31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

136. mál, olíugjald til fiskiskipa

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkrar aths. vegna fullyrðinga, sem komu fram í ræðu hæstv. sjútvrh., og þó kannske fyrst og fremst til þess að leiðrétta þau ummæli hans, sem hann virtist hafa eftir mér úr minni fyrri ræðu um það, að ég hefði verið að hóta einhverju í sambandi við landsiglingu flotans. Því fer víðs fjarri. Ég var hins vegar að vara við að svo gæti farið. Ég var ekki að hóta og ég var ekki einu sinni með aðvörun, vil ég orða það. Ég var með vinsamlega ábendingu um að láta ekki mál þróast í þá átt. Og það ætti hæstv. sjútvrh. að vita, sem er búinn að vera hið næsta stjórnvelli Framsfl. um margra ára skeið, að hann hefur ekki reynt mig að því í mínu launþegafélagi, hvar ég er búinn að vera í aðalstjórn í nær tuttugu ár, að ég hafi beitt áhrifum mínum þar til misnotkunar á því stéttarfélagi. Hann veit það hins vegar vel, að ég hef ítrekað, meira að segja þegar ég var í stjórnarandstöðu hér á Alþingi, gengið fram fyrir skjöldu til þess að reyna að leysa og tekist að leysa viðkvæm vandamál sem þáv. ríkisstj. hafði kallað yfir sig, vil ég leyfa mér að orða það.

Það, sem ég vildi undirstrika í hans orðum, var þetta, að hann sagði að fullyrðingar þeirra í fiskvinnslunni hefðu verið á nokkrum rökum reistar. M.a. þess vegna hefur tekist að ná samkomulagi, sem spannar yfir bilið allt frá því að vera annars vegar krafa um 12% fiskverðslækkun frá fulltrúa Sambandsins og öðrum fiskkaupendum upp í það að hann samþykkir 4% fiskverðshækkun. Þetta stóra bil er brúað og því er náð saman í þessu samkomulagi af fulltrúa ríkisstj., oddamanninum, og fulltrúa Vinnumálasambandsins í nefndinni. Þeim tekst að ná þessu víðtæka samkomulagi, segi ég, og ábyggilega mjög erfiða og þunga hvað peningahliðina svertir. En það er hins vegar talið alveg sjálfsagt að draga enn einu sinni af fiskimönnunum sjálfum. Það þykir alveg sjálfsagt. Það verður að koma á móti kröfum sem fiskvinnslan þarf á að halda, en það á enn einu sinn að vega í hinn sama knérunn, að hafa af fiskimönnunum. Það var þetta sem ég var að vara við. Ég var að vara við þessum endurtekningum þó að þeir séu seinþreyttir til vandræða.

Ég átti nokkurn þátt í því á s.l. sumri, að brbl., sem hæstv. þáv. ríkisstj. setti á farmenn, jafnvel á undirmenn á farskipum sem ekki áttu í neinu verkfalli, þeim brbl. væri hlýtt og þau haldin og eftir þeim farið. En hvað skeður? Jú, ríkisstj. sjálf braut þessi lög, sveik þau og hefði með réttu og samkv. okkar gildandi lögum átt að dragast fyrir landsdóm vegna þessara svika og brota á íslenskum lögum.

Það er þetta, þessar ítrekuðu árásir á íslenska sjómannastétt, sem ég er að vara við. Það geri ég í vinsemd, vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir að einn einasti maður, sem hefur verið kjörinn til forustu í þessum félögum, kæri sig um að vera að standa í neinu ónauðsynlegu stríði, hvorki við stjórnvöld né sína viðsemjendur. Að sjálfsögðu, og það er a.m.k. mín meginskoðun í þessu málum, á að leitast við að ná samningum milli aðila yfir samningsborðið, en ekki með öðrum ráðum.

Hæstv. ráðh. hafði mjög villandi orð um þegar hann ræddi um framleiðni í fiskveiðiflotanum. Ég held að hann ætti að hafa í huga — og reyndar allir aðrir hv. alþm. — þá staðreynd, að það mun líklega engin önnur stétt-það má vera að framleiðniaukning hafi verið tekin inn í grundvöll hjá bændum, mig minnir að það hafi verið gert, en ég veit að hjá sjómönnum hefur þetta ítrekað verið gert vegna aukinnar tækni og nýs búnaðar sem hefur verið settur í hin nýju skip. Jafnvel stærð skipanna var eitt sinn notuð til þess að lækka skiptakjör sjómanna. Og hæstv. ráðh. verður að hafa það í huga, að núna á allra síðustu árum hefur engin stórvægileg breyting orðið í framleiðniaukningarátt á togaraflotanum okkar, búnaðarins vegna.

En annað hefur skeð. Afli þessara skipa hefur stóraukist vegna þess að afli hefur aukist á miðum. Þessi afli hefur aukist á miðum fyrst og fremst að álitið er, vegna verndar- og friðunaraðgerða sem hafa verið framkvæmdar á okkar miðum. En niður á hverjum komu þessar sömu verndar- og friðunaraðgerðir? Niður á fiskimönnum. Þeir fengu þær engu bættar. En ég minni á, og það er jafngott að það komi líka fram, að sú ofveiði, sem þeim var kennt um fyrr á árum — sem að vísu var ekki nema lítið brot vegna íslenskra fiskimanna því að það voru fleiri og aðrir þar að verki — sú ofveiði sem má rekja til íslenskra fiskimanna, hagnaður hennar kom til skipta milla allra í þjóðfélaginu, skiptist upp til allra þegna þjóðfélagsins. En þegar kom að því að vernda þurfti fiskimiðin, þá voru fiskimennirnir látnir bera þetta einir. Og nú er séð svo miklum ofsjónum yfir því, að sá árangur hefur náðst sem hefur náðst fyrst og fremst vegna þessara friðunaraðgerða, að það þarf æ ofan í æ að vera að skerða þeirra réttmæta hlut. Ég er viss um að það eru engir launþegar sem þurfa að hlíta slíkum boðum og ólögum nema þessir menn.

Er þá komið að lokaorðum mínum, en þau eru vegna endurtekinna ummæla ráðh. um ráðstöfunartekjur sjómanna, aukningu þeirra umfram iðnaðarmenn. Ég hef eins og hann fengið til yfirlesturs furðuleg plögg frá Þjóðhagsstofnun, þar sem skjal eftir skjal og tafla eftir töflu gengur út á að sýna fram á það, væntanlega yfirnefnd og ráðherrum og öðrum aðilum, t.d. fjölmiðlum sem slíkir útreikningar eru látnir leka til, hve geigvænlega miklar tekjur sjómanna og sjómannafjölskyldna eru. Þetta virðist hafa verið meginverkefni Þjóðhagsstofnunar að undanförnu. Finna þeir það út og sanna í einni töflunni, ef tekjur sjómannafjölskyldu: eiginmannsins, eiginkonunnar og svo tekjur barna undir 16 ára aldri og allar aðrar skattskyldar tekjur fjölskyldunnar, eru lagðar saman, að þá séu þeir komnir nokkuð langt fram úr öðrum mönnum. En það er, eins og ég sagði áðan, ekkert getið um vinnuframlagið né hve margir aðilar leggja það á sig að ná þessum tekjum. Meðaltal þessara tekna reyndist vera 1978 hjá yfirmönnum 7.2 millj. og hjá öðrum áhafnarmeðlimum 5.9 millj. En ráðh. hafði orð á því, að miðað við aðrar stéttir, þ. á m. iðnaðarmenn, hefðu sjómenn haft meiri ráðstöfunartekjur.

Ef við horfum á breytingar sem orðið hafa á milli ára í aflaaukningu og tökum þær t.d. í prósentum, þá má sjá að á árunum 1974–1980 var þessi aflaaukning 34%. Á sama tíma var tekjumismunur á milli sjómanna og verkamanna 31.3%. Svo höldum við áfram ár til viðbótar og þá er aflaaukningin 31.5%, en þá er mismunurinn kominn niður í 19.4%. Og næsta ár á eftir eða árabil er aflaaukningin 27.5%, en mismunurinn á milli sjómannsins og verkamannsins kominn niður í 11.6%. Ef við förum eitt ár í viðbót, þá er aflaaukningin 20.5%, en mismunurinn kominn niður í 5.8%. Og á árunum 1978 — 1980, þegar aflaaukningin er 17%, er mismunurinn 8.4%, og hann er minni í samanburðinum á milli sjómanna og iðnaðarmanna. Samt heldur hæstv. ráðh. því fram, að hann hafi aukist fram yfir iðnaðarmenn. Þetta er rétt aðeins að vissu marki, vegna þess að ekki er tekið fram hverju hafi verið fórnað til þess að ná þessum tekjum. Það er ekki tekið tillit til þess, sem er talið vera grundvallarnauðsyn í öllum samningum hjá öllum launþegum, ekki aðeins á Íslandi, heldur hvar sem er í heiminum, þ.e. til fórnarinnar sem launþeginn þarf að færa til þess að ná þeim tekjum sem hann gengur með frá borði eða frá sínum vinnustað. Ég held að hæstv. ráðh. þeirrar ríkisstj., sem hefur í málefnasamningi sinum bent á lausn allra vandamála sem er að finna í þessu þjóðfélagi, ættu að hafa þessa staðreynd í huga.