31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um tímabundið olíugjald til fiskiskipa. Frv. þetta er að sjálfsögðu flutt í tengslum við þá ákvörðun um fiskverð sem tekin var fyrir hádegi. Sú ákvörðun á sér nokkuð langan aðdraganda.

Í janúar náðust samningar um fiskverð sem fólu í sér lækkun olíugjalds úr 9% í 5%, hækkun fiskverðs um 7% til kaupanda og hækkun fiskverðs til skipta um 11%. Í því samkomulagi, sem þá var gert með öllum aðilum, var uppsagnarákvæði. Tveir aðilar notuðu sér uppsagnarákvæði eftir 1. mars s.l.: annars vegar fiskvinnslan, sem taldi að grundvöllur væri brostinn fyrir því fiskverði, sem ákveðið hafði verið, og lagði til verulega lækkun á fiskverði, og hins vegar sjómenn, sem töldu grundvöll brostinn vegna þeirra launahækkana sem orðið höfðu í landi 1. mars, sem voru 6.67%. Mjög hefur gengið erfiðlega að ná samkomulagi í þessari deilu, sem kannske má ljóst vera þegar svo mikið ber á milli. — Fulltrúi útgerðar sagði ekki upp samningnum. Má. e.t.v. draga þá ályktun af þessu, að hann hafi talið grundvöll til áframhaldandi rekstrar fiskiskipa.

Þrátt fyrir mjög margar tilraunir og miklar og viðræðufundi stóð málið svo allt fram á síðustu daga að ekki náðist samstaða. Til greina kom að oddamaður úrskurðaði, svo sem gerst hefur áður. Mér þótti það óráðlegt, enda lágu fyrir yfirlýsingar frá samningsaðilum að þeir mundu ganga af fundi, ef sá háttur yrði upp tekinn, og ekki taka þátt í verðákvörðun á vegum Verðlagsráðs. Mér sýnist það hið mesta óráð að brjóta þannig niður þennan vettvang verðákvörðunar, sem þó hefur haldist í 18 ár og ekki sjáanlegt að annar betri sé fyrir hendi. Ég tel hyggilegra að menn setjist niður og teiti að öðrum leiðum til breytinga.

Í morgun, eins og ég sagði, var fiskverð ákveðið. Í því felst í fyrsta lagi að fiskverð er hækkað um 1.5%, sem felur í sér u.þ.b. 1.7% hækkun til fiskkaupenda, olíugjald er lækkað um 2.5%, þ.e. úr 5% í 2.5%, og fiskverð jafnframt hækkað að sama skapi á móti. Út úr þessu kemur því samtals 4% hækkun á fiskverði til sjómanna til skipta, u.þ.b. 1.7% hækkun til fiskvinnslunnar og u.þ.b. 0.6% auknar tekjur til útgerðar. Að þessari ákvörðun stóðu oddamaður og annar fulltrúi fiskvinnslunnar, en atkvæði á móti greiddi fulltrúi útgerðar. Hjá sátu hinn fulltrúi fiskvinnslunnar og fulltrúi sjómanna. Ég vil leiðrétta það, sem er rangt í grg. með frv. og stendur á annarri síðu, að fulltrúar fiskkaupenda vilji samþykkja þessa niðurstöðu. Þar á að sjálfsögðu að standa: annar fulltrúi fiskkaupenda vill samþykkja þessa niðurstöðu.

Ég vil taka fram, þar sem komið hefur í fréttum að ákvörðun um lækkun olíugjalds hafi verið tekin að kröfu ríkisstj., að þetta er rangt. Ég lagði á það mjög mikla áherslu að leitað yrði allra ráða til að ná breiðari samstöðu um þessa verðákvörðun. Var það reynt allt fram eftir þessum morgni, en tókst ekki. Sjómenn stóðu mjög ákveðnir á þeirri kröfu sinni, að fiskverð hækkaði um 6.67%, og vísuðu frá allri viðleitni til þess að þeir létu aðra fiskverðsákvörðun afskiptalausa eða sætu hjá nema til kæmi veruleg lækkun á olíugjaldi. Ég vil einnig taka það fram að fiskkaupendur töldu að frekari hækkun á fiskverði væri útilokuð frá þeirra sjónarmiði, nema þá að meiri gengisbreyting væri þeim tryggð. Því var það svo, að þessi niðurstaða, sem ég hef nú lýst, virtist best, og ég er sannfærður um að hún var eina leiðin út úr þessari viðkvæmu deilu án þess að oddamaður úrskurðaði.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að undanfarnar vikur hafa farið fram ítarlegar athuganir á vegum Þjóðhagsstofnunar og einnig sjútvrn. á afkomu fiskvinnslunnar. Ég sagði áðan að fiskkaupendur sögðu upp samningi um fiskverð þar sem þeir töldu grundvöll brostinn fyrir því fiskverði sem ákveðið var í janúar. Ég hygg að þetta hafi komið ýmsum á óvart. Og ég verð áð segja að þær athuganir, sem fram hafa farið, hafa bent til þess að fullyrðingar fiskkaupenda séu á töluverðum rökum reistar. E.t.v. er þeirri þróun, sem orðið hefur á síðasta ári, best lýst með því að á árinu 1979 hækkar hráefni um u.þ.b. 55% og laun svipað, á sama tíma og verð fyrir framleiðsluna hækkar aðeins um 30%. Ég hygg að í hnotskurn sé með þessum tölum lýst þeirri þróun sem orðið hefur. Hitt er þó jafnframt ljóst, að fleiri þættir eiga hlut að máli. Svo virðist sem töluvert óhagstæðari samsetning aflans hafi valdið fiskkaupendum verulegu óhagræði. Einnig kemur fram, að á fyrstu mánuðum þessa árs hefur framlegð í frystiiðnaðinum mjög fallið og er að mati Þjóðhagsstofnunar komin niður í að meðaltali í 12–15 bestu húsunum í kringum 14–15%. Ég hygg að allir geti verið sammála um að sú framlegð er of lág. — Ég get þess hér til skýringar fyrir þá sem ekki eru vanir því hugtaki, að í hugtakinu „framlegð“ felst kostnaður hráefnis, umbúða og vinnulauna og gefur þá til kynna hve mikið er eftir fyrir öllum öðrum kostnaði fyrirtækisins.

Ég hygg að það liggi í hlutarins eðli, að framlegð án þess að lausaskuldir séu mjög miklar þarf að vera 18–20% að lágmarki. Þess vegna var jafnframt hafin athugun á því, hvort eitthvað væri unnt að gera til að rétta nokkuð hlut fiskvinnslunnar. Samkomutag náðist um vissa slíka þætti sem kannske vega ekki mikið hver, en sýna þó viðleitni í þá átt.

Ákveðið hefur verið í fyrsta lagi að lækka vexti Fiskveiðasjóðs úr 5.5% í 4.5%. Fyrrv. sjútvrh. gaf fyrirheit um lækkun niður í 3%. En ég verð að segja eins og er, að ég sá enga leið til að ná vöxtum svo langt niður án þess að stofna eiginfjárstöðu Fiskveiðasjóðs í verulega hættu. Fiskveiðasjóður fær innlent fjármagn, fyrst og fremst frá lífeyrissjóðum. En við lífeyrissjóði er samningur nú um að þeir skuli fá hálfu prósenti hærri vexti greidda en eru almennt á verðbréfum ríkissjóðs. Vextir þar eru 3.5%, en lífeyrissjóðirnir fá greidda 4% vexti. Lán þessi hefur Framkvæmdasjóður tekið. Hann hefur fyrir sinn snúð tekið 1% og jafnframt í lántökugjald 2%, sem jafnar sig út með nokkurn veginn 0.2% á 15 árum. En ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að þessir vextir Framkvæmdasjóðs verði felldir brott, enda er hér um algerlega áhættulaus endurlán að ræða. Úr þessu má leysa á þann máta, að annaðhvort taki sjóður eins og Fiskveiðasjóður lánið beint eða Framkvæmdasjóður annist áfram þá milligöngu, en felli niður slíka vaxtainnheimtu, sem ég tel að vísu æskilegra. — Ég vil einnig taka það fram, að mér sýnist sjálfsagt að svipuð kjör gildi hjá öðrum meginstofnlánasjóðum þar sem ekki getur talist áhætta í endurláni Framkvæmdasjóðs.

Þá var gerð ítarleg athugun á sölugjaldi af ýmsum fjárfestingarvörum sem fiskvinnslan greiðir nú, en hefur verið fellt niður af ýmsum öðrum samkeppnisiðnaði og útflutningsiðnaði. Í ljós kom að þar er um nokkra liði að ræða, og varð samkomulag um að fella niður sölugjald af fjórum tollaflokkum þar sem um er að ræða vélar, sem eru 80% eða meira, til þarfa fiskvinnslunnar. Hér er um nokkuð mikilvæg tæki að ræða, m.a. í þeim endurbótum og framleiðniaukningu sem fiskvinnslunni er nauðsynlegt að ráðast í og reyndar hefur verið að unnið jafnt og þétt.

Þá leiddi þessi athugun í ljós að lausaskuldir eða vanskil fiskvinnslunnar og reyndar sjávarútvegs hafa vaxið gífurlega á undanförnum árum og mánuðum. Þetta hygg ég að megi ekki síst rekja til þess, að rekstrarfjárþörf fyrirtækja hefur langt frá því verið fullnægt í samræmi við verðbólgu, og hefur það leitt til verulegra vanskila. Í raun og veru er leiðrétting á þessu með skuldaskilum fyrst og fremst staðfesting á því að rekstrarfé hefur ekki verið aukið eins og þörf er á slíkum verðbólgutímum — bankarnir eflaust ekki haft til þess bolmagn. Því var ákveðið á fundi ríkisstj. að settir verði menn í að kanna þessi vanskil, og ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að eins miklu og frekast er unnt með tilliti til stöðu sjóða og banka og fyrirtækja verði breytt í skil á næstu vikum og mánuðum.

Jafnframt var ákveðið að setja á fót starfshóp til að gera samanburð á samkeppnisaðstöðu frystiiðnaðarins og annars útflutnings- og samkeppnisiðnaðar. Um það hefur lengi verið deilt, hvor býr betur. Ég held þó að ástæða sé til að efast um að frystiiðnaðurinn búi betur en annar samkeppnisiðnaður, og vek m.a. athygli á því, að uppsafnaður söluskattur hjá frystiiðnaðinum og fiskvinnslunni í heild er 3.8 milljarðar á ársgrundvelli og þar af 2 milljarðar hjá frystihúsunum. Þetta eru stórar upphæðir og ýtir sannarlega enn undir að virðisaukaskattur verði upp tekinn í þessu þjóðfélagi í staðinn fyrir söluskatt.

Þessir liðir allir hafa stuðlað að því, að þó fékkst hlutleysi annars fulltrúa fiskvinnslunnar og samþykki hins við þá ákvörðun sem hér var tekin. Fulltrúi útgerðar hefur mótmælt þessari ákvörðun og talið hana vera samningsbrot. Ég hef skoðað það vandlega og rætt við þá menn sem gerst eiga að þekkja. Ég held að það sé misskilningur.

Ég sagði áðan að sá samningur, sem gerður var í janúar, var á milli fjögurra aðila. Að honum stóðu fulltrúi útgerðar, fulltrúi sjómanna og fulltrúar fiskkaupenda ásamt oddamanni frá ríkinu. Þeir stóðu allir að þessum samningi. Ég gat þess einnig áðan, að samningur þessi var uppsegjanlegur og tveir aðilar sögðu honum upp. Tvímælalaust er samningurinn þar með úr gildi fallinn. Tveir aðilar af fjórum, sem að þessum samningi standa, segja honum upp og þá stendur hann vitanlega ekki á milli annarra aðila sem eftir eru. Svo er að sjálfsögðu ekki, að eitt atriði í samningnum standi óbreytt ef öðrum er sagt upp.

Ég vek athygli á að fulltrúi útgerðar stillti sér við hlið sjómanna í kröfu þeirra um 6.67% hækkun. Þetta breytir ekki því, að ég tel að hlutur útgerðarinnar sé einna lakastur í því dæmi sem úr þessari ákvörðun kemur. Sérstaklega mun það valda minni skuttogurunum og einkum þeim, sem eiga langa leið á mið, vandræðum. Hitt er þó staðreynd, sem fram kom og fram kemur í grg. með frv., að hlutur útgerðar hækkar um 0.6% með því fiskverði sem felst í þessari ákvörðun.

Annars vil ég segja það um olíugjaldið almennt og útgerðina, að ég hef miklar efasemdir um olíugjaldið. Til þess var gripið sem eins konar nauðvarnar vegna mjög hækkandi olíuverðs. Það leggst ofan á fiskverð. Misskilningur er víða að þessu leyti. Það er greitt beint af fiskkaupendum til að standa undir hluta af hækkandi olíukostnaði fiskiskipa. En það er greitt í hlutfalli við aflamagn. Það er svo og svo mikið á hvert kg af fiski sem veiðist. Vitanlega er olíueyðsla alls ekki í réttu hlutfalli við aflamagn. Þetta hefur því valdið mjög mikilli tortryggni víða, sem kemur m.a. fram í þeirri deilu sem nú er orðin á Ísafirði, þar sem olíugjaldið er á oddinum haft.

Það er vitanlega staðreynd að togarar á Vestfjörðum hafa stórum betri útkomu úr olíugjaldinu en þeir sem lengra þurfa að sigla. Þeir afla mikið og sigla stutt og fá greitt á hvert kg afla, eins og ég sagði áðan. Ég hygg að ýmsir hafi reyndar oft vakið athygli á því, að olíugjald mundi leiða til tortryggni og deilu. Ég neita því ekki, að það er von mín að þessi ákvörðun um lækkun olíugjalds stuðli að lausn deilunnar á Ísafirði. Ég vona það. A.m.k. er kröfum sjómanna að nokkrum hluta beint að olíugjaldinu, eins og ég sagði áðan.

Ég er á þeirri skoðun, að finna eigi aðrar leiðir í sambandi við þennan olíukostnað. Ég vísa til viðræðna, sem eru í gangi og hófust að tilstilli fyrrv. sjútvrh., um breytingu á þessu sviði. Þar munu vera hugmyndir um að olía verði greidd af óskiptu, en þó þannig að greitt verði fyrir ákveðinn lítrafjölda þannig að sveiflur í verði valdi ekki verulegri röskun á fiskverði til skipta. Sýnist mér mjög æskilegt að vinna frekar að samkomulagi eftir slíkum leiðum.

Ég vil jafnframt nefna það, eins og fram kemur í aths. við þetta lagafrv., að sem betur fer eru sumar forsendur fyrir háu olíugjaldi ekki fyrir hendi nú. Hækkun á gasolíu og svartolíu hefur ekki orðið eins og menn töldu að kynni að verða, og fram undan er væntanlega, eins og nú er spáð, fremur lækkun, a.m.k. er verð á Rotterdamarkaði töluvert lægra en það var þegar fiskverð var ákveðið í janúar. Við erum að vísu enn með dýrari olíu, en ódýrari olían er komin til landsins og meira er væntanlegt. Mér sýnist því að ekki sé óeðlilegt að lækka olíugjald með tilliti til slíkra staðreynda.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mál frekar, þó margt mætti segja um ástand og horfur í sjávarútvegi og fiskiðnaði. Mikill afli, sem nú berst á land, mun eiga þátt í því að tekjur sjómanna aukast, og ber að fagna því. Ráðstöfunartekjur sjómanna hafa vaxið á undanförnum árum meira en hjá stéttum sem vinna í landi. Væntanlega mun þessi afli verða til þess að hagur útgerðar verður betri og einnig fiskvinnslu. Mér sýnist þannig að með tilliti til þess, sem ég hef nú rakið, hafi náðst viðunandi lausn á þessari deilu.

Lausnin byggist á því, að frv. það, sem hér er lagt fram, fáist samþ. Mánuður er liðinn frá fiskverðsákvörðun. Þetta frv., ef að lögum verður, verkar því aftur fyrir sig. Ákaflega æskilegt er að sá tími lengist ekki umfram það sem orðið er, hann er orðinn allt of langur. Legg ég því ríka áherslu á, að mál þetta fái hraða meðferð á hinu háa Alþingi og leyfi mér að vona að menn, sem gleggstan skilning hafa á mikilvægi þess að ná samstöðu, stuðli allir að því að svo megi verða.