20.12.1979
Efri deild: 8. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

4. mál, ferðagjaldeyrir

Frsm. minni hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Minni hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði fellt. Við sjáum ekki ástæðu til að leggja sérstakt gjald á ferðagjaldeyri, sérstaklega ekki eins og nú er komið hag manna. Það er raunar svo, að tekjulægra fólk getur naumast lengur ferðast. Sumum vex kannske í augum hve mikil ferðalög voru hér fyrir 1–2 árum, og kannske hefur verið réttlætanlegt á þeim tíma að leggja þetta gjald á. En eftir allar kjaraskerðingar vinstri stjórnarinnar er auðvitað alveg ljóst, að það er einungis efnaðra fólk sem getur ferðast, sérstaklega þegar slíkt gjald sem þetta er á lagt. Og þegar þjóðin á það nú enn yfir höfði sér, að kannske komi önnur ný vinstri stjórn sem vafalaust mundi halda kjaraskerðingunni áfram, þá held ég að ekki sé tímabært að lögfesta þetta.

Að vísu var því skotið hér að mér áðan, að svo væri nú komið að lágtekjufólk gæti hvort sem er ekki ferðast þótt það fengi gjaldeyri á réttu verði — það kann að vera rétt — og þetta fólk yrði að borga há gjöld af öllum mögulegum innflutningi. En það réttlætir samt ekki að mínum dómi eða okkar að leggja þetta gjald á og þess vegna leggjum við til að frv. verði fellt.