31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. þau svör sem hann gaf. En okkur ber töluvert á milli. Hann sagði réttilega: Hvað hefðum við átt að gera ef fiskverð hefði hækkað um 6.67%? Hefði þá ekki þurft meiri gengislækkun eða aðrar ráðstafanir fyrir fiskvinnsluna? Vitaskuld er það rétt. Það, sem okkur greinir á um, er þetta: Ætlum við að stöðva dýrtíðina, gera alvarlegar ráðstafanir til þess að draga úr víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags? Þegar launþegar almennt fengu 6.67% hækkun frá 1. mars, þá er það mín skoðun að sjómenn hefðu átt að fá þessa hækkun líka. Þess vegna hafði með fyrra atferlinu þessu verið boðið heim. Því er gengið á rétt sjómanna að mínu viti með því að fallast ekki á nema 4% hækkun.

Um það að breyta vanskilaskuldum í föst lán til nokkurra ára og þar með létta greiðslubyrði bæði fiskveiða og fiskvinnslu er ég sammála hæstv. ráðh., enda gerði ég að umtalsefni utan dagskrár fyrir nokkru þessi miklu vanskil við stofnlánasjóðina. En mér er alveg ljóst að það er ekki hægt með stjórnvaldsákvörðun að taka öll vanskil fyrirtækja og breyta þeim í lán til langs tíma nema sjá sjóðunum fyrir fjármagni til að sinna brýnustu verkefnum sem þeir verða að inna af hendi. En það er erfitt fyrir okkur alþm. — og kannske ekkert síður fyrir hæstv. ráðh. — að sjá hvernig þetta heildarmál lítur út á meðan lánsfjáráætlun, sem nær til stofnlánasjóðanna, sér ekki dagsins ljós. Við skulum taka t.d. Fiskveiðasjóð sem er stærsti stofnlánasjóður atvinnuveganna. Ef lánsfjáráætlun byggist á allra þrengstu og í raun og veru óhjákvæmilegum lánum bæði til fiskvinnslu og fiskveiða, bæði vegna skuldbindinga, sem búið er að gera fyrir löngu, og eins þess, sem búið er að gera fyrir stuttu, kannske einu ári eða svo, þá verður auðvitað að standa við það, því annars er raskað framkvæmdum fjölmargra aðila í þjóðfélaginu. En jafnframt verður að auka fjármagn til Fiskveiðasjóðs, ef honum verður ætlað það hlutverk að breyta vanskilaskuldum fiskvinnslu og fiskveiða til nokkurra ára. Þannig er það auðvitað einnig með alla aðra stofnlánasjóði, þar með talinn Byggðasjóð. Þetta hlýtur hver maður að skilja. Það er ekki nóg fyrir stjórnvöld að leggja kvaðir á stofnlánasjóðina. Það verður einnig að leggja sömu kvaðir á bankana. Ég tek alveg undir það með hæstv. ráðh., að einn bankinn, Útvegsbankinn, hefur lakari stöðu en nokkur önnur slík lánastofnun. Hann getur á engan hátt tekið einn á sig þá kvöð að breyta vanskilaskuldum í föst lán til nokkurra ára. Þar verður að koma til aðstoð frá Seðlabankanum.

Haustið 1974 átti sjávarútvegurinn í miklum erfiðleikum. Miklar lausaskuldir höfðu hlaðist upp. Samhliða því var fallandi verð á flestum útflutningsafurðum okkar Íslendinga og þá sérstaklega sjávarafurðum. Þetta verðfall hélt áfram árið 1975, en fór aðeins að rétta við í ársbyrjun 1976. Þá gripu stjórnvöld til þeirrar ráðstöfunar að fara út í „konverteringu“ lána, bæði í stofnlánasjóðum og í viðskiptabönkum, með aðstoð Seðlabankans. „Konvertering“ þessara lána var, þegar henni var lokið síðla árs 1975, að mig minnir upp á 3450 millj. kr. á verðlagi þess árs, sem var gífurlegt átak að standa í og fá alla ríkisbankana inn á. Ég veit hvað það kostaði mig á þeim tíma mikla fyrirhöfn. Og ég hygg að það muni ekki kosta núv. sjútvrh. minni fyrirhöfn að fá slíkt samkomulag við bankana og þá einnig samkomulag og samstarf við stofnlánasjóðina. Ég fyrir mitt leyti styð þessa viðleitni og tel hana óumflýjanlega.

Ég furða mig á þeirri lögskýringu og þeirri túlkun sem hæstv. ráðh. færir hér fyrir hv. þingdeild í sambandi við lögin um tímabundið olíugjald til fiskiskipa sem samþ. voru á Alþ. 24. jan. 1980. Í 4. gr. þessara laga segir orðrétt:

„Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu ákvæði þeirra taka til fiskafla og hlutaskipta frá upphafi til loka árs 1980, nema aðilar að kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna komi sér saman um önnur hlutaskipti.“

Alþingi ákveður 24, jan. 1980, að þessi ákvæði um 5% olíugjald ofan á fiskverð gildi allt árið 1980, nema aðilar að kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna komi sér saman um önnur hlutaskipti.

Er hægt að segja ákveðnar og ótvíræðar í þessum efnum en að þessi lög eigi að gilda árið 1980? Að hverfa frá því eru svik Alþingis við launastéttirnar. Hefur hæstv. ríkisstj. ekki gert sér neina grein fyrir þessu? Það hafa engar breytingar orðið á kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna, þetta stendur áfram óbreytt. Það er ekkert sem réttlætir þessa breytingu, því að þegar þessi lög eru samþ. er olíuverðið 155.25 kr. Og það er enn í dag 155.25 kr. Það eru liðnir þrír mánuðir af árinu og það liggur fyrir tillaga frá Verðlagsráði um að hækka þetta olíuverð um 10 kr.

Í grg. frv. að þessum lögum, sem ég var að vitna í, segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er kunnara en frá þurfi að segja, að engin atvinnugrein hefur orðið jafnharkalega fyrir barðinu á hinni gífurlegu olíuverðshækkun á síðustu misserum og sjávarútvegurinn. Þegar í upphafi síðasta árs var olíukostnaðurinn útveginum þungbær og síendurteknar hækkanir á olíuvörum frá þeim tíma hafa enn aukið á þennan vanda. Góð aflabrögð hafa hins vegar bætt hér nokkuð úr skák. Gasolíuverð er nú rúmlega 155 kr. á lítra, en var fyrir ári tæplega 58 kr.“

Það, sem verið er að gera þegar þetta frv. er lagt fram, er að lækka þetta gjald úr 9% niður í 5%. Og lagðar eru til grundvallar þær gífurlegu hækkanir sem dynja á útveginum á þessum tíma. Og það er eðlilegt að minna á það, að í árslok eða um miðjan desember 1978 er gasolíuverðið 49.75 kr. á lítra. En í maí 1979, þegar farið er að leggja þetta olíugjald á, þá er olíuverðið komið í 68.90 kr. og í desemberlok í 155.25 kr. Hvaða alþm. ætlar svo að halda því fram, að forsendur fyrir lögum, sem við afgreiðum 24. jan. 1980 og taka skýlaust gildi á þennan hátt og eiga að gilda frá upphafi til loka ársins 1980, þessar forsendur hafi breyst? Ég spyr svo enn fremur: Þessi lög eru í gildi frá 24. jan. 1980 samkv. þessu sem ég las upp úr 4. gr. þeirra. Fær það þá staðist að hægt sé að flytja frv. um það, að þessi sömu lög skuli afnumin frá 1. mars 1980, eins og frv. sjútvrh. gerir ráð fyrir? Ég spyr hæstv. forsrh., prófessor í lögum, — ég er ekki löglærður maður: Fær þetta staðist? Hefur hæstv. forsrh. nokkurn tíma heyrt eða séð slíkt frv. borið fram, af ríkisstj., þar sem á að nema úr gildi gildandi lög aftur í tímann?

Mér finnst flumbrugangur hæstv. sjútvrh. vera alveg skelfilegur. Ég held að það verði að hugsa pínulítið áður en á að fara að afgreiða mál með þessum hætti. Ég fyrir mitt leyti ætla ekki að hlaupa til í sjútvn. þessarar d. að afgreiða þetta eins og við látum fisk renna eftir færibandi í frystihúsunum.