31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Áður en ég sný mér að því að ræða efni þessa frv. vil ég vekja athygli á því að í janúarmánuði var afgreitt hér á hv. Alþ. frv. um sérstakt olíugjald sem koma átti ofan á fiskverð til þess að bæta fiskiskipaflotanum sífellt hækkandi verðlag á olíu. Alþ. samþykkti þessar ráðstafanir mótatkvæðalaust í janúarmánuði, og þær voru liður í því að greiða fyrir ákvörðun fiskverðs, sem mig minnir að hafi náðst 23. jan. Ég tel að breyting frá þessu sé brigðmæli frá hendi löggjafans á þann veg, að atvinnustéttirnar í þjóðfélaginu geti ekki treyst Alþingi Íslendinga deginum lengur. Ég get tekið undir það með hæstv. sjútvrh., að þetta olíugjald er mér í sjálfu sér ekkert heilagt mál, ég get vel gengið frá því og breytt því á ýmsa vegu. Það er ekki heldur heilagt mál fyrir útgerðina í landinu. Það er aðeins það sem er heilagt mál fyrir útgerðina og fyrir Alþ., að tekjurnar séu ekki rýrðar frá því sem lofað var í upphafi þessa árs. Þetta frv, gerir hins vegar ráð fyrir því, að verið sé að taka af það sem áður var búið að lofa og Alþ. að samþykkja með samhljóða atkvæðum.

Hvers vegna ætlar einn ráðh. að níðast helst á þeim sem segja ekki upp fiskverðinu, þar sem er útgerðin? Það eru sjómenn og fiskvinnslan sem segja fiskverðinu upp frá 1. mars. Hvernig tekur svo viðkomandi ráðh. þessu? Hvernig skilur hann það, að menn vilja standa við gerða samninga og þessir aðilar segja ekki upp? Þá segir hæstv. núv. ráðh. í ræðu rétt áðan, að þeir muni þá líkast til hafa séð grundvöll fyrir áframhaldandi rekstri fiskiskipa. Þar með hafa þeir það. Nú eiga flestir að hugsa sem svo, þegar eitthvað er að og eitthvað bjátar á, að segja öllu upp, annars geta þeir fengið svona þakklæti á eftir eins og útgerðin fær frá hæstv. sjútvrh.

Staða þessa máls og uppsögn sjómanna stafaði eingöngu af því að þegar aðrar stéttir í þessu landi fengu launabætur frá 1. des., 6.67%, töldu sjómenn og telja enn að þeir eigi rétt á því sama, þó að fulltrúi þeirra í Verðlagsráði hafi brugðist samþykktum sinna manna með því að sitja hjá. Ef ríkisstj. hefði ætlað að stöðva kauphækkanir, þá átti hún að gera það fyrir 1. mars og þá hjá öllum, en ekki níðast á sjómönnum einum. Það er hér á bak við, að búið er að veita öðrum hækkanir, og það er auðvitað ósköp eðlilegt að allir vilji fá hækkanir fyrst niðurtalningarstefna núv. ríkisstj. er farin að stefna upp á við, enda er allt upp á við — allt verðlag og annað í samræmi við það — hjá þessari hæstv. ríkisstj.

Hæstv. forsrh. varð alvarlega á í messunni í sambandi við fiskverðið. Hann lýsti því yfir, að hann teldi að hraðfrystiiðnaðurinn hefði haft það svo gott í landinu á undanförnum árum að hann gæti vel þolað að fá ekki neinar frekari bætur, hann lifði á gömlum merg og menn þyrftu í þeirri grein að taka við óþægindum og færa mittisólina um eitt eða tvö göt. Þessi fljótfærnislega yfirlýsing forsrh. — af því að hann þekkir ekkert inn á rekstur frystiiðnaðarins og hefur ekki hugmynd um stöðu hans, þrátt fyrir það að fyrir lágu upplýsingar í öllum stjórnarmyndunarumræðum og viðræðum — varð til þess að núv. ríkisstj. stöðvaði með öllu gengissigið og vandinn varð enn meiri en áður. Og áfram er haldið af ráðh. þessarar ríkisstj. að segja að hvítt sé svart og svart sé hvítt. Og veslings viðskrh. er búinn að verða sér svo til stórskammar í dag í viðtalinu við Vísi, við útvarpið og sjónvarpið, jafnágætur maður og hann er, sem ég hef miklar mætur á, að ég kenni sárlega í brjósti um hann eftir daginn í dag, enda er hann aðhlátursefni þjóðarinnar eftir daginn sem eðlilegt er.

Það er mikið afrek sem hæstv. sjútvrh. er búinn að vinna í sambandi við fiskverðið. Það er búið að vera fiskverðslaust í næstum því 31 dag á valdatíma þessarar ríkisstj. Hann segir að nú sé loksins búið að ná samkomulagi. Og hvernig var það? Fulltrúi ríkisstj., oddamaðurinn — sem er auðvitað ekkert annað en verkfæri ríkisstj. á hverjum tíma, sem gerir eingöngu það sem ríkisstj. segir honum að gera, því annars er hann sviptur sínu umboði — hann ákveður fiskverðið. Þeir þorðu ekki, sem betur fer, að treysta á úrskurð oddamannsins, einhliða úrskurð um fiskverðið, og þá voru góð ráð dýr. Þar þurfti að fá annan til. Og sá, sem lét tilleiðast, var fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga, sá aðili sem er fulltrúi fyrir miklu minni hluta fiskvinnslunnar en fulltrúi SH og annarra vinnslugreina. Hann hefur hlýtt kallinu og greitt atkvæði með. Þessi fiskverðsákvörðun er tekin af minnihluta yfirnefndar. Og það er í fyrsta skipti, þegar frá er talinn einhliða úrskurður oddamanns, að fiskverð er ákveðið af minnihluta yfirnefndar Verðlagsráðs sjávarútvegsins.

Sjómenn héldu ráðstefnu stjórna og formanna sambandsfélaga Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands miðvikudaginn 26. mars s.l. Sú ráðstefna ályktaði eftirfarandi:

„Sá dráttur, sem orðinn er á ákvörðun fiskverðs, sem gilda átti frá 1. mars um fiskverð, stafar af því, að stjórnvöld telja ekki grundvöll til frekari hækkana fiskverðs, sem þýðir að sjómenn fá ekki sambærilegar launahækkanir og aðrir launþegar í landinu fengu 1. mars. Ráðstefnan lýsir hverja þá ákvörðun, sem ekki tryggir sjómönnum réttmæta hækkun fiskverðs, lögleysu.“

Þrátt fyrir hjásetu fulltrúa sjómanna í Verðlagsráði, sem er, að mig minnir, formaður Vélstjórafélags Íslands og fyrrv. forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Þeir vara í þessari ályktun við einhliða ákvörðun oddamanns yfirnefndar og segja síðan í lok þessarar ályktunar:

„Fari svo, að fulltrúar sjómanna segi sig úr Verðlagsráði, verði þegar boðað til annarrar ráðstefnu með stjórnum Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands og formönnum aðildarfélaga sambandanna, þar sem frekari aðgerðir af hálfu sjómanna og umbjóðenda þeirra verða til umræðu.“

Hér var fyrst og fremst átt við það, að það yrði að vera meiri hluti yfirnefndar Verðlagsráðsins, og auðvitað mjög róttæk samþykkt gerð um einhliða úrskurð oddamanns. En hér hefur ekki tekist betur til en það, að minnihluti yfirnefndarinnar stendur að ákvörðun fiskverðsins. Í því felst viss hætta fyrir stjórnvöld, ef friður á að ríkja milli aðila í þessum efnum.

Margir tala mikið og fjálglega um þær miklu tekjur sem sjómenn hafa. En á sama tíma er ekki talað um þá vinnu og þá miklu áhættu fram yfir svo að segja öll önnur störf sem fylgja starfi sjómannsins. Fjölmiðlum verður tíðrætt um að sjómenn hafi þetta og þetta miklar tekjur yfir árið og þá ætla þeir sjómönnum að vinna, eins og á togurunum, í 365 daga á ári til þess að ná sínum tekjum. Ég fullyrði að það er enginn sjómaður til sem vinnur neitt nálægt þessu, því að menn, sem jafnmikið álag er á eins og í þessari stétt, verða að taka sér löng frí á milli. Og það er líka mikilvægt atriði, þegar talað er um störf manna, hvort það eru menn, sem vinna reglubundinn vinnudag og hætta á ákveðnum tíma, hvað þeir geta gert fyrir sín heimili og sitt hús, skapað sér á vissan hátt auknar tekjur fram yfir þá sem eru fjarverandi langtímum saman.

Mér fannst furðulegt hjá hæstv. sjútvrh. þegar hann sagði að með samþykkt þessa frv. teldi hann sig eygja lausn á deilu sjómanna á Ísafirði með niðurfellingu eða lækkun olíugjaldsins. Ég hreinlega skil ekki hæstv. ráðh. Hér er um minnkandi tekjur fyrir útgerð að ræða, hvorki meira né minna en það, að í stað 5% olíugjalds á olíugjaldið að vera 21/2%. Telur hæstv. ráðh. virkilega, að þegar atvinnurekstur lækkar í tekjum skapist betri og meiri grundvöllur til hækkunar á skiptaprósentu eða öðrum kjörum fyrir sjómenn? Þetta fæ ég alls ekki skilið.

Um hitt er ég hæstv. ráðh. sammála, að þetta olíugjald, eins og það var á lagt á sínum tíma, var ekki allra meina bót. En hann var í þeirri ríkisstj. — þó að hann væri ekki sjútvrh. þá — sem lagði til á s.l. ári að sett yrði 2.5% olíugjald á í marsmánuði árið 1979. Síðan var það gjald hækkað í hvorki meira né minna en 7% frá 15. maí, því að rétt eftir mitt ár, frá 20. júlí, er olíugjaldið utan skipta enn hækkað með brbl. í 12%. Þá er það svo aðkallandi að ekki má bíða lengur að hækka það í 12%. Og ég veit ekki til þess, að núv. hæstv. sjútvrh. hafi haft neitt við það að athuga. En þá var olíuverðið að hækka verulega, því það hækkaði litlu síðar úr 68.90 í 137.05 kr. Að auki kom þá 3% olíugjald til skipta, enda höfðu laun launþega í landi almennt hækkað um 3% í júnímánuði það ár.

Í septemberlok í fyrrahaust varð samkomulag í yfirnefnd Verðlagsráðs um nýtt fiskverð sem átti að taka gildi frá 1. okt. Sú ákvörðun fól í sér að skiptaverð hækkaði um 9.2%, og forsendan fyrir þeirri ákvörðun var að olíugjald til fiskiskipa sem hafði verið 15%, yrði 9% frá 1. okt., og jafnframt var 3% olíugjaldið, sem komið var til skipta, fellt inn í skiptaverðið. Um þetta varð fullt samkomulag á milli aðila.

Hæstv. sjútvrh. talar hér um að nú sé gjörbreyting að verða á, og hann setur inn í grg. með þessu frv. að nú hafi mál hins vegar skipast svo, að „skráð gasolíuverð á Rotterdam-markaði hefur að undanförnu verið á bilinu 295 – 300 dollarar fob. hvert tonn, en viðmiðunarverð var tæplega 329 dollarar, þegar gasolíuverðið var ákveðið 155.25 kr. hver lítri í des. 1979.“ Þetta gasolíuverð er enn þá 155.25, og mér er kunnugt um að Verðlagsráð hefur samþykkt 10 kr. hækkun á gasolíu nú nýlega. Því spyr ég hæstv. ráðh.: Bendir það til að hér eigi að lækka olíuverðið? Eða ætlar ríkisstj. að lofa því, að þetta hækki ekki, og hvað á þá olían að lækka um?

Ég leyfi mér enn fremur að spyrja um innkaupajöfnunarreikninginn. Hvernig stendur hann? Hvað er tekið inn á hann af olíuverðinu, fyrst og fremst af gasolíuverði og svartolíuverði? Hvernig er með lánin sem olíufélögin tóku á s.l. ári til þess að lagfæra slæma stöðu innkaupajöfnunarreikningsins þá? Hvað líður langur tími þangað til þessar skuldir eru greiddar upp, þannig að olíuverð verður að haldast hærra vegna þess? Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hjá hæstv. ráðh.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh. hækkar skiptaverð til sjómanna um 4%, en krafa þeirra eins og annarra launþega í þjóðfélaginu var 6.67%. Hlutur útgerðar í fiskverði hækkar um 0.6%, það er allt og sumt. Olíugjaldið lækkar um 2.5% og hlutur útgerðarinnar er sem sagt 0.6%. Nú spyr ég hæstv. sjútvrh.: Telur hann, ef hann lítur almennt á fiskiskipaflotann og rekstur hans, að fiskiskipaflotanum nægi þetta, miðað við allar þær hækkanir, sem orðið hafa og allar þær hækkanir, sem verða vegna gengislækkunar sem nú þykir fínt að kalla gengissig? Verður þetta til að styrkja stöðu útgerðarinnar í landinu? Telur hann loðnuflotann standa svo vel að vígi nú að hann geti staðið sig, ef hann ætti að fá svipaðar hækkanir og þetta þegar loðnuveiðar byrja? Telur hann að þær veiðitakmarkanir, sem fram undan eru og verið hafa, verði til þess að auka og treysta grundvöll fiskiskipanna í landinu? Dettur nokkrum manni í hug, miðað við það olíuverð, miðað við þá gífurlegu verðbólgu sem þessi ríkisstj. er að kynda undir, að það verði uppörvandi í sumar að fara á skranfiskirí á þessum dýru skipum, togurunum í landinu? Verður það til þess að auka tekjur sjómanna, sem menn öfundast nú mest yfir? Verður það til þess að auka framleiðni í þessu landi? Er það ekki eitt af stefnumálum núv. ríkisstj. að auka framleiðni? Hvar er nú óskalisti Alþb. um framleiðniaukningu? Hvar eru allir þeir milljarðar sem átti að auka framleiðni um í þessu landi? Ég held að fjmrh. sé sestur á þá milljarða sem átti að auka um, því það verður ekki um neina aukningu að ræða með slíkri vitleysisstefnu sem þessi ríkisstj. er að marka bæði í þessu máli og flestum öðrum.

Ég gleðst yfir því, sem hæstv. sjútvrh. sagði, að gera þurfi ýmsar breytingar og lagfæringar til lækkunar á rekstrarkostnaði fiskvinnslunnar. Ég er alveg sammála honum í þeim efnum. Og ég hefði haft af því gaman — og sennilega aðrir þm. líka — að vita hvað hann metur þær till. sínar til mikils fjár, hvað hátt hann metur það tekjutap ríkissjóðs og hvort fara eigi þá í einhverja aðra og nýja skattlagningu. Við erum nú að sjá alveg nóg í dag af því. Það er ekki hægt að lofa öllu í annarri ræðunni og taka það svo aftur í hinni. Það er ekki nóg að einn ráðh. lofi nokkrum mill jörðum — og svo kemur veslings fjmrh. og flytur frv. um aukna skatta á þjóðina. Ég trúi því ekki, að þessir níu í ríkisstj. ætli að fara svona með einn mann. Það væri a.m.k. eitthvað sagt hjá Dýraverndunarfélaginu ef um skepnu væri að ræða.

Ég gleðst líka yfir lækkun vaxta Fiskveiðasjóðs, sem sjútvrh. lofar. En ég var ekki trúaður á fyrirheit fyrrv. hæstv. sjútvrh. um að nást mundi samkomulag við lífeyrissjóðina um það sem hann stefndi að. Ég ætla samt að spara mér frekari þakkargjörð þangað til ég sé að þetta er komið fram. En mig langar til að spyrja hæstv. sjútvrh. að því, hvernig hann telji stöðu Fiskveiðasjóðs eftir þessa breytingu, hvernig eiginfjárstaða Fiskveiðasjóðs muni þá líta út. Það á að heita svo, að ég sé í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ég get mjög vel tekið undir það að lækka ómakslaun Framkvæmdasjóðs í sambandi við útvegun lána fyrir stofnlánasjóðina, og ég hef í raun og veru haft orð á því, að þarna væri um óþarflega háa álagningu að ræða. En þetta hefur viðgengist á undanförnum árum og þar hefur hæstv. núv. sjútvrh. ráðið töluvert ríkjum og hæstv. viðskrh., og það er ekki fyrr en nú að þeir eru farnir að sjá það, að eitthvað megi lækka álagninguna hjá Framkvæmdasjóði — og er það vel.

Hæstv. ráðh. minntist bæði á stöðu fiskvinnslu og fiskveiða. Ég gerði þetta nokkuð að umræðuefni hér um daginn. Hæstv. ráðh. segir að þessi vanskil hafi orðið vegna þess hvað rekstrarfjárhörgull hafi verið mikill hjá fyrirtækjunum. Ef fyrirtækin hefðu fengið aukið rekstrarfé, margfalt meira rekstrarfé og borgað upp vanskilaskuldir sínar hjá Fiskveiðasjóði og Byggðasjóði og önnur vanskil á stofnlánum, þá stæðu þau ekkert betur, þau skulduðu bara öðrum aðila í dag, sem þá væru bankarnir. Staðan er sú, að heildarvanskil um áramót við Fiskveiðasjóð einan eru næstum því 7700 millj. kr., auk vaxta og dráttarvaxta. Heildarvanskilin við Byggðasjóð eru hvorki meira né minna en 1060 millj. Og vextir í vanskilum án dráttarvaxta eru um 600 millj. Þegar vanskil hjá Fiskveiðasjóði verða öll komin fram svo og vextir og dráttarvextir, og komið er fram á vorið eða sumarið, þá hugsa ég að það sé ekki fjarri sanni að segja að vanskilin verði komin í 14 milljarða. Ég hugsa að þar skakki ekki mjög miklu. En reynslan og nánari útreikningar munu auðvitað sanna hver þessi tala er í raun og veru.

Það er því sjáanlegt nú, að með þeim ákvörðunum, sem teknar hafa verið, er staða útgerðarinnar mun lakari en áður. Og það er furðulegt að þm. úr stjórnarliðinu, sem þekkja vel til stöðu útgerðar og sennilega sumir hverjir miklu betur en ríkisstj. öll saman, skuli láta bjóða sér frv. eins og þetta.

Hitt er svo annað mál, eins og ég sagði í upphafi, að olíugjaldið er ekki endilega það eina sanna og rétta. Aðalatriðið var það, að útgerðin fengi auknar tekjur til þess að mæta auknum útgjöldum í því verðbólgukapphlaupi sem ríkisstj. er að kynda undir.

Fulltrúi útgerðarinnar í Verðlagsráði sjávarútvegsins lét bóka við þessa verðákvörðun í dag: „Með þessari fiskverðsákvörðun er vandi fiskvinnslunnar fluttur yfir á útgerðina. Vegna launahækkana 1. mars og vegna áhrifa gengissigs á aðföng útgerðarinnar, sem nú er ráðgert 8% á næstu dögum, breytist afkoma útgerðarinnar frá því að vera 1% hagnaður í 4% tap.“ Þetta er hressilegt spor aftur á bak. Þarna á sér stað niðurtalning heldur betur. En hún á ekki að eiga sér stað í sambandi við öll ríkisfyrirtækin og öll þau áform sem þar eru um hækkanir á öllum sviðum. Og enn segir fulltrúi útgerðarinnar: „Þegar fiskverð var ákveðið 24. jan. s.l. varð samkomulag um að olíugjald yrði 5% allt árið 1980 og það staðfest með lagasetningu á Alþ. með samhljóða atkvæðum.“

Ég fyrir mitt leyti ætla að standa við mitt atkvæði í jan., ég ætla ekki að snúast eins og vindhani á hjallburst, hvorki í þessu máli né öðrum.

Og enn segir fulltrúi útgerðarinnar:

„Með þessari ákvörðun er því samkomulagi rift af oddamanni yfirnefndarinnar að kröfu ríkisstj. Virðast nú ekki halda samningar við ríkisstj. þótt bundnir séu með lögum. Lækkun á olíugjaldi úr 5% í 2.5% lækkar tekjur útgerðarinnar um 3000 millj. á ári í óðaverðbólgunni sem fram undan er út vertíðina, að ég tali nú ekki um framhaldið.“

Fulltrúi kaupenda, sem sat hjá við atkvæðagreiðsluna, segir: „Með tilliti til þess, að ekki liggja fyrir ákveðin fyrirheit um ráðstafanir til að tryggja hallalausan rekstur fiskvinnslunnar, þá get ég ekki samþykkt þessa tillögu. Á hinn bóginn er 1/3 verðtímabilsins liðinn og því óhjákvæmilegt að ákveða fiskverð. Þess vegna sit ég hjá við þessa atkvæðagreiðslu.“

Ég tel ekki þessa verðlagningu vera neinn sigur fyrir hæstv. ríkisstj. eða hæstv. sjútvrh., ekki einu sinni varnarsigur. Ég tel að hér hafi verið gengið á bak orða sinna í þessum efnum. Það, sem gert hefur verið, er að færa vanda, hluta af vanda frá fiskvinnslu yfir á fiskveiðarnar samhliða ströngum takmörkunum sem verða í sumar. Og þó að sumum mönnum sé kannske sama um það sem varðar bæði útgerðarmenn og sjómenn, þá hlýtur það að vera hagur ríkissjóðs ekki síður en einstaklinganna að halda uppi eðlilegri framleiðslu og vinnu í þessu landi, því að eftir því sem menn vinna meira og hafa hærri tekjur, því meira mjólkar ríkissjóður af þeim. Ef alvarlega verður dregið úr vinnu með slíkum ráðstöfunum sem þessari, þá verður ríkissjóður fyrir alvarlegu áfalli. Þetta held ég að hæstv. ríkisstj. þurfi að hafa í huga.

Ég tel útilokað að afgreiða þetta frv. fyrir páska. Þetta frv. verður eins og önnur að fara til n. Ég vænti þess, að það fari til sjútvn. Ég á sæti í þeirri n. Þar vil ég fá allítarlegar upplýsingar frá aðilum sem hér eiga hlut að máli. Og ég þykist vita og vona að fleiri nm. í sjútvn. geti tekið undir þau orð mín. Hins vegar vil ég ekki slá neinu föstu um afgreiðslu málsins. Ef hægt er að ganga á einhvern hátt frá þessu olíugjaldi með samkomulagi við báða aðila, þannig að útgerðin beri ekki jafnskarðan hlut frá borði og nú er gert, þá vil ég vera opinn fyrir þeirri breytingu. Að því leyti til get ég verið sammála hæstv. sjútvrh.

Allt bendir nú til þess, með þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð, að sett verði nýtt skattamet á Íslandi á þessu ári. Álögur bæði ríkis og sveitarfélaga á landsmenn verða nú örugglega meiri en nokkru sinni áður. Núv. ríkisstj. viðheldur þeirri hækkun bæði á vörugjaldi og söluskatti sem vinstri stjórnin lagði á seint á árinu 1979 svo að hún veldur aukinni skattbyrði nú í ár, þar sem hún er látin gilda allt árið 1980. Þessi hækkun mun hafa fært ríkissjóði 2.7 milljarða kr. á s.l. ári, og talið er að þessi hækkun ein muni færa ríkissjóði um 18 milljarða á þessu ári. Og nú er haldið áfram á fullri ferð.

Sjálfstfl. hét fólki því fyrir kosningar að afnema skatta vinstri stjórnarinnar. Sjálfstfl. stóð heill og óskiptur að því kosningaloforði. En nú eru þrír menn í Sjálfstfl. í ríkisstj. sem standa að því að viðhalda öllum sköttum vinstri stjórnarinnar og standa einnig að því að hækka þá frá því sem var. Það hefur því verið farið úr öskunni í eldinn. Þeir voru til sem glöddust yfir því, að það tókst að mynda ríkisstj. sem þessa með þessum hætti, en ég held að gleði þeirra fari dvínandi eftir því sem sólin hækkar á lofti. Og ég held að það verði lítil gleði hjá launþegum í þessu landi eins og atvinnurekstrinum þegar líður á þetta ár. Verðbólgan er bölvaldur alls og það ræður engin ríkisstj. við neitt á meðan hún kyndir sjálf undir verðbólgunni. Og þeir, sem fara verst út úr verðbólgunni, eru þeir sem lægst hafa launin. Þeir geta ekki varist verðbólgunni á einn eða annan veg. Þeir, sem hafa talið sig og telja sig fyrst og fremst málsvara þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu, mega því fara að hugsa sig alvarlega um áður en þeir halda áfram á þessari braut. Þá eru þeir alvarlega að svíkja sína umbjóðendur og skapa hér fátækt og atvinnuleysi þegar líður á þetta ár.

Þessari ríkisstj. verður ekki treyst fyrir fjármálum þessarar þjóðar. Hún veður áfram í villu og svíma. Hún getur ekki sagt satt frá degi til dags, eins og vesalings viðskrh. hæstv., verð ég víst að segja, gerði í allan dag. Þetta frv., sem hæstv. sjútvrh. var að mæla hér fyrir, er eitt af svikunum við atvinnulífið, og það, sem hann sagði hér til varnar þessum málum, er rökleysa. Þetta fiskverð er ákveðið af minni hluta yfirnefndar Verðlagsráðsins og í fullri andstöðu við útgerðina almennt í landinu og sjómannastéttina og meginþorra fiskvinnslunnar.