31.03.1980
Neðri deild: 54. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

135. mál, orkujöfnunargjald

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Þegar er komið nokkuð fram á nótt er mál þetta hér til 1. umr., var tekið á dagskrá fyrr í dag með afbrigðum. Það lætur að líkum, að ýmsar aths. þarf að gera við málatilbúnað þann sem hér hefur verið hafður uppi, og þá í fyrsta lagi vil ég nefna vinnubrögðin sem ýmsir ræðumenn fyrr í umr. hafa gert að umtalsefni.

Það hefur komið fram, að mál þetta var kynnt formönnum þingflokkanna á fundi kl. hálfsjö í gær, á pálmasunnudag, nokkuð óvenjulegur tími að vísu til þess að kynna frv. sem flytja á á hv. Alþ. Við formennirnir fengum að vísu þakklæti frá hæstv. forsrh. fyrir að leggja það á okkur að mæta á þessum óvenjulega tíma, og við kunnum að sjálfsögðu að meta það þakklæti sem beint var til okkar. Síðan var þetta frv. kynnt á þingflokksfundum, a. m. k. Alþfl. og Sjálfstfl., í morgun. Ég veit ekki hvort þingflokkar Framsfl. og Alþb. hafa haft það til meðferðar fyrr. Ég geri þó ráð fyrir að svo hafi verið um helgina eða fyrir helgi.

Hæstv. fjmrh. gerði nokkurt mál úr þessu, að sæmilega hefði verið séð fyrir kynningu málsins með þessum hætti, með fundinum í gær með hæstv. forsrh. og fjmrh. og svo fundum þingflokkanna í morgun, auk þess sem hæstv. fjmrh. talaði um það í ræðu sinni í dag, að í sjálfu sér væri þetta tiltölulega einfalt mál, sem ekki þyrfti að hafa mörg orð um. Það er vissulega rétt, að því er tekur til skattlagningarinnar, að það er tiltölulega einfalt mál að hækka söluskatt um tvö prósentustig. Það er vissulega rétt. En það er ekki einfalt mál þegar kemur til þess hvernig á að ráðstafa þeim tekjum sem ríkissjóður fær þarna til ráðstöfunar. Það er sem sagt ætlast til að þetta mál verði afgreitt fyrir páska, þ. e. ekki síðar en n. k. miðvikudag. Á sama tíma er fjárlagafrv. óafgreitt, eftir er 3. umr. sem ætlað er að fari fram á morgun. Tekjustofnafrv. hefur verið hér til meðferðar einnig, var afgreitt reyndar í dag frá hv. Ed. Frv. um flugvallagjald er til meðferðar, olíugjaldið hefur verið til meðferðar hér á fundi þessarar hv. d. fyrr í kvöld. Og skattstigafrv. hefur verið á óskalista ríkisstj., þótt nú hafi verið á það fallist að bíða með það fram yfir páska.

Auðvitað er gersamlega útilokað að fara fram á að þessi mál séu afgreidd á svo skömmum tíma, hvað þá að það sé tæknilega mögulegt. Ég vil taka undir með hæstv. fjmrh. að það er vont, svo ekki sé fastar kveðið að orði, að hafa mál sem þessi lengi í farvatninu eða lengi til meðferðar á hv. Alþ. Það krefst þess vegna vandaðri undirbúnings en hér hefur verið viðhafður til þess að hægt sé að ætlast til að hv. Alþ. afgreiði málið með slíkum hraða sem hér er farið fram á. En nokkur orð um frv. sjálft.

Ýmsir hv. ræðumanna hafa í dag gert að umtalsefni fyrirsögnina eða heiti frv. sjálfs. Þar er auðvitað fyrsta og stærsta blekkingin, þar sem er heitið „Frumvarp til laga um orkujöfnunargjald.“ Reyndar er þegar komin fram brtt. frá hv. þm. Pétri Sigurðssyni um að frv. verði kallað það sem það raunverulega heitir: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um söluskatt. Hvar kemur það fram í þessu frv. að hér sé um orkujöfnunargjald að ræða? Hvergi, nema þá í heiti frv. Það er ekki sæmandi fyrir ríkisstj. að leggja mál fyrir Alþ. með þessum hætti. Auðvitað á að sýna um leið, hvernig á að verja því mikla fé sem þarna er ætlunin að afla. Það er hins vegar ekki gert, svo stórt mál er geymt til einhvers síðari tíma.

Það er vitað og kemur reyndar fram í grg. frv., að hér er ekki eingöngu um að ræða fjármagn sem fara á til jöfnunar á orkuverði. Þetta á allt að fara í ríkissjóð 7 milljarðar á þessu ári, segir í grg., 10 milljarðar sé miðað við heilt ár. Ég kem að því síðar, hvort þessar tölur séu réttar. Síðan eru ætlaðir 4.5 milljarðar til orkusparandi aðgerða, eins og það heitir, þar af 4 milljarðar til niðurgreiðslu á olíu til húshitunar. Hitt á að fara í hina óseðjandi hít ríkissjóðs. Hér er auðvitað um að ræða hreina söluskattshækkun og frv. ætti því að heita, eins og ég sagði áðan: „Frumvarp til laga um breyting á lögum um söluskatt, nr. 10/1969.“ Með frv. er söluskattur hækkaður í 24%. Vandræði þeirra, sem búa við olíuupphitun húsa, eru notuð til að koma enn einni skattahækkuninni fram, að þessu sinni hækkun um meira en 11 milljarða, fullyrði ég, sé miðað við heilt ár. Á sama tíma og við hófum umr. um þetta mál var til lokameðferðar í síðari deild frv. til l. um breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, þar sem er um að ræða allt að 5 milljarða kr. viðbótarskattlagningu á landsmenn. Þetta frv. hefur nú verið samþykkt. Og til meðferðar í þinginu er frv. til l. um breyting á lögum um flugvallagjald, þar sem á að ná 350 millj. til viðbótar við það sem áður var. Bensínverðið æðir áfram, auðvitað mest til að ausa enn í ríkissjóð, ekki til vegaframkvæmda. Til þess er leikurinn ekki gerður. Sú hækkun hefur að vísu ekki enn verið ákveðin, en við vitum að það er skammt í hana. Þar er sennilega um að ræða 3.5 milljarða til viðbótar í ríkissjóð. Gengissigið er komið á fullan skrið og reyndar gengisfelling í dag. Allt er á sömu bókina lært. Meiri skattlagning, verðbólguaukandi athafnir hæstv. ríkisstj. með hinum fjölbreytilegasta hætti. Þetta er stjórnleysi eins og það kemur skýrast fram hjá öllum vinstri stjórnum.

Hvað segja sjálfstæðismennirnir í þessari ríkisstj. eða sjálfstæðismennirnir sem hana styðja? Voru þeir kosnir á þing til þessara verka? Ég segi nei. Þótt illa gengi í kosningunum hjá Sjálfstfl., þá er ekkert sem leyfir mönnum að gagnálykta, þar sem ekki var meiri byr, þannig að fara megi eftir stefnu vinstri flokkanna í skattlagningu.

Hér er sem sagt um að ræða beina hækkun á söluskatti. Söluskattskerfið er orðið hreint afskræmi. Það er löngu viðurkennt, að svo hár söluskattur, og þarf raunar ekki að verða eins hár og hér er gert ráð fyrir, 24%, getur ekki gengið af mörgum ástæðum. Meira að segja 20% söluskatturinn var viðurkenndur allt of hár, kerfið hefði gengið sér til húðar. Ýmislegt hefur verið nefnt hér í umr. í dag þessari fullyrðingu til stuðnings. Ég ítreka þetta: Freistingin til undanskots eykst. Óréttlætið í þessari skattlagningu eykst um leið. Það er sífellt kallað á fleiri undanþágur, sem eykur enn á óréttlætið. Og alltaf er verið að gera það erfiðara að taka upp nýtt kerfi, að taka upp virðisaukaskatt. Þó gerir hæstv. sjútvrh. það að sérstöku umræðuefni í ræðu sinni í dag, að stefna beri að því að taka upp virðisaukaskattinn. Það kann að hljóma sem þversögn, en staðreyndin er þó þessi, að eftir því sem undanþágum frá söluskatti fjölgar og skatturinn jafnframt hækkar, þá verður erfiðara að losna við hann, losna út úr því kerfi, þótt hann sé með þessum aðgerðum reyndar eyðilagður sem nýtilegur skattstofn.

En skattæðið heldur áfram hjá hæstv. ríkisstj. Þessa dagana sem sagt allt að 20 milljörðum, sem verið er að leggja á þjóðina í ýmsum nýjum viðbótarsköttum. Kannske tekur það hæstv. ríkisstj. þrjá daga að koma þessu í gegn. Dagurinn hjá ríkisstj. sýnist því ætla að kosta skattgreiðendur í þessu landi um 6.5 milljarða. En meira á eftir að koma. Ýmsar ríkisstofnanir eiga eftir að fá hækkanir á þjónustu sinni. Mér er sagt að Ríkisútvarpið biðji nú um 20% hækkun vegna útvarps og 21.5% vegna sjónvarps. Póstur og sími vill fá 15% hækkun frá 1. maí, 7% frá 1. ágúst og 5% frá 1. nóv. Ríkisskip vill fá 25% hækkun frá 1. maí, 7% 1. ágúst og 5% 1. nóv., og samt vantar þar milljarð. Allt er þetta ofan á nýlega samþykktar hækkanir. Til viðbótar þessu koma svo auðvitað meiri hækkanir vegna söluskattshækkunarinnar sem hér er ráðgerð. Þetta er víst það sem kallað er niðurtalningarleið af hæstv. ríkisstj. þótt allt sé á uppleið. Allt þýðir þetta hækkað verð og aukna verðbólgu. Það er eflaust nauðsynlegt fyrir þau ríkisfyrirtæki, sem ég hef hér talið upp, að fá hækkanir á þjónustu sinni. En þetta snertir hvert einasta heimili í landinu og hlýtur að verða nefnt í sambandi við skattlagningu þá sem við erum hér að ræða sérstaklega.

Nokkur orð frekar varðandi þetta mál. Hvað með samráðið við verkalýðshreyfinguna eða aðila vinnumarkaðarins? Eru ekki ákvæði um það í svokölluðum Ólafslögum? Þau eru að vísu ítrekað þverbrotin og menn eru farnir að reka upp hlátur þegar minnst er á þau hér í sölum Alþingis. Hvers vegna? Er það bara vegna þess að það vantar í þessi lög refsiákvæðin þannig að ráðh. sjá að það er alveg óhætt að brjóta þau, þeir eru ekki settir inn fyrir það? Sjálfsagt er það öðrum þræði ástæðan fyrir því að þau eru brotin. En aðalástæðan er auðvitað sú, að menn vita að þessi lög er marklaust plagg, þau eru marklaus orðin og hafa sjálfsagt verið það frá upphafi, þótt aðstandendur þeirrar ríkisstj., sem setti þau, hafi vart mátt vatni halda af hrifningu yfir þeirri merku stefnu, sem þá var upp tekin í efnahagsmálum, og hæstv. þáv. forsrh. hafinn í æðra veldi fyrir sinn þátt í þeirri löggjöf.

En hver er hin raunverulega upphæð, sem þetta frv. gefur ef að lögum verður? Samkv. fjárlagafrv. er söluskattur áætlaður 123 milljarðar kr. tæpir. Hvert söluskattstig gefur því tæpa 5.6 milljarða og tvö stig til viðbótar 11.2 milljarða, sem þýðir 933.3 millj. á mánuði, ef jafnt innheimtist hvern mánuð. Það má þó ætla, að meira innheimtíst síðari hluta árs. Innheimtan fram í miðjan apríl er því 3.26 milljarðar og eftir standa þá 8, en ekki 7 eins og segir í grg. þessa frv. Þetta þýðir í raun að helmingurinn af því sem þarna á að taka í peningum fer í ríkissjóð á þessu ári og eflaust meira næst.

Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa um þetta fleiri orð á þessu stigi málsins. Þetta mál fer til n. og verður athugað þar gaumgæfilega. Auðvitað á að gera þá kröfu til hæstv. ríkisstj. að hún greini frá því, hvernig þeim tekjum verði ráðstafað, sem af lögfestingu þessa frv. leiðir. Það hefur komið fram hjá hæstv. fjmrh., að tölum fjárlagafrv. verði breytt til samræmis við þessa ráðgerðu skattlagningu, og það út af fyrir sig er rétt og ég finn ekki að því. En það er þó eðlilegra að afgreiða þetta frv. á undan fjárlagafrv. eins og hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, nefndi í ræðu sinni í dag. Þess vegna ætti ríkisstj. að hafa þau ráð að nota þann tíma, sem eftir er fram að páskaleyfi, til þess að ræða þetta mál, en fresta umr. um fjárlagafrv. fram yfir páska. Með því gæfist ríkisstj. færi á að koma frá sér lánsfjáráætlun og afgreiða hana samhliða fjárlagafrv.

Þegar hefur að vísu verið brotin 14. gr. laga um stjórn efnahagsmála, eins og rakið hefur verið, en það má bæta að nokkru fyrir það brot með því að afgreiða lánsfjáráætlunina samfara fjárlagafrv. Hér er sem sagt verið að afla ríkissjóði tekna til ótiltekinna verkefna, að frátöldu því sem fara á í olíustyrk, með hvaða hætti sem það verður gert.

Það má vel vera að það, sem þarna stendur eftir, eigi að renna í rn. hæstv. landbrh. Pálma Jónssonar, eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði í sinni ræðu ítrekað. En fleira má hugsa sér, og ég held að það sé augljóst, að a. m. k. hluti af því, sem þarna stendur eftir og fer í ríkissjóð, eigi að fara til þess að borga það sem kallað er félagsmálapakki hæstv. ríkisstj. Þar með eru þeir, sem njóta eiga þessara félagslegu aðgerða, farnir að borga þær sjálfir með þessari skattlagningu og raunar annarri.

Ég skal svo ljúka máli mínu, herra forseti. Ég ítreka að skattlagningarfrv. sem þetta á ekki að vera lengi til meðferðar í þinginu. Það ýtir undir alls konar óæskilega spákaupmennsku í þjóðfélaginu, þegar fyrir fram er tilkynnt um tveggja prósentustiga söluskattshækkun um leið og gengi er fellt og það áfram látið síga. Hinn óforsvaranlegi undirbúningur ríkisstj. að þessu máli veldur þó því, að málið verður að fá þá athugun í n. og umr. íí þingi sem þörf er á. Ef þeirri athugun og umr. lýkur ekki fyrir páskahlé, þá verður að láta sér það lynda. Þar á ríkisstj. ekki við neinn að sakast annan en sjálfa sig.