31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir orð hv. 3. þm. Reykn. um fréttaflutning Ríkisútvarpsins — hljóðvarps í kvöld. Hann skipti fréttaflutningi þess í tvennt. Annars vegar var um að ræða fréttir frá Alþ. Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að gera neinar aths. við fréttaflutning frá umr. héðan þó svo að hann væri heldur klaufalegur, en það er ekki ástæða til að gera aths. við fréttir þó klaufalega sé frá þeim gengið. Hitt tel ég vera miklu alvarlegri mistök, og vil ég telja það mistök hjá fréttastofu útvarpsins, að þegar um er að ræða jafnviðkvæm og umdeild mál og öllum hlýtur að vera ljóst að 2% hækkun á söluskatti og gengisfelling hljóta að vera skuli aðeins þrír ráðh. vera leiddir fram í viðtölum í fréttatíma útvarpsins. Ég tek það t.d. fram, að einn ráðh. fullyrti í fréttatíma útvarpsins í kvöld að frv. það, sem hér er nú á dagskrá um 2% hækkun á söluskatti, væri byggt á tillögum Alþfl. sem hann hefði flutt í þingi, sem er vitaskuld argasta fjarstæða og hreinn tilbúningur.

Mér finnst ástæða til að benda á að það er æskilegt, þegar viðtöl eru tekin um jafnmikil ágreiningsmál og hér er um að ræða, að þá fái stjórnarandstaðan að koma sínum viðhorfum fram í sama fréttatíma og viðtöl eru tekin við málsvara ríkisstj. Sjálfsagt er tilgangurinn hjá útvarpinu að bæta úr þessu síðar með því að gefa fulltrúum stjórnarandstöðunnar kost á að tjá sig um málin. En það er undir öllum kringumstæðum farsælast að rætt sé við stjórn og stjórnarandstöðu nokkurn veginn jafnharðan um slík mál.

Ég held að þetta sé því miður ekki í fyrsta sinn sem þurft hefur að gera aths. við svona mál, þó svo að ég vilji taka fram að það heyrir til hreinna undantekninga, til allrar hamingju vil ég segja, að fréttastofu útvarpsins verði slík mistök á. Ég er sannfærður um að þetta eru mistök sem ekki eru með vilja gerð. Hins vegar hlýtur það að sjálfsögðu að vera nokkuð erfitt hlutverk að vera í senn varaþingmaður fyrir einn af stjórnarflokkunum og í hlutverki spyrils við fréttastofu útvarpsins og spyrja sömu ráðh. og viðkomandi varaþingmaður hlýtur að styðja. Það má enginn skilja orð mín þannig, að ég telji að þessi tiltekni fréttamaður hafi farið neitt út fyrir sitt verksvið, en þetta hlýtur ótvírætt að vera nokkuð erfitt hlutverk.

Að lokum vil ég benda á, hæstv. forseti, að enda þótt menn séu saman í ríkisstj. gildir ekki sama um stjórnarandstöðu nema um tiltekin mál. Því er eðlilegt, ef á að kynna sjónarmið stjórnarandstöðu og ríkisstj. í einhverjum tilteknum málum þar sem stjórnarandstaða er ekki með sameiginlega afstöðu, að báðum eða öllum stjórnarandstöðuflokkum verði gefinn kostur á að kynna sjónarmið sín, svo fremi að stjórnarandstaðan sé ekki sammála um afstöðu til mála. Á þetta hefur því miður oft viljað skorta í ríkisfjölmiðlunum þegar leiddir hafa verið fram annars vegar málsvari ríkisstj., samsteypustjórnar þar sem flokkar standa saman um afstöðu, en hins vegar hefur verið látið nægja að taka sem málsvara stjórnarandstöðu fulltrúa eins flokks, þó kannske þrír flokkar hafi verið í stjórnarandstöðunni eða þá tveir og vitað sé að stjórnarandstöðuflokkarnir séu ekki samferða í skoðunum. Þetta er ábending sem ég vildi láta koma fram hér.