húsi sem byggt er á slíkri undirstöðu.

Hæstv. fjmrh. sagði að fjárhagsstaða ríkissjóðs væri mjög tæp og um það væru allir sammála. Ég hef ekki orðið var við að hæstv. fjmrh. væri sammála þeirri gagnrýni okkar stjórnarandstæðinga fyrr en þá í dag.

Hæstv. fjmrh. sagði að orkukreppan hefði kallað á aukin útgjöld ríkissjóðs. En það er einnig kunnugt að hækkandi bensín- og olíuverð hefur fært ríkissjóði allmiklar og auknar tekjur. Hæstv. ríkisstj. hefur nú til meðferðar ákvörðun bensínverðs. Um það efni fóru fram umræður fyrir helgi og fengust engar yfirlýsingar um efndir á þeim loforðum eða yfirlýsingum hæstv. fjmrh. meðan hann var samgrh. að breyta nú uppbyggingu bensínverðs, svo dæmi sé nefnt.

Hæstv. fjmrh. sagði í síðustu viku að frá og með 1. apríl væri heimild til að hækka bensínið enn þá meira en fram að þeim tíma. Mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort ætlunin sé að nýta þá heimild og hvort ástæðan fyrir þeim drætti, sem er á afgreiðslu ríkisstj. á ákvörðun bensínverðs, sé fólgin í því að hún ætli sér að nýta þá heimild og þá með hvaða hætti.

Ég vil láta það koma alveg skýrt fram í framhaldi af því sem ég hef rakið hér um skyldu ríkisstj. að leggja fram fjárfestingar- og lánsfjáráætlun með fjárlagafrv. að við sjálfstæðismenn teljum þeirri skyldu ekki fullnægt með því að sýna fjvn. drög að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun að því er snertir A- og B-hluta fjárlaga. Í fjárlagafrv. er, eins og kunnugt er, dregið úr framlögum til ýmiss konar fjárfestingarlánasjóða og þess vega er nauðsynlegt að sjá, hvernig fjárfestingar- og lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir að leysa vanda þessara sjóða, áður en fjárlagafrv. er endanlega frágengið og samþykkt á Alþ. Þó ekki væri til að dreifa nema þessari einu ástæðu væri hún nægileg til að sýna hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild fram á að það er ábyrgðarleysi að ganga frá fjárlögum án þess að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun liggi fyrir jafnhliða, auk þess sem um hreint lagabrot er að ræða að standa svo að málum sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér bersýnilega.

Varðandi það frv. til l., sem hér liggur fyrir, vil ég láta koma skýrt og greinilega fram að við sjálfstæðismenn teljum það sanngirnismál að jöfnun á kyndingarkostnaði eigi sér stað milli þeirra, sem búa á heitavatnssvæðum, og hinna, sem verða að búa við olíukyndingu. Við teljum æskilegra, að jöfnun kyndingarkostnaðar fari fram með því að leggja ekki sérstakan skatt á orkuna sjálfa, og teljum því út af fyrir sig til bóta að ekki sé farið í spor fyrrv. hæstv. iðnrh. Braga Sigurjónssonar að leggja á sérstakt orkugjald. Hins vegar er það kunnugt og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., að um þetta efni hefur verið deilt innan hæstv. ríkisstj. svo mjög að framlagning þessa frv, hefur tafist eins og raun ber vitni. Um þá töf er ekki hægt að kenna stjórnarandstöðunni, og náist þetta frv. þess vegna ekki fram sem lög fyrir páskaleyfi er það alfarið sök hæstv. ríkisstj. og þeirra deilna sem innan hennar hafa staðið um þetta mál.

Hér er ekki fyrst og fremst verið að afla tekna til að jafna niður orkukostnaði, heldur almennt verið að auka skattlagninguna í landinu og frá því sjónarmiði verðum við að líta þetta mál. Hér er verið að leggja á alla landsmenn 11 milljarða kr. viðbótarskatt á hverju ári. Þegar sú viðbótarskattlagning kemur í kjölfar þeirrar skattaherferðar, sem fyrrv. vinstri stjórn og núv. hefur haft forgöngu um, er það skylda alþm. að nema staðar og vekja athygli á þeirri öfugþróun. Það hefur verið upplýst á Alþ. að viðbótarskattar ríkisstj. hafa leitt til þess að beinir skattar eru nú 25 milljörðum kr. hærri en þeir mundu vera á yfirstandandi ári ef skattalög ríkisstj. 1974–1978, er giltu 1977, væru óbreytt. 25 milljarðar kr. eru þó allmikið fé. Hér er eingöngu um aukningu beinna skatta að ræða frá reglum, er giltu 1977, til reglna, sem munu gilda á yfirstandandi ári. Hér er um að ræða að beinir skattar sem hlutfall af tekjum greiðsluársins munu aukast um nær 40%. Og ekki er þróunin heillavænlegri hvað snertir óbeina skatta. Í þeim efnum er einnig um a.m.k. 25 milljarða kr. auknar skattálögur að ræða frá því sem hefði verið eftir skattálagningarreglum 1977. Samtals er hér um 50 milljarða kr. aukna skattbyrði að ræða, og tilefni er því til að kanna hvort unnt er að leysa kyndingarvandamál og misrétti í því sambandi með öðrum hætti en hækkun söluskatts.

Við sjálfstæðismenn höfum varað við vaxandi tilhneigingu til að auka alls konar millifærslur í þ jóðfélaginu og teljum að afla eigi fjármagns til að standa undir niðurgreiðslu kyndingarkostnaðar með því að lækka nokkuð niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum. Félagar okkar hafa flutt till. um 5 milljarða kr. tilfærslu í þessu sambandi í tengslum við 3. umr. fjárlaga. Væri það mun heilbrigðari lausn þessa máls en sú lausn sem lögð er til í frv. til l. um orkujöfnunargjald. Þar að auki er ekki varið til niðurgreiðslu orkukostnaðar nema rúmlega helmingi af þeirri tekjuöflun sem verður við samþykkt frv. á þessu ári. Því er það ekki rétt nafn sem á frv. er, eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur bent á með flutningi brtt. sinnar. Og einmitt vegna þessa er ástæða til þess að varpa fram þeirri fyrirspurn, hvernig ætlunin sé að framkvæma þessar skattálögur í tengslum við útreikning framfærsluvísitölu og kaupgjaldsvísitölu eða verðbótavísitölu.

Í 50. gr. laga þeirra er ég vitnaði til áðan, laganna um stjórn efnahagsmála o.fl., segir með leyfi hæstv. forseta: „Við útreikning verðbótavísitölu samkv. 49, gr. skal draga frá framfærsluvísitölu þá hækkun hennar eða lækkun, er leiðir af eftirtöldum breytingum milli útreikningsdaga verðbótavísitölu.“

Í 2. tölul. er svo sagt: „Breytingar á sköttum eða gjöldum eða álagning sérstakra skatta í því skyni að afla fjár til þess að draga úr áhrifum hækkunar olíuverðs á árunum 1979 og 1980 á framfærslukostnað þeirra heimila, sem hita hús sín með olíu. Verði fé varið úr ríkissjóði umfram áætlun fjárlaga 1979 til þessara þarfa án þess að skattar eða gjöld séu hækkuð af þeim sökum eða á lagður sérstakur skattur, skal einnig draga jafngildi slíkrar fjárveitingar frá hækkun framfærsluvísitölu við útreikning verðbótavísitölu. Kauplagsnefnd skal meta þennan frádráttarlið sérstaklega hverju sinni, í fyrsta sinn við útreikning verðbótavísitölu frá 1, júní 1979.“

Það er nauðsynlegt, að fram komi hvernig slíkir útreikningar muni líta út, og því er fsp. mín fram komin. Herra forseti. Ég skal nú fara að stytta mál mitt. Ég vil leggja áherslu á að sífellt nýjar skattálögur, sem hæstv. ríkisstj. gerir hér tillögur um, hljóta að valda mönnum áhyggjum og ekki síst þegar hugsað er til þeirra kjarasamninga sem nú eiga sér stað. Það er erfitt að halda því fram gagnvart launþegum að tekjur þeirra megi ekki hækka þegar hið opinbera gengur á undan og hækkar tekjur sínar á kostnað launþega í landinu. Ég hef þegar rakið hinar auknu skattálögur sem orðið hafa frá því lagt var á samkvæmt reglum 1977 og til þess sem verða mun samkvæmt þeim reglum er væntanlega munu gilda á þessu ári.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur einkum og sér í lagi staðið fyrir þeim skattálögum sem vinstri stjórnin áður setti á 13 mánaða valdatíma sínum, haldið þeim öllum við, endurnýjað alla þessa skatta og framlengt, en þeim til viðbótar hefur núv. ríkisstj. staðið fyrir heimild til hækkunar útsvars um 10%. Ríkisstj. hefur staðið fyrir 11 milljarða kr. auknum skattálögum með hækkun söluskatts úr 22 í 24%, sem felst í þessu frv., og hún hefur með því að halda áfram í gildi allt þetta ár hækkun söluskatts í 22% og hækkun vörugjalds úr 18% í 24%, sem fyrri vinstri stjórn ætlaði jafnvel ekki nema tímabundið gildi, aukið skattálögur um 15 milljarða frá síðasta ári. Hún hefur með þessum auknu skattálögum og framlengingu skatta, sem ekki giltu nema hluta af síðasta ári, staðið alls fyrir um 30 milljarða kr. auknum skattálögum á þessu ári miðað við síðasta ár.

Það hefur verið sagt að það væri stefna núv. hæstv. ríkisstj. að beita niðurtalningaraðferðinni. Ég held að hún hafi fremur beitt upptalningaraðferðinni þegar um skattálögur og tekjuöflun í ríkissjóð er að ræða, og niðurtalningaraðferðin hafi fyrst og fremst átt við að hennar mati þegar um hag einstaklinga, heimila og atvinnuvega hefur verið að ræða. Hún hefur beitt upptalningaraðferðinni til þess að stækka ríkiskerfið og auka ríkisbáknið, en um leið niðurtalið hagsmuni einstaklinga, heimila og atvinnuvega.

Ég vonast til þess, að hæstv. ríkisstj. endurskoði þá afstöðu sína að knýja á um samþykkt þessa frv. á skömmum tíma jafnhliða afgreiðslu fjárlaga. Slíkt væri ábyrgðarleysi, en e.t.v. ekki meira ábyrgðarleysi en hæstv. ríkisstj. hefur nú þegar sýnt á skömmum starfsferli.